„Það er ekki hægt að biðja um betri byrjun. Við fórum í þennan leik til að vinna hann og 3:0 er frábært,“ sagði Hildur Antonsdóttir, miðjukonan sterka, í samtali við Morgunblaðið eftir leik. „Ég er ánægð með baráttuna, við unnum einvígin

„Það er ekki hægt að biðja um betri byrjun. Við fórum í þennan leik til að vinna hann og 3:0 er frábært,“ sagði Hildur Antonsdóttir, miðjukonan sterka, í samtali við Morgunblaðið eftir leik.

„Ég er ánægð með baráttuna, við unnum einvígin. Svo héldum við vel í boltann og spiluðum vel. Þær voru að reyna að pressa okkur en okkur leið vel með boltann,“ bætti hún við.

„Frammistaðan okkar var ótrúlega góð í dag. Það er margt sem við höfum talað um að við viljum bæta og við framkvæmdum það vel. Ég er mjög ánægð með sigurinn, þrjú mörk og að halda hreinu.

Það er mikilvægt að horfa á frammistöðuna líka og mér fannst hún góð. Vinnuframlagið var til staðar, við fórum vel með boltann og lokuðum þeim svæðum sem við vildum. Þær fengu eitt dauðafæri í byrjun, en þá var Fanney geggjuð fyrir aftan okkur,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir.

„Mér leið mjög vel frá fyrstu mínútu. Ég var með góða tilfinningu fyrir leikinn og er mjög sátt,“ sagði Diljá Ýr Zomers, sem skoraði annað mark Íslands í lok fyrri hálfleiks.

„Mér fannst við yfir á flestum stöðum í þessum leik og við áttum þetta skilið,“ sagði Sveindís Jane Jónsdóttir, sem skoraði eitt mark og lagði upp annað.

Nánar er rætt við leikmennina á mbl.is/sport, en þar má einnig nálgast viðtöl við fleiri leikmenn og þjálfarann. johanningi@mbl.is