Rétt „Ævisaga Nicky minnir okkur á að við erum öll fær um að gera hið rétta í stöðunni þegar það er nauðsynlegt,“ segir í rýni um One Life. Anthony Hopkins leikur Nicky á efri árum og sést hér meðal áhorfenda í That’s Life.
Rétt „Ævisaga Nicky minnir okkur á að við erum öll fær um að gera hið rétta í stöðunni þegar það er nauðsynlegt,“ segir í rýni um One Life. Anthony Hopkins leikur Nicky á efri árum og sést hér meðal áhorfenda í That’s Life.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sambíóin One Life / Eitt líf ★★★½· Leikstjórn: James Hawes. Handrit: Lucinda Coxon og Nick Drake. Aðalleikarar: Anthony Hopkins, Lena Olin, Johnny Flynn, Helena Bonham Carter, Alex Sharp og Romola Garai. 2023. Bretland. 109 mín.

Kvikmyndir

Jóna Gréta

Hilmarsdóttir

Eflaust hafa margir séð brot úr BBC-sjónvarpsþáttaröðinni, Það er lífið! (e. That’s Life!, 1973-1994), þar sem áhorfendahópurinn í salnum er spurður hvort einhver eigi líf sitt að þakka starfi Nicholas Winton. Á fremsta bekk situr enginn annar en Nicholas Winton sjálfur sem tárast þegar hann sér fólkið í sjónvarpssalnum standa upp en hann sá þau síðast þegar voru aðeins hjálparvana börn.

Eitt líf segir sanna sögu af Nicholas Winton eða Nicky (Anthony Hopkins) sem hefur stundum verið kallaður hinn breski Schindler. Kvikmyndin spannar tvö aðskilin tímabil, þ.e. 1938 þegar Nicky hefur björgunaraðgerðina sína sem fékk síðar nafnið Kindertransport (barnaflutningar) og nærri hálfri öld síðar þegar heimurinn fær loks að vita af afreki hans þegar úrklippubók með nöfnum, heimilisföngum og öðrum upplýsingum um þau börn sem hann hafði bjargað eða ætlað sér að bjarga lenti í réttum höndum. Nicky heimsótti Prag í desember 1938 og varð þar vitni að ástandi fjölskyldna sem höfðu flúið uppgang nasista í Þýskalandi og Austurríki. Fjölskyldurnar bjuggu við ómannsæmandi aðstæður og það var einungis tímaspursmál hvenær nasistar myndu gera innrás í Prag. Nicky gerði sér grein fyrir því að um væri að ræða kapphlaup og skipulagði björgun 669 barna. Winton sá til þess að börnin, sem öll voru aðallega af gyðingaættum, voru flutt með lest frá Prag til Bretlands þar sem fósturfjölskyldur tóku á móti þeim.

Titill myndarinnar, Eitt líf, er sterkur og vísar í tilvitnunina: „Sá sem bjargar einu lífi, hann bjargar heiminum öllum.“ Tilvitnunin endurspeglar það hvernig almenningur sá og sér Nicky enn í dag, þ.e. sem hetju. Sjálfum fannst honum hann ekki hafa gert nóg og þeirri upplifun er miðlað sterkt í myndinni. Níunda lestin sem átti að leggja af stað 1. september 1939 og flytja 250 börn í öryggi, sem var stærsti hópurinn fram að því, kom aldrei en sama dag réðst Þýskaland inn í Pólland. Nicky virðist ekki geta fyrirgefið sjálfum sér það, andlit barnanna sem hann lofaði öryggi en fengu það aldrei eru föst í minni hans. Anthony Hopkins kemur þessari gríðarlegu sektarkennd og sorg sem þjakaði Nicky í fimm áratugi vel til skila með sínum leik.

Hjartnæma augnablikið, þegar Nicky hittir óvænt hluta af fólkinu sem hann bjargaði í sjónvarpsþættinum Það er lífið, er eins og við var að búast í myndinni en fremur aftarlega, sem er góð ákvörðun hjá leikstjóranum. Í myndinni verða því ákveðin tímamót, en eftir að hafa séð allt þetta fólk sem hann bjargaði virðist eiga sér stað eitthvert tilfinningalegt ferðalag, gleðin tekur yfir sorgina og hann leyfir sér í fyrsta skipti að fagna því sem hann áorkaði.

Johnny Flynn leikur Nicky ungan og er einnig mjög sannfærandi sem ástríðufullur leiðtogi auk þess sem hann er ótrúlega líkur Nicky þegar hann var ungur. Flynn hefur ekki leikið í mörgum stórum kvikmyndum en undirrituð þekkti hann úr Emma (Autumn de Wilde, 2020) þar sem hann lék ástarviðfangið Mr. Knightley. Það er greinilegt að Flynn er mjög hæfileikaríkur og það verður því spennandi að fylgjast með honum í komandi verkefnum.

Eitt líf er ekkert kvikmyndaafrek enda er það ekki markmiðið. Kvikmyndatakan, klippingin og myndheildin (f. mise-en-scène) er hefðbundin og þjónar aðeins einum tilgangi, þ.e. að segja sögu Nicholas Winton og allra sem stóðu á bak við björgunaraðgerðina eins til dæmis aktívistanna Doreen Warriner (Romola Garai) og Trevor Chadwick (Alex Sharp) og móður hans, Babi Winton (Helena Bonham Carter). Sagan varð ekki fyrir valinu af því að um sé að ræða góða hugmynd að kvikmyndahandriti heldur valdi leikstjórinn, James Hawes, kvikmyndaformið til þess að miðla áfram þessari mikilvægu sögu.

Ævisaga Nicky minnir okkur á að við erum öll fær um að gera hið rétta í stöðunni þegar það er nauðsynlegt. Þessu er komið til skila í einu atriði þar sem Nicky situr ásamt hinum sjálfboðaliðunum í flóttamannabúðunum í Prag og Doreen Warriner spyr hann hvernig hann ætli sér að finna svona margar fósturfjölskyldur og fjármagna flutninginn til að geta bjargað börnunum. Nicky svarar henni með því að segja að hann trúi á góðmennsku venjulegs fólks því hann sé bara venjulegur maður. Um er að ræða mjög sterkt atriði sem fangar um leið boðskap myndarinnar og skilur eftir ábyrgðartilfinningu hjá áhorfanda en erfitt er að ímynda sér að Nicky hefði látið þar við sitja og horft á þjóðarhreinsunina á Palestínumönnum.