Heiður Þetta voru tímar þegar margt sögulegt og fréttnæmt gerðist hér fyrir vestan, segir Jón Páll, hér með skjal þar sem nafnbótin er staðfest.
Heiður Þetta voru tímar þegar margt sögulegt og fréttnæmt gerðist hér fyrir vestan, segir Jón Páll, hér með skjal þar sem nafnbótin er staðfest. — Morgunblaðið/Halldór Sveinbjörnsson
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Fjaran hér á Ísafirði var leikvöllur æsku minnar, en í dag fara börnin á leikskóla. Í þeirri þróun endurspeglast með öðru vel þær miklu breytingar sem orðið hafa á samfélaginu nú þegar ég lít yfir farinn veg,“ segir Jón Páll Halldórsson á Ísafirði. Við hátíðlega athöfn um páskana var hann útnefndur heiðursborgari Ísafjarðarbæjar, það er samkvæmt því sem bæjarstjórnin þar vestra hafði áður einróma samþykkt.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Fjaran hér á Ísafirði var leikvöllur æsku minnar, en í dag fara börnin á leikskóla. Í þeirri þróun endurspeglast með öðru vel þær miklu breytingar sem orðið hafa á samfélaginu nú þegar ég lít yfir farinn veg,“ segir Jón Páll Halldórsson á Ísafirði. Við hátíðlega athöfn um páskana var hann útnefndur heiðursborgari Ísafjarðarbæjar, það er samkvæmt því sem bæjarstjórnin þar vestra hafði áður einróma samþykkt.

Að baki á Jón Páll langan feril, lengstum sem framkvæmdastjóri við sjávarútveginn á Ísafirði. Eftir að þátttöku hans í atvinnulífinu lauk sneri hann sér að fræði- og ritstörfum og er höfundur fimm bóka sem að stofni til fjalla um atvinnusögu Ísafjarðarbæjar. Þá hefur hann skrifað margt fleira um söguleg efni, af góðri þekkingu á málum.

Stýrði einu öflugasta fyrirtæki landsins

Jón Páll er á 95. aldursári, fæddur á Ísafirði 2. október 1929, elstur fimm systkina. Foreldrar hans voru Kristín Svanhildur Guðfinnsdóttir húsmóðir og Halldór Jónsson, sjómaður og verkamaður á Ísafirði.
Að lokinni skólagöngu á Ísafirði fór Jón Páll í Verzlunarskóla Íslands og lauk þaðan verslunarprófi vorið 1948. Sneri hann þá heim aftur og gerðist skrifstofustjóri hjá Togarafélaginu Ísfirðingi. Hann starfaði þar til ársins 1961 og stýrði síðan ýmsum fyrirtækjum á Ísafirði uns hann var ráðinn framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Norðurtanga hf. árið 1969. Gegndi hann því starfi til ársins 1996 eða í rúman aldarfjórðung. Norðurtanginn var þá eitt öflugasta útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki landsins, segir í pistli á vef Ísafjarðarbæjar.

Á sumardaginn fyrsta, 23. apríl 1953, gekk Jón Páll að eiga Huldu Pálmadóttur. Börnin eru þrjú og heimili fjölskyldunnar var að Engjavegi 14 á Ísafirði. Jón Páll sinnti fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir samtök og fyrirtæki í sjávarútvegi. Átti hann meðal annars sæti í stjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og var formaður Vinnuveitendafélags Vestfjarða. Þá var honum margvíslegur heiður sýndur, var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og heiðursmerkjum skátahreyfingarinnar.

Vann hörðum höndum að uppbyggingu

„Jón Páll er einnig verðugur fulltrúi þeirrar kynslóðar sem vann hörðum höndum að uppbyggingu bæjarfélagsins á 20. öld og mótaði það samfélag sem við byggjum í dag,“ segir í rökstuðningi fyrir heiðursborgaranafnbótinni.

Þess má og geta að Jón Páll var á árunum 1950-1970, eða þar um bil, fréttaritari Morgunblaðsins á Ísafirði.

„Þetta voru tímar þegar margt sögulegt og fréttnæmt gerðist hér fyrir vestan,“ rifjar Jón Páll upp í samtali við blaðamann. Nefnir þar meðal annars þann einstæða atburð í febrúar 1953 þegar Barnaskólinn í Hnífsdal fauk af grunni í heilu lagi. Þar innandyra voru m 40 nemendur; fjórir þeirra slösuðust illa svo og skólastjórinn. Þá skrifaði Jón Páll fréttir um sjóslysin í Ísafjarðardjúpi árið 1968. Einnig aflaði hann fregna þegar togarinn Egill rauði fórst undir Grænuhlíð í Ísafjarðardjúpi árið 1955. Fréttum var svo miðlað áfram að vestan til ritstjórnar Morgunblaðsins í gegnum talstöð, sem mæltist þó ekki vel fyrir hjá Landssímanum. Fréttaritarinn fékk skömm í hattinn en svo lognaðist málið út af.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson