Inger Marie Arnholtz fæddist 10. maí 1944. Hún lést 7. mars 2024.

Útför Inger fór fram 4. apríl 2024.

Nú er komið að kveðjustund okkar systra, Inger systir hefur kvatt þennan heim. Við fæddumst báðar í Danmörku og áttum heima þar fram að skilnaði foreldra okkar 1951. Þá brá móðir okkar á það ráð að flytja með okkur heim til Íslands en þar átti hún gott bakland í stórum systkinahópi. Mamma hafði lært ljósmyndun í Danmörku og fékk fljótt vinnu hjá Hans Petersen. Tókst henni með elju og dugnaði að koma okkur til manns. Á sumrin vorum við sendar í sveit og var Inger hjá góðu fólki bæði á Kjalarnesi og í Kjós. Sem unglingur var hún á Kjarlaksvöllum í Dölum og var tekin þar í hljómsveitina á böllum.

Ekki voru mikil efni til fatakaupa á þessum árum. Var þá stundum saumað upp úr gömlu og flíkum breytt á marga vegu. Inger erfði þann hæfileika frá mömmu að vera flink í höndunum. Hún valdi því að fara í Kvennaskólann þar sem handavinna var í hávegum höfð. Sem krakkar vorum við fljótar að ná íslenskunni en sem betur fer tókst okkur að halda í dönskuna. Pabbi sendi okkur reglulega Hjemmet og Familie Journal og oft gáfum við okkur tíma til að tala saman á dönsku. Þá dvaldi Inger hjá pabba okkar í Danmörku og vann þar í nokkra mánuði. Eftir Kvennaskólann vann Inger á skrifstofu Sláturfélags Suðurlands og síðan hjá Eimskipafélagi Íslands.

Eftir að Inger giftist honum Jonna sínum bjuggu þau lengst af í Kópavogi. Þau eignuðust tvo syni, Axel f. 1969 og Hilmar f. 1975, d. 2018. Barnabörnin eru fjögur og eitt langömmubarn. Jonni var ættaður úr Stíflu í Fljótum og þar reistu þau sér sumarbústað sem var mikið notaður. Þar er frjósamt berjaland og silungsveiði í vatninu. Þau ferðuðust mikið um hálendi Íslands að sumarlagi og skruppu til sólarlanda á vetrum.

Inger dreif sig í sjúkraliðanám árið 1977 og útskrifaðist 1979. Starfaði hún síðast á augndeildinni við Eiríksgötu.

Jonni lést árið 2005 eftir stutta baráttu við krabbamein. En Inger var sterk og hélt áfram að lifa. Hún ók um landið á sínum fjallabíl, ýmist ein eða í samfloti með öðrum. Þá ferðaðist hún með okkur hjónum til þriggja heimsálfa, þegar við heimsóttum Taíland, Perú og Marokkó.

Árið 2010 fékk Inger blóðtappa í höfuðið er hún var stödd hjá okkur á Mýrum. Við það missti hún málið að mestu og hægri hliðin lamaðist. Eftir það bjó hún í Boðaþingi og var bundin við hjólastól. Hún kom samt í heimsókn hingað vestur flest sumur, ýmist akandi með okkur eða fljúgandi.

Síðasta ferð okkar systra til útlanda var árið 2014 þegar Inger varð sjötug, en þá heimsóttum við frænku okkar í Danmörku. Þótt Inger ætti erfitt með að tjá sig fylgdist hún vel með öllu, bæði almennum fréttum og íþróttum, sérstaklega boltaleikjum.

Inger vildi alltaf líta vel út og vera fallega klædd. Hún hafði flotta hárgreiðslukonu, hana Rósu, sem kom með jöfnu millibili að laga á henni hárið. Það var gott að koma til Inger í Boðaþinginu, þar hafði hún fallegt og vel búið herbergi, starfsfólkið var ljúft og alltaf kaffi á könnunni.

Ég þakka Inger systur samfylgdina í gegnum lífið og votta Axel og fjölskyldu hans innilega samúð.

Edda systir og Valdimar.