Þrjár kynslóðir Hjördís Geirs, Þórdís Petra og Hera Björk, móðir Þórdísar, syngja saman á tónleikunum.
Þrjár kynslóðir Hjördís Geirs, Þórdís Petra og Hera Björk, móðir Þórdísar, syngja saman á tónleikunum. — Ljósmynd/Ívar Eyþórs
Söngkonan Hjördís Geirsdóttir verður með tónleika í Salnum í Kópavogi sunnudaginn 7. apríl. „Hera Björk, dóttir mín, á stóran þátt í þessu en hún og hin börnin mín ýttu mér út í að halda upp á 65 ára söngafmæli og 80 ára afmæli daginn eftir og …

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Söngkonan Hjördís Geirsdóttir verður með tónleika í Salnum í Kópavogi sunnudaginn 7. apríl. „Hera Björk, dóttir mín, á stóran þátt í þessu en hún og hin börnin mín ýttu mér út í að halda upp á 65 ára söngafmæli og 80 ára afmæli daginn eftir og þau syngja líka með mér auk þess sem fleiri leggja mér lið.“

Hjördís Geirs er úr Flóanum. Gissur Geirs, bróðir hennar, var með hljómsveitina Tónabræður og hún byrjaði 15 ára að syngja með sveitinni 1959. Hún segir að fyrirmyndirnar hafi einkum verið danska barnastjarnan Gitte Hænning, Ella Fitzgerald, Doris Day, Elly Vilhjálms og Helena Eyjólfs. „Ég ólst upp á mjög músíkölsku heimili og fyrir 65 árum voru böll í sveitunum um hverja helgi. Þá voru engir pöbbar og ekkert tónleikastúss. Hljómsveitir komu víða að til að spila á sveitaballamarkaðnum á Suðurlandi og Labbi í Mánum sagði að ég hefði verið drottning sveitaballa Suðurlands frá 1959 til 1964.“

Eftir að Hjördís flutti til Reykjavíkur byrjaði hún fljótlega að leysa Helenu Eyjólfs ófríska af í Þjóðleikhúskjallaranum og söng síðan með hljómsveit Karls Lilliendahl í Víkingasal Hótels Loftleiða í tæp sex ár. „Þetta var veitingastaður og þarna urðu til dæmis köldu borðin til en við héldum uppi fjörinu með alþjóðatónlist á dansleikjunum.“

Eiginmaður Hjördísar er Þórhallur Geirsson. „Eftir að ég hætti í Víkingasalnum ætlaði ég að eignast börn og buru og helga mig heimilinu og gerði það en fékk ekki frið til þess og hélt áfram að syngja með hinum og þessum. Þeir náðu bara í mig þar sem ég stóð yfir pottunum.“

Áhersla á dansmúsík

Hjördís var með eigin danshljómsveit í 12 ár en starfaði síðan hjá ferðaskrifstofum sem skemmtanafararstjóri á Spáni frá 2003 til 2018. „Þá ætlaði ég að hætta að syngja en tvíefldist bara,“ staðhæfir hún. „Ég er með góðan bakgrunn í alþjóðlegri tónlist og hef alltaf lagt áherslu á dansmúsík, sungið lög sem fólk getur dansað við. Rokk og ról og tjatjatja og allt þar á milli.“ Þegar hún hafi sungið með Jóni Sigurðssyni, harmonikuleikara og textahöfundi, hafi þau til dæmis hannað sérstaka dagskrá fyrir dansandi fólk. Hún nefnir sérstaklega hópinn Kátt fólk og Dansklúbbinn Laufið í þessu sambandi. „Dagskráin okkar kallaðist gömlu og nýju dansarnir og bauð upp á alls konar sérdansa og hringdansa, en þessi dansmennt er að deyja út. Ungu mennirnir kunna ekki að spila þessa fínu takta, sem fólk þarf til að dansa eftir.“

Undanfarin ár hefur Hjördís spilað mikið fyrir eldra fólk. „Ég hef verið á fullu að syngja með gítarinn úti um allt, var bakvörður í tónlistinni á Hrafnistu í Hafnarfirði þegar covid skall á og losna ekki þaðan. Ég syng lögin sem fólk á mínum aldri þekkir og kann.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson