Helgi Hákon Jónsson fæddist í Reykjavík 11. desember 1939. Hann lést á hjartadeild Landspítalans 3. mars 2024. Foreldrar hans voru Klara Bramm, f. 24.7. 1905, d. 29.4. 2008, og Jón Helgason, f. 22.9. 1904, d. 17.5. 1973. Systur Helga eru Auður Kristín, f. 29.4. 1933, og Steinunn, f. 20.5. 1936.

Helgi kvæntist árið 1961 Aðalheiði Birnu Gunnarsdóttur, f. 13.3. 1943. Foreldrar Birnu voru Aðalheiður M. Jóhannsdóttir, f. 6.9. 1904, d. 26.7. 1989, og Gunnar Björn Halldórsson, f. 9.9. 1900, d. 13.10. 1978. Synir Helga og Birnu eru: 1) Hannes Snorri, f. 26.12. 1961. Börn þeirra Huldu Bjargar Víðisdóttur eru: a) Hákon Jarl, maki Anna Ósk Traustadóttir, synir þeirra eru Snorri Steinn og Daníel Trausti. b) Viktor Pétur, maki Elísabet Lorange, sonur Viktors og Gígju Söru Björnsson er Baldur Tómas. c) Heiðrós Tinna, börn hennar og Júlíusar Gunnars Sveinssonar eru Gabríel Sveinn og Maríanna Hulda. d) Hans Hektor, maki Snæbjört Sif Jóhannesdóttir, dóttir þeirra er Glódís Hekla. Sonur Huldu Bjargar frá fyrra sambandi er Víðir Hallgrímsson. 2) Jón Karl, f. 18.1. 1965, maki Fríða Bjarney Jónsdóttir, börn þeirra eru: a) Marteinn Sindri, maki Bryndís Björgvinsdóttir, sonur þeirra er Múli Björgvin og sonur Bryndísar frá fyrra sambandi Fróði Höskuldsson. b) Katrín Helena Jónsdóttir, maki Ólafur Þór Kristinsson, sonur þeirra er Matthías. c) Valgerður Birna, maki Anton Jónas Illugason.

Helgi kvæntist árið 1980 Þórdísi Guðmundsdóttur, f. 9.6. 1950. Foreldrar Þórdísar voru Guðmundur Kolbeinn Eiríksson, f. 19.9. 1906 og Þórný Magnúsdóttir, f. 3.11. 1923. Dóttir Helga og Þórdísar er Klara, f. 2.7. 1979, maki hennar er Rögnvaldur Gísli Rögnvaldsson. Sonur Þórdísar frá fyrra sambandi var Örn Símonarson, f. 16.10. 1970, d. 3.3. 2024. Sonur Arnar (ættleiddur) er Daníel Freyr Sigmarsson, maki Kristjana Bylgja Kristjánsdóttir, börn þeirra eru Tristan Bragi, Óliver Baldur og Embla Birta. Dóttir Arnar og Soleyð i Höyvik er Ronja.

Eftirlifandi sambýliskona Helga er Anna Tim Gíslason, f. 15.1. 1958. Helgi ólst upp á Skólavörðustíg 21a þar sem móðuramma hans, Guðríður Á. Bramm, og síðar Jón faðir hans ráku Fatabúðina. Guðríður var mikil framkvæmdamanneskja og lét hún reisa þetta hús og annað við Skólavörðustíg 21.

Helgi lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1959 og kandídatsprófi í viðskiptafræðum 1966. Hann vann m.a. hjá Verzlunarbankanum og í sjávarútvegsdeild SÍS, og síðar hjá Ríkisendurskoðun. Árið 1970 fékk Helgi réttindi sem löggiltur fasteignasali og starfaði lengst af starfsævinnar sem slíkur, á eigin fasteignasölu og hjá öðrum. Hann fékkst einnig við ýmsan annan sjálfstæðan rekstur. Á efri árum rak Helgi fasteignafélagið Ragúel en það er nefnt eftir móðurafa hans, Ragúel Bjarnasyni, sem teiknaði og byggði svipmiklar byggingar á Ísafirði í byrjun 20. aldar.

Minningarathöfn um Helga verður í Hannesarholti við Grundarstíg 10 í Reykjavík í dag, 5. apríl 2024, klukkan 16.

Vinur minn og skólafélagi til margra ára, Helgi Hákon Jónsson, er nú látinn eftir skamma spítalalegu. Við erum sem næst jafnaldrar, ég og hann, og því eyddum við síðustu árunum af kynnum okkar í að tala um fortíðina og lífið. Við látum unga fólkinu eftir að hugsa um framtíðina. Við töluðum um ævi okkar, fólkið sem við mættum, skólafélagana í Verzló þar sem við urðum stúdentar 1959, æskuástirnar okkar, vonbrigðin í lífinu, börnin okkar, fyrri hjónbönd og sem sagt allan ævirússibanann.

Helgi horfði björtum augum á lífið, þótt eitthvað væri liðið á ævina. Hann talaði oft um hversu góða konu hann ætti, hana Önnu, hve vel hún hugsaði um hann og var honum góður félagi. Síðastliðið sumar fóru þau í frí til Krítar þar sem þau óku um alla eyjuna og skemmtu sér konunglega. Í framhaldinu tóku þau sig til og keyrðu hringveginn um Ísland sem var ekki síðri ferð. Helgi þreyttist ekki á að nefna hversu skemmtilegar þessar ferðir voru og að hann hlakkaði til að fara í næstu ferð.

Svo vildi til að við hittumst á hjartadeild Landspítalans í janúar sl. Við fengum okkur göngutúra eftir endilöngum gangi deildarinnar, settumst á bekk við anddyrið til að hvíla okkur og töluðum um gömlu dagana. Af nógu að taka um ævina, tveir hálfníræðir karlar að rifja upp minningar. Þetta var í síðasta sinn er við hittumst, en við töluðum nokkrum sinnum saman í síma eftir það. Helgi var alltaf hress og bjóst við að njóta sumarsins með Önnu, sem var nýhætt að vinna. En svo fór þetta á annan veg.

Nú er Helgi horfinn til annarra heima. Við sem trúum á annað líf getum vel hugsað til hans hinum megin þar sem hann er að kynnast sínu nýja umhverfi. Hann horfir eflaust yfir til okkar hinna sem enn erum á jörðu hér. Og við sendum honum góðar óskir til nýju heimkynna hans.

Ég votta Önnu og börnum Helga mína dýpstu samúð.

Björn Matthíasson.

Hann Helgi vinur minn er farinn.

Við kynntumst fyrst sem táningar í Verzló en unnum smám saman þann kunningsskap upp í vinskap sem haldist hefur ævilangt. Vinskap, sem efldist og dafnaði og bar aldrei skugga á.

Auðvitað skiptust stundum á skin og skúrir eins og gengur en alltaf urðu sættir. Við höfðum báðir áhuga á útivist og fjallgöngum og gengum öll fjöll og hóla í nágrenni borgarinnar. Lentum í ýmsum hremmingum eins og að falla niður um veikan ís í 12 gráða frosti fjarri mannabyggðum, eða að lenda í sjálfheldu yfir hengiflugi við Botnssúlur.

Aldrei vantaði Helga áræðið eða lausn vandamála. Í frostinu berháttuðum við og fórum innst í þurrustu fötin hvor af öðrum. Ekki æðruorð frá Helga og áfram héldum við að settu marki. Eins var með hengiflugið. Tvö belti og treflar bundin saman björguðu okkur þarna einhvern veginn. Rauði þráðurinn í lífsviðhorfi Helga var að halda ótrauður áfram þótt móti blési.

Seinna meir töluðum við oft um þessi ævintýri okkar, mestu háskafarir.

Lentum þó í ýmsu misjöfnu á okkar þriggja mánaða og nær sex þúsund kílómetra hjólreiðaferðalagi, sem við fórum tveir saman 18 ára gamlir í stað hins hefðbundna stúdentaferðalags. Ferð þessi um Evrópu innsiglaði ennþá betur vinskap okkar og ævilangt samband.

Alltaf mátti treysta Helga og er mér til efs að nokkur maður geti nokkurn tíma eignast betri vin.

Kær samúðarkveðja til aðstandenda.

Hjartans þakkir.

Guðmundur K.
Jónmundsson.