Skot Dúi Þór Jónsson reynir skot að körfu Hattarmanna á Álftanesi í leik liðanna í gærkvöldi þar sem úrslitin í lokaumferð deildarinnar réðust.
Skot Dúi Þór Jónsson reynir skot að körfu Hattarmanna á Álftanesi í leik liðanna í gærkvöldi þar sem úrslitin í lokaumferð deildarinnar réðust. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslandsmeistarar Tindastóls tryggðu sér naumlega sæti í úrslitakeppni Íslandsmóts karla í körfuknattleik í gær þegar liðið hafði betur gegn Hamri í lokaumferð deildarinnar á Sauðárkróki í gær. Sauðkrækingar þurftu að treysta á að Álftanes myndi…

Körfuboltinn

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Íslandsmeistarar Tindastóls tryggðu sér naumlega sæti í úrslitakeppni Íslandsmóts karla í körfuknattleik í gær þegar liðið hafði betur gegn Hamri í lokaumferð deildarinnar á Sauðárkróki í gær. Sauðkrækingar þurftu að treysta á að Álftanes myndi vinna Hött á Álftanesi, ásamt því að vinna sinn leik, til þess að eiga möguleika á sæti í úrslitakeppninni.

Tindastóll var í harðri baráttu við Stjörnuna um síðasta sætið í úrslitakeppninni fyrir lokaumferðina en Stjarnan þurfti að vinna sinn leik gegn föllnu liði Breiðabliks í Garðabænum, og treysta á að Höttur myndi vinna Álftanes til þess að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni. Örlög bæði Tindastóls og Stjörnunnar, fyrir lokaumferðina, voru því í höndum Álftaness og Hattar.

Leik Tindastóls og Hamars lauk með öruggum sigri Tindastóls, 115:93, þar sem Davis Geks var stigahæstur hjá Tindastóli með 23 stig, ásamt því að gefa eina stoðsendingu í leiknum. Tindastóll tryggði sér þar með 7. sæti deildarinnar, eftir að hafa verið í 9. sætinu fyrir lokaumferðina, með 22 stig en Hamar endaði í 12. og neðsta sætinu með 2 stig og var löngu fallið um deild.

Stjarnan vann einnig öruggan sigur gegn Breiðabliki, 96:80, þar sem Júlíus Orri Ágústsson var stigahæstur Garðbæinga með 18 stig, níu fráköst og tvær stoðsendingar. Þrátt fyrir sigurinn endaði Stjarnan í 9. sæti deildarinnar með 22 stig, líkt og Tindastóll og Höttur, og Garðbæingar verða því ekki í úrslitakeppninni í ár. Breiðablik endaði í 11. sætinu með 4 stig.

Álftanes vann svo níu stiga sigur gegn Hetti, 69:54, þar sem Ville Tahvanainen var stigahæstur Álftnesinga með 12 stig og fimm fráköst. Álftanes lýkur keppni í 6. sætinu með 26 stig en Höttur í 8. sætinu með 22 stig eins og áður hefur komið fram.

Valsmenn, sem höfðu áður tryggt sér deildarmeistaratitilinn, höfðu betur gegn Njarðvík í framlengdum leik í Njarðvík, 114:106. Kristinn Pálsson átti stórleik fyrir Valsmenn, skoraði 41 stig, tók ellefu fráköst og gaf eina stoðsendingu en Njarðvík endaði í 4. sætinu með 30 stig.

Grindavík tryggði sér annað sæti deildarinnar með ellefu stiga sigri gegn Haukum í Ólafssal í Hafnarfirði, 111:100, þar sem Kristófer Björgvinsson skoraði 21 stig fyrir Grindavík, tók tvö fráköst og gaf þrjár stoðsendingar. Grindavík endaði með 30 stig en Haukar í 10. sætinu með 10 stig.

Þór frá Þorlákshöfn endaði í fimmta sæti deildarinnar þrátt fyrir sex stiga sigur gegn Keflavík í Þorlákshöfn, 106:100, þar sem Tómas Valur Þrastarson og Nigel Pruitt skoruðu 20 stig hvor fyrir Þórsara. Þór endaði í 5. sætinu með 30 stig en Keflavík í þriðja sætinu, einnig með 30 stig.

Valur mætir Hetti í átta liða úrslitum Íslandsmótsins, Grindavík mætir Tindastóli, Keflavík mætir Álftanesi og Njarðvík mætir Þór. Valur, Grindavík, Keflavík og Njarðvík byrja öll á heimavelli í einvígum sínum en úrslitakeppnin hefst miðvikudaginn 10. apríl. Vinna þarf tvo leiki til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins.