Diljá Mist Einarsdóttir
Diljá Mist Einarsdóttir
Einhverjum gramdist umfjöllun Viðskiptablaðsins, en gagnrýnin var þó lágværari en við mátti búast.

Diljá Mist Einarsdóttir

Í liðnum mánuði fjallaði Viðskiptablaðið um gögn frá dönsku hagstofunni og fjármálaráðuneytinu, m.a. varðandi stöðu innflytjenda á vinnumarkaði. Af umfjöllun blaðsins má ráða að opinber gögn um innflytjendur í Danmörku séu bæði ítarleg og gefi greinargóðar upplýsingar um viðfangsefnið. Danska fjármálaráðuneytið hefur árlega gefið út skýrslur frá árinu 2015 þar sem hreint framlag innflytjenda til hins opinbera er borið saman við íbúa af dönskum uppruna. Umfjöllun Viðskiptablaðsins var umfangsmikil og byggðist eins og fyrr segir á opinberum upplýsingum.

Einhverjum gramdist umfjöllun Viðskiptablaðsins, en gagnrýnin var þó lágværari en við mátti búast. Aðrir fögnuðu henni. Pólskir innflytjendur og Íslendingar sem tengjast þeim fjölskylduböndum höfðu t.a.m. orð á því við undirritaða. Umfjöllun Viðskiptablaðsins, sem rataði sömuleiðis á miðla Morgunblaðsins, dró nefnilega fram að pólskir innflytjendur í Danmörku væru síður á opinberu framfæri en fólk af dönskum uppruna. Sömuleiðis væri glæpatíðni meðal Pólverja undir meðaltali í sérstakri vísitölu dönsku hagstofunnar. Rétt eins og á Íslandi eru Pólverjar fjölmennasti hópur innflytjenda í Danmörku.

Við getum lært margt af nágrannaþjóðum okkar og margt er líkt með okkur Norðurlandaþjóðum. Mér þótti því rétt að leggja fram fyrirspurn á Alþingi til fjármála- og efnahagsráðherra um hvort íslenska ríkið byggi yfir sambærilegri tölfræði um framlag fólks til og frá hinu opinbera eftir þjóðerni. Fyrirspurnina lagði ég fram í kjölfar umfjöllunar hérlendis um upplýsingasöfnun danskra stjórnvalda. Sömuleiðis óskaði ég eftir upplýsingum um hvort ráðherrann hefði í hyggju að láta taka saman slíka tölfræði, væri hún ekki til. Niðurstaðan, hver sem hún væri, yrði mjög lærdómsrík fyrir okkur. Í framhaldinu gætum við gripið til forvarna og nauðsynlegra ráðstafana kæmi í ljós að staðan væri svipuð hér og í Danmörku.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis.