Skemmtun Lúðrasveit Þorlákshafnar hefur komið víða fram og meðal annars á tónleikunum Korter í þjóðhátíð 2023.
Skemmtun Lúðrasveit Þorlákshafnar hefur komið víða fram og meðal annars á tónleikunum Korter í þjóðhátíð 2023.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lúðrasveit Þorlákshafnar (LÞ) var stofnuð fyrir 40 árum og í tilefni tímamótanna fer hún yfir sunnlenska tónlistarsögu á tónleikum, sem hefjast klukkan 15.00 í íþróttamiðstöð Þorlákshafnar laugardaginn 13

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Lúðrasveit Þorlákshafnar (LÞ) var stofnuð fyrir 40 árum og í tilefni tímamótanna fer hún yfir sunnlenska tónlistarsögu á tónleikum, sem hefjast klukkan 15.00 í íþróttamiðstöð Þorlákshafnar laugardaginn 13. apríl. „Öllu verður tjaldað til og sveitin spilar til dæmis með karlakór í fyrsta sinn,“ segir Daði Þór Einarsson stjórnandi hennar.

Ágústa Ragnarsdóttir formaður LÞ segir að upphaf sveitarinnar megi rekja til ákalls um aukna menningu í stækkandi þorpi. „Ásberg Lárenzínusson básúnuleikari var helsti hvatamaður stofnunarinnar, þekkti vel lúðramennsku frá Stykkishólmi, var vel tengdur inn í bæjarpólitíkina hérna og fékk fólk með sér,“ rifjar hún upp. Undirbúningurinn hafi gengið hratt fyrir sig, fyrsta æfingin verið 23. febrúar 1984 og verkefnin heima og erlendis verið fjölbreytt í 40 ár.

Róbert A. Darling var stjórnandi LÞ fyrstu 32 árin. Hann var nýbyrjaður sem tónlistarkennari við Tónlistarskóla Árnesinga (TÁ) og var réttur maður á réttum stað, að sögn Ágústu. „Hann brann fyrir starfinu og stöðugleikinn skipti mjög miklu máli.“

Öflugt foreldrafélag

Yfir 200 manns hafa spilað í sveitinni frá upphafi og þar af hafa fjögur verið með allan tímann; Róbert, sem spilar mest á barítónhorn, Hermann Jónsson básúnuleikari, Gestur Áskelsson saxófónleikari og Sigríður Kjartansdóttir þverflautuleikari. Róbert, Gestur og Sigríður hafa auk þess öll kennt á hljóðfæri í TÁ. „Fjölskyldutengsl hafa líka verið sterk innan sveitarinnar,“ vekur Ágústa athygli á.

Um 45 manns frá 18 ára og upp í sjötugt eru í lúðrasveitinni og hafa aldrei verið fleiri, en undanfarin ár hafa konur verið í meirihluta. Með sveitinni á tónleikunum koma fram Skítamórall, Karlakór Selfoss, Jónas Sig og Vigdís Hafliðadóttir, sem jafnframt verður kynnir í veislunni. „Við höfðum til sunnlenskra tónskálda og tónlistarmanna,“ segir Daði Þór um efnisskrána, en auk tónlistar frá Jónasi og Skítamóral verða m.a. flutt lög eftir Sigurð Ágústsson frá Birtingaholti, Pál Ísólfsson, Ólaf Þórarinsson, Valgeir Guðjónsson og Daða Frey.

Daði Þór segir að áhersla sé lögð á að vera alltaf með nýtt efni og sveitin láti reglulega útsetja verk fyrir sig. „Allt efnið á tónleikunum er með nýjum útsetningum nema það sem við spilum með Jónasi auk þess sem við notum gamla útsetningu við lagið Brennið þið vitar.“

Foreldrafélagið hefur alla tíð verið mjög öflugt. „Meðalaldur í foreldrafélagi er sennilega hvergi hærri,“ segir Ágústa og bendir á móður sína Sigríði Stefánsdóttur, 75 ára. „Hún er á fullu að baka pönnsur fyrir okkur, græja og gera það sem gera þarf.“ Foreldrafélagið sjái um veitingar og m.a. hádegismat fyrir tónleikana. „Þau sem eiga afkvæmi í þessum félagsskap losna aldrei við ábyrgðina.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson