Samstarf „Þetta er afar gefandi og þess vegna erum við að þessu,“ segir Barbara Hannigan um verkefnið.
Samstarf „Þetta er afar gefandi og þess vegna erum við að þessu,“ segir Barbara Hannigan um verkefnið. — Morgunblaðið/Hákon
Kanadíska söngstjarnan Barbara Hannigan stýrir Sinfóníuhljómsveit Íslands í þriðja sinn á þremur árum á tónleikum í Eldborg í kvöld, föstudaginn 5. apríl, kl. 19.30. „Mér finnst mjög gott að vinna með hljómsveitinni og ég held að hljómsveitinni finnist gott að vinna með mér

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Kanadíska söngstjarnan Barbara Hannigan stýrir Sinfóníuhljómsveit Íslands í þriðja sinn á þremur árum á tónleikum í Eldborg í kvöld, föstudaginn 5. apríl, kl. 19.30.

„Mér finnst mjög gott að vinna með hljómsveitinni og ég held að hljómsveitinni finnist gott að vinna með mér. Því höfum við virkilega lagt okkur fram um að finna tíma til að vinna saman á hverju ári, síðustu þrjú ár. Við höfum mætur hvort á öðru og tengingin er gagnkvæm,“ segir hún.

Að þessu sinni flytur Hannigan efnisskrá sem hún frumflutti árið 2021 og hverfist um einleiksóperuna Mannsröddina eða La voix humaine eftir Francis Poulenc.

Persónan er óáreiðanleg

„Þetta er ástarsaga, harmræn ástarsaga. Þetta virðist vera símtal milli konu og fyrrverandi elskhuga en þetta er líka hálfgerður tryllir því hún er stöðugt í mótsögn við sjálfa sig. Hún talar um það hvernig hún myndi frekar kjósa að lifa í tilbúnum heimi en að horfast í augu við raunveruleikann og viðurkennir að hún sé ekki alltaf heiðarleg. Hún talar um hvernig það er sársaukaminna, fyrir hana, að lifa í draumórum sínum. Svo maður er í stöðugum vafa um hvort hún segi sannleikann. Hún er óáreiðanleg en á sama tíma er hún algjörlega áreiðanleg því í samtalinu er einhver sannleikskjarni, í það minnsta tilfinningalegur sannleikur. Tilfinningar hennar, ástarsorg, einmanaleiki og hræðsla, eru sannar og þess vegna er þetta svona kraftmikið verk. Ég elska að syngja þetta verk og þessa uppfærslu sem ég hef skapað. Mennskan er kjarni þessa verks svo að maður finnur til með persónunni.“

Á fyrri hluta efnisskrárinnar er verkið Metamorphosen eftir Richard Strauss, sem er samið fyrir 23 strengjahljóðfæri. „Þetta er með síðustu ef ekki síðasta verkið sem Strauss samdi. Það var eftir að hans elskaða óperuhús var sprengt í loft upp í seinni heimsstyrjöldinni. Hann horfði upp á eyðilegginguna og hugsaði með sér: Hvað höfum við gert í þessu stríði? Og hvað mun taka við? Því er verkið mjög átakanlegt, nánast angurvært verk. Hver strengjaleikari hljómsveitarinnar hefur sitt hlutverk, þeir spila ekki sem samstillt heild heldur er eins og þeir séu allir einleikarar. Þetta er eins og ópera fyrir 23 einleiksstrengi, ópera án orða. Ég elska að kanna þetta verk og ég para það við Mannsröddina af því verkin eiga þessa angurværð og þennan missi sameiginlegan,“ segir Hannigan.

„Það er áskorun að flytja þessi verk. Það er erfitt en líka mjög fullnægjandi því maður gefur sig verkinu á vald. Þetta er allt eða ekkert.“

Afar gefandi samstarf

Hannigan vann með myndbandshönnuðinum Denis Guéguin að uppsetningu Mannsraddarinnar. „Verk Poulencs er ópera og í óperu er þörf fyrir hina sjónrænu þætti. Ég syng mestalla óperuna þannig að ég sný að hljómsveitinni svo að við höfum komið þremur myndavélum fyrir og ég á í samspili við þær allar. Myndunum er svo varpað upp á stóran skjá fyrir aftan hljómsveitina. Þetta er mjög nútímalegt heildarverk en þetta hefur aldrei verið gert svona áður. Að söngvarinn sé á hljómsveitarstjórapallinum gegnt hljómsveitinni og stjórni henni og horfi um leið í myndavélarnar. Þetta er mjög kröftugt konsept. Ég held að áhorfendur muni hafa margt að hugsa um þegar þeir yfirgefa salinn.“

Um samband sitt við Sinfóníuna segir Hannigan: „Að búa til tónlist er mjög náið ferli. Í fyrsta sinn sem maður vinnur með nýju fólki er það spennandi en svo finnur maður fljótt hvort við náum vel saman. Í annað sinn sem unnið er saman dýpkar maður sambandið, eins og við gerðum með Himnasælusinfóníu Mahlers, verk Golfam Khayam og Haydn-sinfóníunni í fyrra. Í þetta sinn förum við enn lengra með mjög krefjandi verk. Poulenc-verkið krefst mikillar samvinnu og að allir taki ábyrgð. Þetta er afar gefandi og þess vegna erum við að þessu.“

Spurð hvort hún geti hugsað sér að koma hér fram í fjórða sinn svarar hún: „Því er auðsvarað. Auðvitað, ég myndi gera það með glöðu geði. Þessi hljómsveit hefur upp á svo margt að bjóða, hún er svo fjölhæf og á svo háu plani.“

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir