Ylfa Sóley litla var aðeins fimm mánaða gömul þegar pabbi hennar stytti sér aldur. Eva Björk syrgir góðan mann sem kenndi henni svo margt.
Ylfa Sóley litla var aðeins fimm mánaða gömul þegar pabbi hennar stytti sér aldur. Eva Björk syrgir góðan mann sem kenndi henni svo margt. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hann var að fela fyrir mér það sem var í gangi. En sambúðin var fín í grunninn og lífið var bara skemmtilegra með honum. Ferð í Costco varð til dæmis bara mjög skemmtileg ef hann var með. Og jafnvel þegar hlutirnir fóru að versna hugsaði ég alltaf að allt myndi reddast og við værum alltaf að fara að vera saman

Vestast í Vesturbænum, í notalegri íbúð á Grandaveginum, býr Eva Björk Úlfarsdóttir, fæðingar- og kvensjúkdómalæknir og móðir tveggja barna, Úlfars tólf ára og Ylfu Sóleyjar litlu sem verður bráðum þriggja ára. Eva býður blaðamanni upp á kaffi og kruðerí og við komum okkur vel fyrir við eldhúsborðið. Faðir Ylfu og sambýlismaður Evu, Ísleifur Birgisson, lést árið 2021 en hann féll fyrir eigin hendi. Saga Evu er átakanleg en hún deilir henni hér í von um að hún geti mögulega hjálpað öðrum sem upplifa vonleysi og þurfa bjargráð. Eva hefur gengið í gegnum afar erfiða lífsreynslu en er farin að sjá til sólar á ný því þrátt fyrir allt heldur lífið áfram.

Ísi sagði bestu sögurnar

Fyrstu kynni parsins voru eins og hjá svo mörgu ungu fólki í gegnum stefnumótaforrit.

„Við kynntumst á Tinder en þekktum mikið af sama fólkinu og hann hafði spilað á mörgum skólaböllum í menntó í hljómsveitinni Ölvun ógildir miðann. Hann spilaði á gítar og bassa og söng mjög vel,“ segir Eva.

„Ísi átti tvo stráka fyrir sem voru bara sjö og eins árs þegar við kynntumst. Ég hafði aldrei hitt neinn eins og hann. Hann var svo ótrúlega drífandi og skemmtilegur og sagði bestu sögurnar. Hann var góður og hlýr og örlátur og tók Úlla mínum strax sem sínum. Þeir urðu strax mestu mátar. Hann var góður pabbi og elskaði strákana sína,“ segir Eva og segir Ísa, eins og hún kallar hann, nánast hafa verið fluttan inn til hennar innan mánaðar frá fyrstu kynnum, í ársbyrjun 2018.

„Við gátum talað endalaust saman og ef við vorum ekki saman, þá vorum við að spjalla í síma. Þegar ég flutti til Svíþjóðar vorum við kannski fimm eða sex tíma á dag í símanum. Við vorum svo svakalega ástfangin og góðir vinir,“ segir hún en Eva fór út haustið 2018 til að klára sérnám í fæðingar- og kvensjúkdómalækningum. Þegar hún kom aftur heim flutti Eva beint inn til Ísleifs sem hafði gert sjálfur upp íbúðina sem hún býr í enn í dag.

„Hann var svo rosalega handlaginn,“ segir hún, en á þeim tíma átti Ísleifur fyrirtæki sem hann vann í.

„Ísi hafði stofnað fyrirtækið Sonik árið 2014 ásamt félaga sínum. Þetta var tækjaleiga en Ísi var menntaður hljóðtæknifræðingur frá London,“ segir Eva.

Í byrjun sambandsins lék allt í lyndi en það átti eftir að breytast.

„Þegar við vorum að byrja að búa var skemmtilegt líf á Grandaveginum, áður en hlutirnir fóru að fara niður á við.“

Leitaði í að deyfa sig

Eva segir að þegar þau kynntust hafi hvorki borið á andlegum veikindum né fíkn verið farin að láta á sér kræla.

„Hann var með bullandi ADHD sem getur verið algjör ofurkraftur líka og gerir fólk svo drífandi og skemmtilegt. Það var svo mikill kraftur í honum og alltaf stuð í kringum hann,“ segir Eva og segir að þegar leið á þeirra fyrsta ár saman hafi hún fundið að eitthvað væri að.

„Hann var að fela fyrir mér það sem var í gangi. En sambúðin var fín í grunninn og lífið var bara skemmtilegra með honum. Ferð í Costco varð til dæmis bara mjög skemmtileg ef hann var með. Og jafnvel þegar hlutirnir fóru að versna hugsaði ég alltaf að allt myndi reddast og við værum alltaf að fara að vera saman,“ segir Eva.

„Hann var með plön að gera hluti með okkur í framtíðinni,“ segir Eva og var því brugðið þegar hann reyndi sjálfsvíg í apríl 2020 og var í kjölfarið lagður inn á geðdeild. Hún segist hafa upplifað þá tilraun sem einhvers konar örvæntingu, en hann náði sér svo aftur á strik um hríð.

„Sumarið 2020 var yndislegur tími hjá okkur. Við ferðuðumst um allt Ísland, enda engir ferðamenn hér í covid, og hann var í mjög góðum gír,“ segir Eva og segir að Ísi hafi verið staðráðinn í að standa sig.

„Hann vildi taka sig á í lífinu og var tilbúinn í heilbrigt líf. Ég hélt að allt væri svo gott af því að hann væri edrú, en hann var í raun áfram að ganga í gegnum erfiðleika tengda fyrirtækinu sem urðu honum mjög erfiðir. Hann leitaði þá í að deyfa sig með áfengi og var stundum að fela það,“ segir Eva og segist hafa áttað sig á því eftir andlát hans að hún hafði lifað í blekkingu hvað varðar neyslu hans.

„Ég varð síðan ólétt haustið 2020. Hann var mjög spenntur þegar ljóst var að stelpa væri á leiðinni, en við áttum samtals þrjá stráka og hann dreymdi um að eignast stelpu sem hann gæti dúllast í,“ segir hún og brosir.

Eva segir að fljótlega eftir það hafi farið að halla undan fæti hjá Ísa.

„Ísi var að díla við sín mál og það tók sinn toll af geðheilsunni þennan vetur. Á sama tíma gerðum við tilboð í hæð á Hagamel sem hann ætlaði að gera upp. En svo verður álagið á hann svo gríðarlega mikið hvað varðar fjármálin og fyrirtækið að hann fer að veikjast meira um vorið og hlutirnir versnuðu hratt. Kannski var eitthvað undirliggjandi sem ég hafði ekki tekið eftir, en þarna sá ég virkilega á honum að ekki var allt í lagi. Ég leitaði alls kyns leiða til að fá hjálp fyrir hann til að komast í gegnum þetta og hann gerði sér sjálfur grein fyrir vandanum. Hann vildi svo mikið bæta sig en sá ekki fyrir sér að fá hjálp en geta samt átt skemmtilegt líf,“ segir hún og segir að fíknisjúkdómurinn hafi tekið yfir.

„Hann var farinn að veikjast mikið. Í byrjun júní, þegar ég er gengin 38 vikur á leið, setti ég honum afarkosti; eitthvað þyrfti að breytast.“

Svarið hans var flótti

Eva segir að Ísi hafi þá brugðist sérkennilega við, en hann sagðist ætla að selja íbúðina og flytja til útlanda til að einbeita sér að sínum málum.

„Svarið hans var flótti. Hann vildi selja íbúðina, greiða niður skuldir og byrja í fjárfestingum,“ segir Eva og var að vonum í áfalli, enda var hún kasólétt og sá fram á að maðurinn hennar væri að fara frá henni og hún yrði í þokkabót heimilislaus.

„Við náum svo að tala saman og ég fékk hann til að samþykkja að selja mér íbúðina svo við myndum ekki lenda á leigumarkaði. Ég veit í raun ekki hvað hann var að hugsa, en hann var að flýja. Þegar hann gat svo greitt niður skuldir birti yfir honum og þegar barnið fæddist þá vorum við saman. Ég grátbað hann að fara ekki út en hann fór til Georgíu þegar Ylfa var þriggja vikna. Við töluðum saman á hverjum degi þegar hann var úti. Ég var í raun með honum þarna úti í mynd,“ segir Eva.

„Ég sá þetta heldur ekki alveg skýrt því ég var tilbúin að vera áfram með honum, þrátt fyrir allt þetta, því nú var hann skemmtilegur aftur. Hann kom heim í lok ágúst og var hátt uppi og var búinn að ákveða að hætta að drekka en vildi ekki fara í meðferð. Hann ætlaði svo að flytja aftur inn til mín, án þess að vilja breyta sér. Ég neitaði því aldrei en spurði hvað planið væri. Hann reiddist þá aftur og lét sig hverfa og í þetta sinn talaði hann ekkert við mig. Hann fór aftur til Georgíu en í þetta sinn í sorg og ömurð. Eftir rúman mánuð vorum við samt aftur farin að tala saman og ég fann að mér hlýnaði þegar ég heyrði frá honum. Þennan mánuð sem við töluðum ekki saman hringdi hann samt alltaf í strákana sína og Úlla minn og las fyrir þá á kvöldin,“ segir Eva og segir Ísa hafa komið heim í byrjun nóvember 2021 en ekki flutt inn til hennar.

„Hann var greinilega ekki búinn að hafa það gott; það sást á honum. Ég var alltaf að vonast til að hann tæki sig á og yrði með aftur; það var það sem ég vildi og hann vissi það. Að við værum tvö saman í þessu og myndum fá okkur raðhús með palli. Það var draumurinn, alltaf, að vera venjuleg fjölskylda. Svo leið þessi vika og hann hringdi í mig á föstudagskvöldinu og sagði mér hvað hann elskaði mig mikið; hann hefði aldrei elskað aðra jafn mikið, þakkaði fyrir allt og baðst afsökunar. Ég sagði honum að það væri gagnkvæmt og bauð honum að koma og borða pítsu með okkur. En hann var ekki til í það og bað mig um að kyssa börnin. Hann hafði sagt það sama oft áður þannig að ég horfði ekki sérstaklega í þetta þarna um kvöldið.“

Skrifaði fimm falleg bréf

Á laugardagsmorgun hringir Eva í Ísleif en hann svarar ekki, en hann hafði ætlað að taka strákana þennan dag.

„Ég fór að spá í hvar hann gæti verið og hringdi í eldri strákinn hans og hans fyrrverandi en þau höfðu ekki heyrt í honum heldur. Ég ákvað að fara í íbúðina þar sem hann var en þar var allt lok lok og læs. Þá hringdum við í lögregluna, sem finnur hann þarna inni,“ segir Eva.

„Hans fyrrverandi var með mér og hún sagði að við yrðum að vera undirbúnar að eitthvað hefði gerst. Hann var þá dáinn. Hann hafði undirbúið þetta því hann var búinn að skrifa fimm bréf; eitt til mín og eitt til hvers barns. Þetta voru rosalega fallega skrifuð bréf og hjá sér var hann með símann sinn með mynd af mér og Ylfu á skjánum. Þetta var í raun fallegasta ástarbréf sem ég hef fengið og það stingur í hjartað og ég fæ kökk í hálsinn í hvert sinn sem ég hugsa um það. Ég veit ekki hvað hann var búinn að undirbúa þetta lengi, en þegar hann reyndi þetta í fyrsta sinn hafði hann hringt á síðustu stundu eftir hjálp. Hann óttaðist að lenda aftur á þessum stað og þannig veit ég að hann vildi það ekki. En svo gerist það,“ segir hún.

„Þetta var rosalegt áfall. Þarna taka við samskipti við alla hans nánustu og ég með fimm mánaða gamalt barn og son minn tíu ára sem sá Ísa sem pabba,“ segir Eva og segist hafa þurft að undirbúa jarðarför og fara í gegnum fjármálin hans með fjölskyldunni hans.

„Foreldrar hans tóku hitann og þungann af öllum undirbúningi og voru á sama tíma að ganga í gegn um stærstu martröð allra foreldra. Þau sýndu ótrúlegan styrk,“ segir Eva.

„Ég var búin að reyna svo mikið að hjálpa honum og svo oft búin að reyna að fá hann til að koma og vera með okkur. En hann vildi það ekki. Mig grunaði ekki að hann væri þarna og því hefði ég ekki getað bara svipt hann sjálfræði,“ segir Eva og segist í raun ekki vita hvað hún hefði getað gert meira til að forða honum frá þessum örlögum.

Vildi ekki þiggja hjálp

„Ég var svo á frekar dimmum stað í heilt ár, á sama tíma og ég var heima með Ylfu. Ég sá samt að kerfið virkar þegar það á að virka og hún fékk forgang á leikskóla þegar hún var fjórtán mánaða en ég hefði ekki getað unnið fyrir okkur ef hún hefði ekki fengið pláss. Svo er ég svo heppin að eiga svo góða að. Mamma og pabbi eru svo miklir klettar. Það er svo mikið öryggi fólgið í því. Það er alveg sama hvað gerist, ég veit alltaf að þau eru til staðar og það er svo gott. Svo á ég ótrúlega góð systkini og vini og kollegar mínir á kvennadeildinni eru magnaðir og hafa sýnt mér mikinn stuðning og verið sveigjanleg. Ég á líka yndislega góða tengdafjölskyldu. Ég er með rosalega gott bakland,“ segir Eva.

„Ég viðurkenni þó að það væri gott að fá „skuldlaust“ frí inn á milli, en það kemur síðar,“ segir hún.

Eva segist að vonum hafa velt fyrir sér ástæðu sjálfsvígsins.

„Ísi átti mjög góða æsku og þar voru engin áföll sem gætu útskýrt þessa líðan. Allt hans tráma sneri að fyrirtækinu og fjármálum og svo leitar hann í áfengi sem var kannski hans flótti og deyfing,“ segir Eva og segir fjölskylduna ávallt tala opinskátt um að Ísleifur hafi tekið líf sitt.

„Það er erfitt að vita hvað á að gera til að grípa þessa ungu menn sem íhuga að taka líf sitt. Ísi var svo sterkur karakter og of stoltur og var ekki tilbúinn til að þiggja neina hjálp. Fólk þarf sjálft að vilja hjálp. Ég var endalaust búin að reyna að panta fyrir hann tíma úti um allan bæ, en ef hann vildi ekki fara var ekkert sem ég gat gert.“

Eva segist ekki hafa óttast að Ísleifur myndi reyna aftur sjálfsvíg eftir fyrri tilraunina.

„Ég sá þá tilraun sem örvæntingu yfir að vera að missa frá sér fyrirtækið. Kannski sá ég þetta ekki sem þann alvarlega hlut sem það var.“

Að leita sér hjálpar strax

Sorgin var mikil eftir andlát Ísleifs og Eva sá fram á líf án mannsins sem hún hafði elskað mest.

„Fyrstu vikurnar gat ég ekki talað án þess að fara að gráta. Svo hættir maður að gráta, nema þegar maður dýfir sér ofan í fortíðina,“ segir Eva og segist aldrei hafa upplifað reiði.

„En það nístir inn í merg og bein að hafa ekki getað komið í veg fyrir þetta,“ segir hún.

„Þetta var ekki hann sem gerði þetta; þetta var sjúkdómurinn. Fyrst á eftir leið mér eins og hann hefði dáið í slysi eða úr hjartaáfalli því ég veit að hann vildi þetta ekki. Þessi flótti var bara veikindin, en ég hélt alltaf í vonina um að hann myndi koma til baka. Tilfinningin var eins og hann hefði ekki ákveðið þetta sjálfur, því við vorum búin að eiga þessar samræður svo oft; um þessar hugsanir sem hann hræddist svona mikið. Ég vissi alveg að hann vildi þetta ekki. Þess vegna er svo mikilvægt fyrir fólk sem er að glíma við þunglyndi og sjálfskaðandi hugsanir að þekkja sjálft einkennin. Og tala strax við einhvern; hafa einhver bjargráð. Af því að svo kemur að því að það verður ekki aftur snúið og sjúkdómurinn tekur af þér völdin. Þá biður þú ekki lengur um hjálp,“ segir hún.

Eva segir að þegar hún fór aftur að vinna hafi hún byrjað að rísa smátt og smátt upp úr sorginni.

„Það var svo gott að fara út á vinnumarkaðinn og hitta fólk, en annað sem hjálpaði mér var að taka þunglyndis- og kvíðalyf; það hjálpaði mér rosalega mikið,“ segir hún.

„Geðheilsan var kannski pínu tæp en lyfin lyfta manni upp um nokkur þrep og þótt ég hafi ekki beint verið þunglynd, þá hjálpuðu lyfin mér við að takast á við allt,“ segir Eva.

„Þetta var rosalegt tráma fyrir strákana þrjá, en Ylfa var svo lítil. Úlli minn hefur verið furðu sterkur og staðið sig vel í gegnum þetta allt saman.“

Svo sárt að Ylfa missir af honum

Nú eru liðin tvö og hálft ár síðan Ísleifur dó. Hvernig líður þér í dag?

„Ég hef það bara fínt og það er öllu fólkinu mínu að þakka. Mér finnst rosalega gaman í vinnunni, á frábæra vini og fjölskyldu og í gegnum Ísa græddi ég enn fleiri vini sem ég er í góðu sambandi við í dag. Ég hugsa oft um hvað það væri rosalega gaman að hafa Ísa með í lífinu í dag. Allt sem ég er að gera væri skemmtilegra ef ég hefði hann með mér. Það er líka svo sárt að Ylfa missir af honum og hann af henni. Þau eru svo lík; bæði svo skemmtileg og sterkir karakterar og ég veit að þau hefðu orðið rosalega náin,“ segir hún.

„Ég kem sterkari út úr þessu og rólegri. Þegar við kynntumst var ég að leita mér að framtíðarmaka en er kannski ekki alveg á sama stað í dag. Auðvitað voru veikindin erfið en allt það góða stendur eftir og að því leyti er í stór spor að fylla, og kannski sérstaklega þar sem við vorum svo góðir vinir. Ég hef ekki mikið leitað að ástinni en það kemur kannski síðar. Í augnablikinu hef ég það mjög fínt með börnum mínum, fjölskyldu og vinum. Það er ekki hver sem er sem ég myndi bjóða inn í líf mitt,“ segir Eva sposk á svip.

„Ég lærði svo mikið af Ísa og ég syrgi oft að hafa hann ekki við hlið mér því hann var besti ráðgjafinn. Hann hafði svo mikla innsýn í lífið og var mikill mannþekkjari. Hann kenndi mér að standa með sjálfri mér. Og þótt margt hefði breyst við veikindi hans var ég alltaf að vona að hann kæmi aftur. Hann var það stærsta í mínu lífi.“