Þessi mynd er hvorki af Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að biðja þjóðina um stuðning til forsetakjörs, né er hún þarna að biðja forsetann um lausn, en er birt þar sem hún virðist eiga svo ljómandi vel við vikuna.
Þessi mynd er hvorki af Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að biðja þjóðina um stuðning til forsetakjörs, né er hún þarna að biðja forsetann um lausn, en er birt þar sem hún virðist eiga svo ljómandi vel við vikuna. — Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson
Þær 350 ára gömlu fréttir voru sagðar að sálmaskáldið Hallgrímur Pétursson hefði að líkindum ekki verið holdsveikur eftir allt saman. Frekari staðfesting á því mun ekki vera auðveld

30.3-5.4

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Þær 350 ára gömlu fréttir voru sagðar að sálmaskáldið Hallgrímur Pétursson hefði að líkindum ekki verið holdsveikur eftir allt saman. Frekari staðfesting á því mun ekki vera auðveld.

Íslenski fáninn uppgötvaðist á umbúðum sem innihéldu erlent ket. Að líkindum fyrir mistök, enda var upprunalandsins getið með öðrum hætti á umbúðunum.

Fjármálaráðherra lagði fram frumvarp um sölu frekari eignahlutar ríkisins í Íslandsbanka. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lét í ljós áhyggjur af því að peningurinn færi allur í eyðslu hjá ríkisstjórninni.

Sniglarnir, bifhjólasamtök lýðveldisins, fögnuðu 40 ára afmæli.

Ófærð setti mikinn svip á páskahelgina, hringveginum lokað og varað við snjóflóðahættu. Var óhætt að tala um páskahríð frekar en páskahret.

Í páskaboðunum var hins vegar mest fengist við samkvæmisleikinn Hver verður forseti?

Ýmsar vísbendingar fengust um það sem koma skyldi, ekki þó frá frambjóðendum sjálfum, heldur frekar á netinu, þar sem einhver festi sér lénið katrinjakobs.is og lénið jongnarr.is lifnaði með óútfylltu skapalóni kosningavefjar.

Eldur kom upp í urðunarstöð Sorpu á Álfsnesi.

Breyting á fjölda dómara í Hæstarétti kemur til greina að mati dómsmálaráðherra, enda hafa verkefni réttarins minnkað að umfangi eftir að Landsréttur kom til skjalanna.

Úkraínuferð forseta Íslands var frestað af öryggisástæðum, en hann hafði ætlað að vera þar við minningarathöfn um fjöldamorðin í Bútsja fyrir tveimur árum.

Stefán Edelstein, tónlistarskólastjóri og píanóleikari, dó 92 ára.

Orðrómur um að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra væri komin á fremsta hlunn með forsetaframboð varð æ háværari, en þingmenn töldu það aðeins tímaspursmál hvenær af yrði.

Ljóst var að slíkt framboð yrði ekki án afleiðinga fyrir æðstu stjórn ríkisins og var mikið skrafað um hverjar þær gætu helst orðið. Allt frá því að Bjarni Benediktsson yrði forsætisráðherra til þess að Svandís Svavarsdóttir yrði utanríkisráðherra og heimsfriðurinn undir.

Jón Gnarr tilkynnti um forsetaframboð sitt í ávarpi á félagsmiðlum, en þar lagði hann einmitt áherslu á friðarbaráttu.

Á meðan menn höfðu áhyggjur af æðstu stjórn ríkisins afréðu margar æðstu stofnanir ríkisins að láta páskaleyfið teygjast út vikuna eftir páska. Ríkisstjórnin ráðgerði þó fund.

Í Karphúsinu var hins vegar ekki slegið slöku við og stíft fundað milli ýmissa félaga og vinnuveitenda, sem enn eiga ósamið.

Forsetakosningar verða ekki einu kosningarnar þetta árið, því í maí verða sveitarstjórnarkosningar í nýsameinuðu sveitarfélagi Tálknafjarðar og Vesturbyggðar.

Innviðaráðherra komst ekki á opinn fund um Fjarðarheiðargöng vegna ófærðar. Sveitarfélög þar töldu það til sannindamerkis um að þau göng gætu fljótt borgað sig. Skattgreiðendur sveið aftur í veskið.

Stjórnvöld í Reykjanesbæ sögðu að innviðir þar væru komnir að þolmörkum og jafnvel vel það, bærinn hefði verið þaninn fyrir og nú bættust við nýir íbúar úr Grindavík.

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra sneri aftur úr veikindaleyfi og var boðað til snöggs ríkisstjórnarfundar með skömmum fyrirvara til þess að breyta forsetaúrskurði, svo hún gæti tekið til starfa.

Katrín Jakobsdóttir játaði að hún hefði velt forsetaframboði fyrir sér og að hún myndi greina frá ákvörðun sinni innan skamms.

Guðni Th. Jóhannesson forseti sagði kaflaskil eiga sér stað hjá Atlantshafsbandalaginu á 75 ára afmæli þess, sem best sæjust á því að nú væru öll Norðurlönd þar saman komin til þess að mæta nýjum ógnum við frið í Evrópu.

Sjálfstæðismenn í borgarstjórn lögðu til að skólaganga barna hæfist ári fyrr, í fimm ára bekk. Jafnframt myndi skólagöngu þeirra ljúka fyrr. Það myndi bæði koma börnunum og yfirfullum leikskólum vel, að ekki sé minnst á röðina fyrir utan þá.

Vorið lét enn á sér standa og nýrri kuldatíð spáð af veðurfræðingum, hvað sem líður hnattrænni hlýnun.

Vísbendingar eru um að viðskiptakjör Íslendinga hafi versnað til muna upp á síðkastið.

Forystukonur fjársöfnunar til þess að kosta flutning Palestínumanna frá Gasasvæðinu hingað til lands voru kærðar fyrir brot á lögum um fjársafnanir og mögulegar mútugreiðslur til egypskra embættismanna. Þær vísuðu sakarefnum á bug.

Áfengissala á netinu hefur enn aukist, en áfengissala ÁTVR fyrir páskana minnkaði um 3,5% frá í fyrra.

Til stendur að ríkið láti af fjárveitingum til Múlalundar, en þeir sem þar starfa með skerta starfsgetu eiga að fá vinnu á almennum vinnumarkaði.

Framkvæmdastjóri Strætó bs. telur að fyrirtækið þurfi fyrst að ráða við almenningssamgöngur á landi áður en hugað verði að bátastrætó, líkt og tillaga hafði komið fram um.

Unnið er að tillögum um að breyta Háaleitisbraut í svokallaða borgargötu, en þar eru steinar lagðir í götu umferðar.

Matthías Johannessen, fv. ritstjóri Morgunblaðsins, var til grafar borinn.

Þjóðin var gersamlega að springa af spenningi um hvort Katrín Jakobsdóttir myndi opinbera forsetaframboð eða ekki og margvíslegar hviksögur í gangi um það og hvernig rætast myndi úr landstjórninni ef hennar nyti ekki við í forsætisráðuneytinu.

Baldur Þórhallsson forsetaframbjóðandi, sem er prófessor í stjórnmálafræði, fann mögulegu framboði forsætisráðherra allt til foráttu, af myndi hljótast stjórnarkreppa ef ekki stjórnlagakreppa og allt í voða.

Aðrir fræðimenn töldu það af og frá, þjóðin hefði jafnvel lifað af framboð Ólafs Ragnars Grímssonar og haldið honum á Bessastöðum í 20 ár.

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona fór fram í forsetakjör.

Land virtist rísa aftur undir Svartsengi þó enn gjósi.

Maður á sextugsaldri fannst látinn á Fimmvörðuhálsi. Ekkert bendir til þess að lát hans hafi orðið með saknæmum hætti.

Tilkynningum til barnaverndaryfirvalda um brot gegn börnum fjölgaði um 11% á liðnu ári. Á hinn bóginn fækkaði tilkynningum vegna kynferðisofbeldis um 10%.

Forseti Alþingis greindi frá því að langþráðrar fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar væri vænst í næstu viku.

Dekkjaverkstæðisformaður í Reykjavík segir Íslendinga forðast erfiðisstörf, útlendingar séu miklu líklegri til þess að sækja um þau.

Gísli B. Arnkelsson kristniboði dó 91 árs.

Ingvi Þ. Þorsteinsson náttúrufræðingur dó 94 ára.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra eyddi óvissunni á föstudag og gaf út yfirlýsingu um að hún gæfi kost á sér í forsetakjörinu nú í vor.

Katrín greindi frá því að hún myndi á sunnudag ganga á fund forseta Íslands og beiðast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Jafnframt myndi hún láta af þingmennsku og segja af sér sem formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.