Oddvitar Formenn stjórnarflokkanna, þau Katrín Jakobsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson, meta stöðuna í kosningum 2021.
Oddvitar Formenn stjórnarflokkanna, þau Katrín Jakobsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson, meta stöðuna í kosningum 2021. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Brennidepill Andrés Magnússon andres@mbl.is Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun í dag lýsa yfir framboði sínu í forsetakjörinu 1. júní – svona ef marka má helstu veðstuðla, vinsæla álitsgjafa og almannaróm. Og ef það gengur ekki eftir, nú þá gæti það gerst á morgun og ekki síðar en hinn, því Alþingi kemur saman eftir páskafrí á mánudag og þá þarf þetta allt að vera klappað og klárt.

Brennidepill

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun í dag lýsa yfir framboði sínu í forsetakjörinu 1. júní – svona ef marka má helstu veðstuðla, vinsæla álitsgjafa og almannaróm. Og ef það gengur ekki eftir, nú þá gæti það gerst á morgun og ekki síðar en hinn, því Alþingi kemur saman eftir páskafrí á mánudag og þá þarf þetta allt að vera klappað og klárt.

Í sjálfu sér er ekkert í hinu formlega ferli sem ýtir á eftir Katrínu um að gefa það upp svo skjótt hvort hún vilji sækjast eftir kjöri. Kosningarnar eru ekki fyrr en 1. júní og framboðsfrestur rennur ekki út fyrr en hinn 26. apríl.

Katrínu er ekki heldur neitt sérstaklega að vanbúnaði þó hún sé forsætisráðherra, eins og Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðiprófessor og forsetaframbjóðandi, reyndi að halda fram. Stjórnsýslufræðingar, lögspekingar og aðrir stjórnmálafræðingar hafa vísað því öllu bug, eins og m.a. er rakið í frétt á síðu 4.

Pólitísk sjónarmið

Hins vegar eru ýmsar góðar pólitítískar ástæður fyrir því að um leið og Katrín lýsir yfir framboði sínu þurfi hún að segja skilið við ráðherradóminn og Alþingi og einbeita sér að forsetaframboðinu.

Hér skal því spáð (án ábyrgðar!) að Katrín kynni forsetaframboð sitt, greini frá því að hún hyggist biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt á fundi með Guðna Th. Jóhannessyni forseta ekki mörgum dögum síðar, að hún muni jafnframt senda Birgi Ármannssyni forseta Alþingis bréf um að hún láti jafnframt af þingmennsku og segja af sér sem formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Að hún hætti í stjórnmálum, hvernig sem leikar fara í forsetakosningunum.

Með því að brenna allar þær brýr að baki sér verður ljóst að hún leggur allt að veði, gefur sig alla í að bjóða sig fram til Bessastaða. Um leið ætti það að sefa áhyggjur einhverra kjósenda, sem ekki eiga samleið með Vinstri grænum.

Friðsamlegt framhald

Hitt blasir við að þó að Katrín kveðji stjórnmálin, þá er henni ekki sama með hvaða hætti það gerist.

Ef afleiðingin yrði stjórnarkreppa er hætt við að hún yrði aðalatriði í kosningabaráttunni, en miðað við fyrrgreind orð Baldurs Þórhallssonar er viðbúið að hann legði það allt að dyrum Katrínar. Sem kann að vera ósanngjarnt – allir þingmenn eru kjörnir til þess að leysa úr slíkum vanda – en það hefði nú samt ugglaust einhver áhrif.

Af þeim ástæðum vill hún nota tímann sem kostur er til þess að búa vel um hnútana, svo ríkisstjórnarsamstarfið liðist ekki í sundur við það eitt að hún sæki um vinnu annars staðar.

Nýtt ráðuneyti

Það er eflaust ástæða þess að Katrín hefur beðið með að tilkynna framboð. Sagt er að hún hafi fyrst farið að hugsa málið undir páska, en síðan þurfti hún að bíða eftir að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sneri heim úr páskafríi í útlöndum til þess að ræða við hann augliti til auglitis.

En hvernig gæti framhaldið orðið?

Ef núverandi ríkisstjórnarsamstarfi er haldið áfram, þarf að byrja á því að velja nýjan forsætisráðherra til þess að leiða nýtt ráðuneyti.

Bjarni Benediktsson telur skiljanlega að sér beri það, hann sé með flesta þingmenn. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, telur hins vegar að sér sæmi það betur.

Hætt er hins vegar við því að sljákkað hafi í Sigurði Inga eftir nýjustu könnun Gallup, sem sýnir stórkostlegt fylgishrun Framsóknar, þannig að flokkurinn héldi aðeins fjórum þingmönnum af 13. Formenn hafa sagt af sér af minna tilefni.

En svo er ekki víst að menn telji samstarf við Vinstri græna á vetur setjandi. Taki Svandís Svavarsdóttir við taumunum þar, telja margir allt eins líklegt að hún sprengi stjórnina þegar henni henti, í von um að lappa upp á fylgið fyrir kosningar næsta vor eða haust.

Vinstri grænir segjast raunar mjög áfram um að halda áfram í stjórninni og til í að semja af fórnfýsi. Hvíslað er um að ekki sé heldur víst að Svandís verði fengin til að leiða flokkinn, sagt að kannski sé réttara að finna nýrra andlit og þá ber nafn Orra Páls Jóhannssonar þingflokksformanns oftast á góma.

Ekkert er gefið í þeim efnum, enda ýmis erfið mál framundan en skammur tími til stefnu.

Það er því ekki loku fyrir það skotið að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn athugi hvort annað stjórnarmynstur komi til greina. Framsóknarmenn hafa nefnt að Flokkur fólksins kynni að reynast liðtækari, en þó að innan þingflokks sjálfstæðismanna taki sumir undir það, benda aðrir á gamla samherja í Viðreisn.

Það getur því allt gerst og spennandi dagar framundan.

Höf.: Andrés Magnússon