Þorbjörg Einarsdóttir fæddist 11. október 1934. Hún lést 8. mars 2024.
Útför Þorbjargar fór fram 20. mars 2024.
Elsku Dodda móðursystir okkar er fallin frá. Dodda og mamma voru góðar vinkonur og þeirra systrasamband var einstakt. Þær töluðu oft saman og Dodda kom í heimsókn til okkar, hvar sem við bjuggum, og við bjuggum víða á uppvaxtarárum okkar. Mamma kunni ekki við alla þessa flutninga og talaði oft um að hún vildi búa í Reykjavík – til að geta farið oftar í kaffi til Doddu. Það var alltaf gaman þegar Dodda og fjölskylda komu í heimsókn. Það var mjög eftirminnilegt þegar þau komu í heimsókn til okkar í Stokkhólmi. Við söfnuðum öllum fiðrildum sem við fundum og geymdum þau á skrifborði pabba, það var mikið spjallað, hlegið og borðað. Það var líka gaman að koma í heimsókn til Doddu sem krakki, það var alltaf eitthvað spennandi heima hjá henni, talandi páfagaukur, stór málverk og mikil gestrisni og gleði.
Dodda var alltaf glöð og einlæg, hún var heiðarleg og alltaf tilbúin að hjálpa. Dodda var ótrúlega jákvæð og sjálfstæð, hún tók sjúkraliðanám sem fullorðin og fór í ferðir um landið með ferðafélaginu. Þegar móðir okkar veiktist var Dodda einstaklega hjálpsöm. Á seinni stigum veikinda mömmu þekkti hún ekki alltaf okkur systkinin en hún þekkti Doddu systur sína og hrópaði upp yfir sig af ánægju þegar hún sá hana.
Dodda var einstök kona sem við munum sakna. Takk fyrir allt elsku Dodda.
Elsku Gunni, Einsi, Biddý og fjölskyldur, við sendum innilegar samúðarkveðjur.
Hjalti, Trausti, Sigrún,
Einar Magnús og Margrét Jóna.