Emmanuel Macron forseti Frakklands fordæmdi í gær „ógnandi“ ummæli sem hann sagði varnarmálaráðherra Rússa hafa viðhaft í klukkutímalöngu símtali við franskan starfsbróður sinn í vikunni. Sagði Macron að samtalið hefði undirstrikað þá gjá sem myndast hefur á milli landanna tveggja frá því Rússar réðust inn í Úkraínu fyrir tveimur árum.
Fréttaskýrendur segja að samskipti ráðherranna, í kjölfar hryðjuverkaárásar sem gerð var á tónleikahús í Rússlandi nýlega, boði hvorki stefnubreytingu hjá Frökkum né Rússum.
Sebastien Lecornu varnarmálaráðherra Frakka hringdi í Sergei Shoígú varnarmálaráðherra Rússa á miðvikudag og sagði að Frakkar væru reiðubúnir að auka samskiptin til að berjast gegn hryðjuverkastarfsemi.
En Shoígú sagði í samtalinu að rússnesk stjórnvöld vonuðu að franskar öryggisþjónustur hefðu ekki tengst árásinni, sem hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið hafa lýst á hendur sér.
„Þessi ummæli Rússa voru stórfurðuleg og ógnandi,“ sagði Macron við blaðamenn í gær. „Það er fáránlegt að segja að Frakkar séu að baki þessu, að Úkraínumenn standi þar að baki. Það er fjarri öllu lagi, þetta er afbökun á upplýsingum sem er hluti af vopnabúri Rússa,“ sagði hann.
Macron sagði að frönsk stjórnvöld hefðu haft samband við Rússa þar sem þau hefðu aflað nytsamlegra upplýsinga um uppruna og skipulagningu árásarinnar þar sem að minnsta kosti 144 létu lífið. Rússnesk stjórnvöld hafa ítrekað lýst þeirri skoðun að Úkraína hafi komið að skipulagningu árásarinnar en því vísa stjórnvöld í Kænugarði á bug.