Ásta Guðrún Beck
Ásta Guðrún Beck
Einstakir mannkostir myndu gera sr. Guðmund Karl Brynjarsson, sóknarprest í Lindakirkju, að þeim biskupi sem þjóðkirkjan þarfnast nú.

Ásta Guðrún Beck

Dagana 11.-16. apríl nk. verður nýr biskup Íslands kjörinn af þeim sem kosningarétt hafa í því vali. Valið stendur nú milli þriggja presta sem hlutu flestar tilnefningar til kjörsins í sérstöku tilnefningarferli á dögunum. Tilnefningar þeirra þriggja gleðja mig einstaklega mikið því þau þrjú þekki ég að góðu einu saman.

Satt best að segja runnu þó á mig tvær grímur þegar ljóst varð að sr. Guðmundur Karl Brynjarsson, sóknarprestur í Lindakirkju í Kópavogi, var einn hinna þriggja tilnefndu. Tilfinningarnar sem vöknuðu voru mjög blendnar. Hvað ef Gummi Kalli yrði ekki lengur sóknarprestur í Lindakirkju, kirkjunni minni?

Gummi Kalli hefur leitt uppbyggingu Lindakirkju frá grunni. Og þá er ég ekki að tala um byggingu hússins heldur uppbyggingu kirkjunnar sem samfélags. Engu hefur skipt í hvaða umbúðum Lindakirkja hefur verið á þessum uppbyggingartíma. Gummi Kalli horfir nefnilega ekki á umbúðirnar heldur innihaldið og hefur leitt uppbyggingu á blómlegri kirkju, nærandi og lifandi kristilegu samfélagi sem sótt er af ótrúlegum fjölda fólks á öllum aldri. Það hefur einnig hjálpað að hann er snillingur í því að fá hæfileikaríkt fólk til starfa fyrir kirkjuna.

Gummi Kalli er djúpvitur og traustur leiðtogi sem kann þá sjaldgæfu list að hlusta og bera raunverulega virðingu fyrir skoðunum annarra en vera á sama tíma trúr eigin sannfæringu og staðfastur í trúnni á Guð. Hann er alltaf einlægur og hlýr og setur sig aldrei á háan hest.

Hann er einstaklega hugmyndaríkur og skapandi og hefur samið dásamlega tónlist og skapað ýmiss konar myndefni til að miðla Orðinu. Vert er að minnast á alls kyns myndefni og þætti fyrir sunnudagaskóla þjóðkirkjunnar en Gummi Kalli hefur lagt mikla áherslu á fjölbreytt barna- og unglingastarf í Lindakirkju enda er það hans hjartans mál.

Hvað varðar miðlun Orðsins held ég að Gummi Kalli sé löngu búinn að hitta naglann á höfuðið. Hann veit hvað við erum ólík en hann veit líka að öllu fólki er hægt að mæta, hvar sem það er statt. Gummi Kalli er fyrir löngu búinn að átta sig á að Orðinu má miðla með fjölbreyttum hætti, án þess að það sé á einhvern hátt gert léttvægt eða það afbakað.

Sú tilfinning sem vaknaði hjá mér í upphafi var auðvitað aðeins sprottin af eigingirni. Ég vildi ekki missa hann úr Lindakirkju. En auðvitað ætti ég að vilja það sama fyrir aðra ekki satt? Allir í þjóðkirkjunni ættu að geta fengið að njóta öruggrar leiðsagnar hans og handleiðslu.

Þess vegna hvet ég alla þá sem kosningarétt hafa í komandi biskupskjöri til þess að greiða honum atkvæði sitt. Gummi Kalli hefur þá kosti til brunns að bera sem ég tel mikilvæga hjá nýjum leiðtoga þjóðkirkjunnar. Ég er sannfærð um að hann leiði þjóðkirkjuna með öruggum og uppbyggilegum hætti inn í nýja og spennandi tíma.

Höfundur er lögfræðingur.

Höf.: Ásta Guðrún Beck