Eiríkur Grétar Sigurjónsson fæddist 24. mars 1935 í Reykjavík. Hann lést 28. febrúar 2024.

Foreldrar hans voru Sigurjón Eiríksson, f. 1899, d. 1992, og Una Lilja Pálsdóttir, f. 1906, d. 1985. Bræður Grétars voru Páll Guðmundsson, f. 1927, d. 1995, og Helgi, f. 1941, d. 2019.

Maki Grétars var Jóna Þorvaldsdóttir, f. 23. júlí 1935 í Fáskrúðsfirði, látin 16. nóvember 2015.

Börn þeirra eru: 1) Sigurjón, f. 1956, maki Helga Einarsdóttir, börn þeirra: Einar, Arnar og Kristrún. 2) Þorvaldur, f. 1957, maki Sólveig Garðarsdóttir, synir þeirra: Arnar og Jóhann. 3) Una Lilja, f. 1958, maki Ævar Sigdórsson, börn þeirra: Hildur og Grétar Þór. 4) Helgi Þór, f. 1960, maki Anna Níelsdóttir, börn þeirra: Níels og Steinunn. 5) Sigrún, f. 1975, dætur hennar: Íris, Tinna og Lísa. Barnabarnabörnin eru 16.

Grétar ólst upp í Reykjavík og fór ungur að vinna með föður sínum við eftirlit á vitum landsins. Hann lærði bifvélavirkjun í Kistufelli og var á samningi þar og tók sveinspróf 1957. Eftir það starfaði hann við bifreiða- og tækjaviðgerðir. Lengst starfaði hann á Reykjalundi, eða í 30 ár, við bifreiðaakstur.

Grétar og Jóna fluttu í Mosfellssveit árið 1964 og bjuggu á Skólabraut 1, þar til þau minnkuðu við sig og fluttu í Spóahöfðann árið 2001. Jóna lést á hjúkrunarheimilinu Hömrum árið 2015.

Grétar flutti í öryggisíbúð að Eirhömrum í lok árs 2017. Þegar heilsunni hrakaði flutti hann að Hömrum.

Útförin Grétars hefur farið fram og var hann jarðsettur við hlið Jónu konu sinnar í Mosfellskirkjugarði.

Elsku Grétar afi hefur kvatt þetta líf og er farinn til Jónu ömmu þar sem þau sitja saman, líklegast við eldhúsborð, afi er nýkominn úr göngutúr með hundinn, farinn að leggja kapal og amma er sönglandi lag með Álftagerðisbræðrum. Hún er aftur komin á vaktina og sér til þess að afi sé ekki að svindla í kaplinum.

Afi var svona afi sem var alltaf í góðu skapi og sagði aldrei nei við okkur. Næstum aldrei. Hann neitaði þegar við spurðum hvort hann ætlaði ekki að skella sér til útlanda. Aðeins einu sinni lét afi plata sig til útlanda, þegar börnin hans og tengdabörn létu hann skrifa undir blað þess efnis að hann kæmi með í stórfjölskylduferð til Þýskalands. Frábær ferð í alla staði, ferð sem við munum aldrei gleyma enda ekki á hverjum degi sem svona stór hópur skellir sér saman til útlanda – hvað þá árið 1992.

Við systkinin höfum alist upp við þau forréttindi að hafa ömmu og afa nánast í næsta húsi frá því við fæddumst og þar til nú. Þegar þau bjuggu á Skólabrautinni vorum við alltaf með annan fótinn þar, enda nánast við hliðina á skólanum okkar. Þangað vorum við alltaf velkomin, það var alltaf ólæst, alltaf til kex og alltaf hægt að setja Skaupið ´85 í tækið. Lífsgæðin verða ekki mikið meiri hjá börnum á grunnskólaaldri.

Húsbílalífið var stór partur af efri árum ömmu og afa þar sem þau ferðuðust um landið, yfirleitt í félagsskap einhverra afkomenda sinna. Ferðin út í Dyrhólaey á brúðkaupsafmæli þeirra, nokkrar ferðir á Malarrif og ófáar hópferðir í Þjórsárdalinn eru vel varðveittar í ómetanlega minningabankanum.

Afi, við munum örugglega halda áfram að kíkja í gluggann þinn á elliheimilinu þegar við eigum leið framhjá, bara til að sjá hvort þú sért ekki örugglega að horfa á fótbolta eða njóta útsýnisins (þ.e.a.s fylgjast með þeim Benzum sem keyra framhjá).

Takk fyrir allt elsku afi. Við minnumst þín síkáts og síbrosandi og munum passa að halda handabandinu þínu áfram sem við notuðum alltaf þegar við hittumst.

Þín barnabörn,

Hildur og Grétar Þór.

Kæri afi. Minningarnar flytja mig aftur í tímann. Ég sit við eldhúsborðið á Skólabrautinni með ömmu Jónu. Það er kandís í skál og amma segir fréttir frá búðinni Kjarval og þú ert inni í bílskúr að baksa í bílum. Mamma og pabbi sötra kaffi og horfa niður að Varmá meðan ég drekk sodastream með appelsínubragði. Þú kemur úr bílskúrnum og við tökum leyni afa heilsu handbragðið sem ég er nýbúinn að kenna syni mínum. Söknuður og þakklæti er mér efst í huga þegar ég hugsa til þín. Söknuður að þú ert farinn í sumarlandið til ömmu en þakklæti fyrir samveru, minningar og síðast en ekki síst allt það sem þú hefur gert fyrir mig. Já. Bifvélavirki var starf þitt og ég ásamt fleirum naut góðs af því. Fyrsta bílinn fékk ég árið 1997, Mazda 323 ‘89-árgerð. Ég veit ekki hvort ég keypti bara druslur en það kom sér einstaklega vel hvað þú varst flinkur að gera við bíla. Gróft á litið skulda ég þér yfir milljón í peningum fyrir viðgerðarkostnað. Þó þú hafir komið til mín í sjúkraþjálfun þá nær það ekki upp í 10% af vinnuframlagi þínu svo ég hef ákveðið að pabbi láti taka það af arfi sínum gagnvart systkinum sínum. Að öllu gríni slepptu þá munaði ekki miklu að við hefðum fengið Nóbelsverðlaunin saman í eðlisfræði. Í eitt af þessu mörgu skiptum þar sem skipt var um kerti, dempara, bremsuklossa eða hvað þessir hlutir heita. Veit ekki hvort þú kveiðst eða hlakkaðir til þegar ég fór með bílinn minn í skoðun árlega. Sennilega vonaðist þú eftir endurskoðun á bílinn fyrir meiri samveru. Þú að gera við, pabbi að aðstoða þig og ég að handlanga eða sækja kaffi.

Að Nóbelsverðlaununum. Eitt sinn þurftir þú að skipta um bensíntank á Mözdunni. Það gekk býsna vel nema þegar tankurinn var kominn undan bílnum þá kemur í ljós að það var ekkert bensín á tanknum heldur 90% vatn. Þetta fannst þér stórmerkilegt. Sonarsonurinn var á barmi heimsfrægðar nýfallinn í eðlisfræðiáfanga í Menntaskólanum við Sund keyrandi um á vatni. Magnað að þetta fór ekki í heimsfréttirnar nema að vélin var korteri frá að skemmast. Þetta slapp til. Þakka þér.

Ferðaglaður innanlands varstu. Hinir ýmsu húsabílar sem þú komst á koppinn. Þú harðneitaðir hinsvegar að fara út fyrir landsteinana. Nema árið 1992 þegar við stórfjölskyldan með öllum þínum börnum og barnabörnum fórum í ógleymanlega ferð til Þýskalands. Sennilega gaf hún ömmu Jónu meiri gleði en þér. Þú lést aldrei plata þig aftur svona. Því nokkrum mánuðum áður hafðir þú verið á skemmtun með börnunum þínum þar sem nokkrir bjórar flæddu niður vélinda og léttleiki þinn skein skært. Þar varstu látinn undirrita nafn þitt á blað eða var það servíetta? Þar stóð að undirritaður skyldi fara með konu sína og börn erlendis. Þú stóðst við þessi orð en aldrei gerðir þú þessi mistök aftur.

Elsku afi. Minningarnar eru góðar. Lífið er komið að leiðarlokum. Stoltur getur þú verið af samheldni barnanna þinna. Hópur fimm systkina sem öll búa í Mosfellsbæ og eru svo gríðarlega góðir vinir að eftir er tekið.

Takk fyrir allt. Ættarmeðlimur númer 1-1-1-1,

Einar Sigurjónsson.