Karl Hólm Gunnlaugsson fæddist 7. apríl 1950. Hann lést 25. mars 2024.

Útför hans var gerð 4. apríl 2024.

Elsku afi, að setja allt sem þú hefur gefið og gert fyrir okkur í nokkur orð er ómögulegt. Þú varst maður sem ekki einu sinni stærstu lýsingarorð geta náð yfir. Þú varst og verður ávallt fyrirmyndin okkar í einu og öllu.

Bestu minningar okkar tengjast flestar sumarbústaðnum ykkar Uppsölum, en þar leið þér og ömmu svo vel. Takk fyrir að styðja við okkur í öllu, takk fyrir að sýna barnabörnum þínum ávallt mikla ást, takk fyrir að hafa dyr þínar alltaf opnar og takk fyrir að vera besti afi í heimi!

Ljóð til afa

Titillinn afi er eitthvað

sem þú vinnur þér inn.

Karl Hólm verður alltaf afi minn.

Hann bar titlana vinur,

bróðir, tengdapabbi, frændi,

faðir og eiginmaður.

Að bera alla þessa titla

gerðir þú glaður.

Ég var blessuð með það

að eiga þig að.

Munt ávallt eiga í

hjarta mínu stóran stað.

Gat alltaf leitað til þín

þegar eitthvað bjátaði á.

Ást, skilning og hlýju

búist við í staðinn að fá.

Með söknuð í huga og sorg í

hjarta verð ég að kveðja.

Fæ hlýju við það að hugsa að

á himnum mun koma þín marga gleðja.

Þú merki maður ég kveð þig um sinn.

Þangað til næst elsku afi minn.

(Kristbjörg Perla)

Kær kveðja, þínar

Kristbjörg Perla Guðmundsdóttir og Sigurveig Sara Guðmundsdóttir.

Elsku besti afi Kalli, það er gríðarlega sárt að kveðja þig. Það er mín mesta lífsins lukka að hafa átt þig að.

Afa var mjög annt um fólkið sitt, mikill fjölskyldumaður og minningarnar sem hann skapaði með okkur eru óteljandi og ómetanlegar. Mackintosh-regn á jóladag, verslunarmannahelgin á Uppsölum við Þingvallavatn, hversdagslegt kaffi og spjall í sólstofunni – allar stundir með afa voru notalegar. Afi var líka mikill viskubrunnur og hjálpsamur, hlýr og hreinskilinn, úrræðagóður og handlaginn, ofan á að vera besti afi í heimi og meira til.

Ég hef hvergi upplifað jafn mikið öryggi og ég gerði hjá afa Kalla. Að koma heim til hans þar sem hann sat í sófanum að horfa á einhverja íþrótt og ég lagðist hjá honum, höfuðið mitt passaði fullkomlega í holið þar sem vantaði brjóstvöðva. Þegar hann strauk yfir hárið á mér og spurði: „Hvernig hefurðu það píslan mín?“ Ég er orðin 27 ára en hef alltaf verið og verð alltaf píslan hans afa.

Það er erfitt að koma því fyllilega í orð hversu þakklát ég er fyrir afa, allar minningarnar sem ég á og allt það sem hann kenndi mér – og hversu mikið ég hefði viljað hafa þig lengur.

Hvíl í friði elsku besti afi minn.

Þín „písla“,

Thelma Lind

Karlsdóttir.

Elsku Kalli bróðir, mágur og besti vinur er fallinn frá.

Kalli var bróðir Hafdísar, aðeins tveimur árum yngri en hún og minnist hún hans sem einstaklega káts og glaðlynds barns. Haddý og Kalli áttu einstakt og náið samband.

Þegar við hjónin byrjuðum að slá okkur upp var hann mikið með okkur. Hann fór með okkur í ferðalög um landið og var bara alltaf með okkur, okkar besti vinur. Þessi vinátta hélst alla hans ævi svo aldrei féll skuggi á. Þegar hann og Sirrý fóru að vera saman ákváðum við meðal annars að eyða alltaf áramótunum saman. Það fór svo að við skiptumst á að halda veislur hver áramót frá 1970 til 2006, í 36 ár. Þessar áramótaveislur voru það skemmtilegar að börn okkar, tengdabörn og barnabörn bættust við þegar tíminn leið. Við neyddumst því til að hætta með þessa hefð þar sem hópurinn var kominn á fjórða tuginn og ekki pláss lengur fyrir alla á einum stað. Við fórum líka í ferðalög saman, bjuggum rétt hvert hjá öðru í Njarðvík og áttum bústaði hlið við hlið og þannig urðu okkar börn og dætur Sirrýjar og Kalla góðir vinir og eru enn.

Kalli var einstaklega greiðvikinn og alltaf var hann tilbúinn að hjálpa til við allt sem við tókum okkur fyrir hendur. Hann aðstoðaði okkur við húsbyggingar og í verslun okkar. Eftir að hann eignaðist Uppsali, bústað foreldra sinna, var hann okkar helsta hjálparhella þegar við þurftum að framkvæma eitthvað í næsta bústað, Laufási. Hann átti rafmagnsefnið, rörið eða töngina sem vantaði og oft fylgdi hann með og hjálpaði til við verkið. Þau voru ófá matarboðin sem við áttum við Þingvallavatn þar sem við nutum þess að búa til nýjar minningar og rifja upp gamla tíma. Kalli var meistarakokkur og það var gott að koma til hans og Sirrýjar í matarboð. Hann var líka manna duglegastur og þegar við dvöldum saman erlendis var hann oft sá sem útbjó matinn ef boðið var til veislu.

Kalli og Sirrý áttu sælureit í bústaðnum. Kalli fór oft út á vatn til að veiða bæði á stöng og leggja net. Við fylgdumst með honum þegar hann fór út á bát og vildum vita aflatölur og oft kom til okkar poki fullur af fiski sem búið var að flaka. Þau hjónin voru líka dugleg að fara saman í fallegu veðri í siglingu um vatnið. Þau voru samhent hjón.

Kalli gaf Haddý bókina Vinir. Þar hafði hann merkt við texta eftir L. Macfarlane sem hljóðar svo: „Við höfum alltaf verið vinir. Nei, eflaust er það ekki rétt. Einhvern tímann hlýtur vinátta okkar að hafa byrjað, þótt ég muni það ekki. Þú ert það sem ég man fyrst og best alla tíð síðan.“ Þessi tilvitnun lýsir okkar vináttu vel.

Það er erfitt að kveðja Kalla. Eins erfitt og þegar Haddý fór í sveitina þegar Kalli var nýorðinn sjö ára og hún minnist þess hve fallegur hann var og hve erfitt var að hitta hann ekki allt sumarið. Nú hittum við Kalla ekki aftur í bústaðnum, ekki heima í Njarðvík eða förum með honum í ferðalög. Það er mjög erfitt til þess að hugsa og óraunverulegt.

Sorg ykkar er mikil elsku Sirrý og fjölskyldur. Þið styðjið hvert annað eins og alltaf. Innilegar samúðarkveðjur.

Hafdís og Róbert.

Í dag er Kalli bróðir jarðaður og mun ég sakna hans ævinlega. Hann kenndi mér margt af því sem ég kann í dag, eins og að bera virðingu fyrir þeim sem eru eldri og reyndari í lífinu. Hann tók mikið þátt í að ala mig upp.

Þegar ég var 15 ára gamall kom hann heim og sagði að nú væri kominn tími til að ég lærði að keyra og fórum við upp í heiði fyrir ofan Keflavík þar sem braggarnir voru þá, nú er þar Eyjabyggðin. Þegar hann kynntist Sirrý tók hún líka þátt í því. Hann gerði allt sem hann gat fyrir mig, eins og að keyra mig og Nonna vin minn á böll hvert sem við fórum, út í Garð og til Sandgerðis, eða hann lánaði okkur bara bílinn sinn. Eitt skipti hringdi ég í hann og spurði hvort hann gæti sótt okkur. Já já, sagði hann án þess að spyrja hvar við værum, síðan spurði hann og við vorum þá á Hellissandi, kom hann fimm tímum seinna.

Þegar ég var á rækju á Ísafirði kom hann til að leysa mig af á Voninni og viti menn, það var bræla og hann keyrði mig í Sjallann á laugardagskvöldi og náði þar aftur í mig, en þetta kvöld kynntist ég henni Selmu og urðu þau strax bestu vinir. Um morguninn þegar hann vakti mig var það fyrsta sem hann sagði mér líst vel á þessa stúlku og að ég ætti að bjóða henni Selmu aftur út, þá gæti hann sleppti takinu af mér.

Þar byrjaði nýtt líf hjá mér en hann hélt áfram að gera mér greiða eins og honum var gefið. Þegar við eignuðumst fyrsta barnið okkar, hver fór þá á sjúkrahúsið til að ná í móður og barnið því ég var á sjó? Hann, auðvitað. Hann gerði allt sem hann gat fyrir litla bróður sinn.

Ég þakka þér kærlega fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og mína fjölskyldu, kveðja,

Sævar bróðir þinn.

Stórt skarð er komið í systkinahópinn sem er ekki hægt að fylla í.

Elsku Kalli, það er erfitt að trúa því að þú sért farinn frá okkur en þú kvaddir þennan heim 25. mars eftir stutt veikindi. Ég kynntist þér og Sirrý þinni 1983 þegar ég kynntist bróður þínum. Þegar ég kom með honum suður í fyrsta skiptið vorum við boðin í mat til ykkar en ég hafði hitt þig á Ísafirði, þá hafðir þú keyrt mig heim af balli þar sem ég hitti bróður þinn.

Þú varst alveg einstaklega góður maður og það var alltaf gott að koma til þín og Sirrýjar, þið tókuð alltaf vel á móti okkur. Ég á margar góðar minningar, eins og þegar þú komst á fæðingardeildina og náðir í mig og drenginn sem ég og Sævar vorum að eignast því Sævar var á sjó, eða þegar eitthvað bjátaði á hjá mér, þá hringdi ég í þig. Bróðir þinn sagði við mig, ef eitthvað er að hringdu þá í Kalla, en Sævar var oft úti á sjó og Kalli, þú varst bjargvætturinn minn.

Nú ertu horfinn í himnanna borg

og hlýðir á englanna tal.

Burtu er kvíði, sjúkdómur, sorg

í sólbjörtum himnanna sal.

Þeim öllum sem trúa og treysta
á Krist

þar tilbúið föðurland er.

Þar ástvinir mætast í unaðarvist

um eilífð, ó, Jesú, hjá þér.

(Ingibjörg Jónsdóttir)

Elsku Sirrý og fjölskylda, við vottum ykkur samúð okkar, megi guð geyma ykkur.

Kveðja,

Selma og Sævar.

Umhyggju og ástúð þína

okkur veittir hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta,

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Elsku Sirrý, Guðný, Kolla, Hólmfríður, Sólveig og fjölskyldur, missir ykkar er mikill og Kalla frænda verður sárt saknað, en minningin um yndislegan mann lifir í hjörtum okkar.

Anna Steinunn
Gunnlaugsdóttir.