Grænásbraut 910 Skólahúsið er byggingin með blámálaða þakinu.
Grænásbraut 910 Skólahúsið er byggingin með blámálaða þakinu. — Ljósmynd/Keilir
Nanna Kristjana Traustadóttir, framkvæmdastjóri Keilis – Miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs á Ásbrú, segir nokkra aðila hafa sýnt því áhuga að kaupa húsnæði skólans. Þinglýstur eigandi hússins er eignarhaldsfélag í eigu Keilis: Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs ehf

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Nanna Kristjana Traustadóttir, framkvæmdastjóri Keilis – Miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs á Ásbrú, segir nokkra aðila hafa sýnt því áhuga að kaupa húsnæði skólans.

Þinglýstur eigandi hússins er eignarhaldsfélag í eigu Keilis: Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs ehf. Það er í eigu ríkissjóðs (51,35%), Reykjanesbæjar (33,97%), Suðurnesjabæjar (6,24%), Grindavíkurbæjar (6,17%) og sveitarfélagsins Voga (2,27%).

Rúmlega 5.500 fermetrar

Húsnæðið, Grænásbraut 910, kom í sölu í byrjun ársins. Í lýsingu á fasteignavef mbl.is segir meðal annars:

„Um er að ræða steinsteypta byggingu á einni hæð. Birt stærð er 5.507 fermetrar og er hún hönnuð sem skólabygging. Skv. samþykktum teikningum er gert ráð fyrir 21 kennslustofu, mjög rúmgóðu nýstárlegu skrifstofurými sem í dag skiptist í opin skrifstofurými og lokaðar skrifstofur, mötuneyti með eldhúsi, fundarherbergi, samkomusal með upphækkuðu sviði, móttöku, snyrtingum, göngum og rúmgóðum íþróttasal með mikilli lofthæð með möguleika á að byggja aðra hæð upp og tilheyrandi aðstöðu.“

„Það hafa þó nokkrir sýnt eigninni áhuga en málið er á því stigi að það er ekki meira að segja um það að sinni,“ segir Nanna Kristjana.

Nýtt í núverandi mynd

Hafa umræddir aðilar hugmyndir um að nýta húsnæðið í núverandi mynd eða hyggjast þeir byggja við það eða rífa það?

„Ég veit ekki til þess að neinn ætli að gera annað en að nýta sér bygginguna í núverandi mynd að einhverju leyti.“

Hafa tilboð verið lögð fram?

„Já. Það hafa verið lögð fram tilboð.“

En þeim hefur ekki verið tekið?

„Það eru viðræður í gangi. Það er ekki búið að ganga frá neinni sölu enn þá,“ segir Nanna Kristjana um stöðu málsins að lokum.

Höf.: Baldur Arnarson