Furðu margir virðast eiga sér þann óraunhæfa draum að komast á Bessastaði þrátt fyrir að eiga lítinn eða alls engan stuðning meðal þjóðarinnar.
Furðu margir virðast eiga sér þann óraunhæfa draum að komast á Bessastaði þrátt fyrir að eiga lítinn eða alls engan stuðning meðal þjóðarinnar. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Þegar kemur að forsetaframboðum og löngun í framboð þá blasair við að innistæðan er lítil sem engin í of mörgum heilabúum.

Sjónarhorn

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Auðvitað vitum við öll að fólk getur fengið alls kyns furðulegar hugmyndir. Við tökum því yfirleitt með því einu að yppta öxlum og andvarpa kannski svolítið. Það vekur hins vegar allnokkra undrun þegar stór hópur fólks fær sömu óraunhæfu hugdettuna, sem sagt þá að það smellpassi í embætti forseta Íslands. Í hinum hégómlegu hugargælum sínum við hið mikilvæga hlutverk sitt á Bessastöðum gleyma þessir einstaklingar því að þarna er vilji alls ekki allt sem þarf. Það þarf líka að gera ráð fyrir kjósendum. Þessu hafa allnokkrir frambjóðendur ekki hugað að og sömuleiðis þeir sem segjast liggja undir feldi þrátt fyrir að engin eftirspurn sé eftir þeim.

Þjóðin hefur nú í allmargar vikur horft upp á algjöran skrípaleik. Þar hefur hver einstaklingurinn á fætur öðrum stigið fram, mært sjálfan sig hástöfum og lýst yfir áhuga sínum á æðsta embætti þjóðarinnar. Það er vissulega gott að hafa háleita drauma og búa yfir metnaði en um leið verður að vera dágóð innistæða fyrir erindi viðkomandi á Bessastaði. Þegar kemur að forsetaframboðum og löngun í framboð þá blasir við að innistæðan er lítil sem engin í of mörgum heilabúum. Óskhyggjan hefur tekið völdin og skynsemi og raunsætt mat víkur fyrir henni.

Það er ekki skrýtið að fólk skuli tala um skrípaleiki og sirkus þegar forsetaframboð berast í tal. Fólki þykir vænt um forsetaembættið og vill að því sé sýnd virðing og því blöskrar þegar það horfir upp á frambjóðendur sem enginn kærir sig um að kjósa arka upp á svið, breiða úr sér og ætlast til að vera teknir alvarlega. Það er sáraeinfalt að lýsa yfir forsetaframboði, fanga þannig athygli fjölmiðla og finna í kjölfarið slatta af fólki sem er tilbúið að setja nafn sitt á meðmælalista. Það er ekki eins og það þurfi fjöldafylgi til þess. Frambjóðandi sem hefur engan stuðning meðal þjóðarinnar sagði á dögunum að einmitt þetta bæri vott um virkt lýðræði. Það er alrangt. Þarna er verið að misnota lýðræðið og um leið verið að búa til skelfilega vondan farsa sem margir eru hreinlega orðnir miður sín yfir að fylgjast með.

Útlitið er þó ekki alslæmt og segja má að farið sé að sjá til sólar. Blessunarlega hafa komið framboð sem mark er á takandi. Hinn hógværi Baldur Þórhallsson á nokkurn hljómgrunn meðal þjóðarinnar. Jón Gnarr, sem hefur einstakt lag á að koma stöðugt á óvart, sló síðan í gegn í framboðsmyndbandi sem opinberaði einkar vel einlægni hans og hlýju. Hin einstaka Katrín Jakobsdóttir yrði frábær forseti og er reyndar eins og fædd til að vera á Bessastöðum. Hún er sannur þjóðarsómi.

Þessir einstaklingar eiga stuðning mjög víða og hefðu ekki farið í framboð nema vegna þess að þrýstingurinn var orðinn áþreifanlegur. Þeir hafa samt vonandi ekki ýtt frá sér hugsun sem þarf alltaf að vera til staðar í aðstæðum eins og þessum, sem er: Hvað ef ég tapa? Slík hugsun jafngildir engan veginn uppgjöf heldur er hluti af mikilvægri jarðtengingu. Tengingu sem einhverjir forsetaframbjóðendur hafa því miður gjörsamlega glatað. Þess vegna standa þeir uppi nær fylgislausir. Það nægir nefnilega ekki að fjölskyldan og Facebook-hópurinn standi þétt með þeim – heimurinn þar fyrir utan er nefnilega ansi stór.

Kosningabaráttan verður vonandi drengileg. Baldur Þórhallsson gerði nýlega þau slæmu mistök, sennilega vegna skiljanlegrar taugaspennu, að gera framboð Katrínar Jakobsdóttur tortryggilegt. Þetta vinnur ekki með honum eins og hann hlýtur sjálfur að átta sig á.

Það blasir við að ýmsu þarf að breyta varðandi forsetakjör. Fjölga þarf meðmælendum til að koma í veg fyrir að einstaklingar streymi í framboð vegna stórfelldrar oftrúar á ágæti sínu. Best væri að forseti væri kosinn með meirihluta atkvæða, og kosið yrði milli þeirra tveggja efstu næði enginn meirihluta í fyrstu umferð. Forseti hefði þá meirihluta þjóðarinnar á bak við sig og tæki sér bústað á Bessastöðum í sátt við þjóðina. Við viljum umfram allt forseta sem okkur getur þótt vænt um og borið virðingu fyrir.