— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Frambjóðandinn var að bogra við að koma litla fjórblöðungnum inn um lúgu þar er heyrðist gelt fyrir innan og hurðin hrökk upp. Húsbóndinn, Tómas skáld, opnaði og hélt um hundinn, sem varaði hverfið við komu þessa manns. Sá frétti síðar að þarna hitti hann hinn landsfræga Stubb

Varla verður sagt að bréfritari hafi þekkt skáldið Tómas Guðmundsson persónulega, þótt Tómas bæri oft fyrir augu í Austurstræti og undirritaður hafi hitt skáldið stuttlega nokkrum sinnum á meðan hann starfaði hjá Almenna bókafélaginu, sem var til húsa í þeim fræga götustubb, meðal annars fyrir ljóð skáldsins, sem gaf götunni eilíft líf. Þá átti Tómas gjarnan erindi við Baldvin forstjóra þess og eins þáverandi útgáfustjóra forlagsins og bréfritari fylgdi einstaka sinnum með í pakkanum á fundi þeirra með Tómasi. Ekki mundi þó nokkur ætla sér þá dul að lýsa Tómasi eftir þess háttar kynni ein, enda eru til viðtöl í blöðum og sjónvarpi og ágætar bækur um hann eða þar sem hann kemur verulega við sögu, sem skrifaðar voru af þeim sem þekktu hvað best til hans. Eins eru til frásagnir vina hans og samferðamanna sem drógu upp fróðlega mynd af borgarskáldinu, sem raunar var ekki síður þjóðskáld á kaffifundum með félögum sínum í Skálanum eða á fasta borðinu á Hótel Borg.

Mismunandi myndir

Tvær myndir koma þó upp í hugann þar sem við voru einir innan rammans, annars vegar um skamma stund og hin þar sem við deildum kvöldi saman uppi á efstu hæð í Almenna bókafélaginu í Austurstræti.

Litla myndin á þá forsögu, að kosið var til borgarstjórnar vorið 1974 og formaður kjörstjórnar fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, Valgarð Briem, var í forsvari vegna prófkjörs sem ákveðið var að halda í flokknum af þessu tilefni. Á þeim tíma þótti akkur í því að fá sem flesta til að vera í framboði í prófkjörinu til að tryggja að margir flokksmenn kæmu á kjörstað flokksins, því að það sýndi mikinn styrk og skyti andstæðingum hans skelk í bringu. Þetta var metnaðarfull ástæða, en reyndist hafa annmarka. Kjörstjórnarmenn hringdu í fjölda manna, sem voru kunnir og tryggir flokksmenn, og fengu þá til að vera í framboði og allmargir vildu gera flokki sínum þetta viðvik, en gerðu þó ekki nokkurn skapaðan hlut til að tryggja sjálfum sér atkvæði.

Það varð til þess að ýmsir velmetnir og virtir flokksmenn fengu sárafá atkvæði í prófkjörinu, sem kom þeim ekki á óvart, enda ekki til slíks stofnað. En í framhaldinu fóru ýmsir, og þá ekki síst andstæðingar flokksins, að velta sér upp úr úrslitunum og benda á að mikla athygli hefði vakið að þessi eða hinn mektarmaðurinn í Sjálfstæðisflokknum nyti lítils trausts hjá flokkssystkinum sínum, ef marka mætti nýliðið prófkjör. Hlyti þetta vantraust að vera töluvert áfall. Ýmsir urðu sárir og töldu að flokkurinn hefði haldið illa á sínum spilum. Tók nokkurn tíma að jafna þetta. Þaðan í frá voru aðeins þeir í framboði sem tækju þátt í prófkjörinu af alvöru. En bréfritari var óvænt einn þeirra sem hringt var í og hann spurður, hvort hann vildi ekki gera flokknum þann greiða að fara í prófkjörið, því að það vantaði nöfn, ekki síst ungt fólk, til að breikka prófkjörslistann. Sá hafði þá ekkert um þetta hugsað. Fjölskyldan bjó í snoturri tveggja herbergja íbúð á Lynghaga 20. Sonurinn þriggja ára hjólaði um litla ganginn, svo að „húsbóndinn“ setti hönd fyrir talhólfið og spurði drenginn þegar hann hjólaði fram hjá, hvort pabbi ætti að fara í prófkjör. „Já,“ sagði hann, án þess að stoppa eða líta við. „Já,“ sagði pabbinn við Valgarð Briem.

Alvaran bankar upp á

Eftir nokkra daga áttaði viðkomandi sig á, að hann væri kominn í öngstræti og bað nokkra vini sína um að hjálpa sér við að komast hjá pólitísku hneyksli. Þeir hlógu að óviljandi frambjóðandanum, en tóku beiðninni vel og sögðust myndu leggja sitt af mörkum. Útbúinn var fjögurra síðna bæklingur (A-5) með mynd af frambjóðandanum og hann samdi sjálfur texta um ágæti hans í hvívetna og undir var skrifað „stuðningsmenn“. „Oft hefur verið logið meira en þar“ huggaði hann sig við. Borginni var skipt niður á menn og frambjóðandinn var í fyrstu lotu látinn dreifa bæklingi sínum í Eiríksgötu, Leifsgötu og Egilsgötu. Og það var á Egilsgötu sem litla myndin birtist. Frambjóðandinn var að bogra við að koma litla fjórblöðungnum inn um lúgu þar er heyrðist gelt fyrir innan og hurðin hrökk upp. Húsbóndinn, Tómas skáld, opnaði og hélt um hundinn, sem varaði hverfið við komu þessa manns. Sá frétti síðar að þarna hitti hann hinn landsfræga hund Stubb. Frægt kvæði Tómasar um hann var birt á forsíðu Morgunblaðsins einhverjum árum síðar. Tómas tók upp fjórblöðunginn og bar myndina á „forsíðunni“ við útburðarmanninn. Hann virtist renna í grun að þar færi sami maðurinn. Því næst sneri hann blöðungnum við og þar var hrósið um frambjóðandann, skrifað af „stuðningsmönnunum“. Það las Tómas upphátt fyrir okkur Stubb, sem var óneitanlega frekar óþægilegt. „Það er augljóst að stuðningsmennirnir hafa mikla trú á sínum manni,“ sagði hann, „og mér sýnist líklegt að þú bærir þetta ekki út fyrir þá, nema vera þeim sammála.“ Það varð að jánka því og þá gelti Stubbur og gerði ágreining. Tómas brosti því næst og óskaði útburðarmanninum velfarnaðar og bað hann um að flytja frambjóðandanum, sem stuðningmenn hans hefðu svona mikið álit á, góða kveðju frá sér. Svo rétti hann fram höndina til staðfestingar. Stærri myndin birtist nokkrum árum síðar. Tómas Guðmundsson var að verða 75 ára hinn 6. janúar 1976. Forráðamenn Almenna bókafélagsins ákváðu í tæka tíð að þess yrði forlagið að minnast með myndarlegum hætti. Var ákveðið að gefa út á ný ljóðabók Tómasar, Stjörnur vorsins, í sérstöku bandi og í 1.500 eintökum sem Tómas Guðmundsson myndi árita.

Örlög stjórnmálanna lúta engum lögmálum

Litla birtingarmyndin, sem fyrr er nefnd, hafði skilað sínu, hvort sem það var bæklingstetrið eða eitthvert annað kraftaverk. Eins og fyrr sagði voru tugir manna í framboði, sem litu á þetta sem greiða við flokkinn sinn og voru ekki að sækjast eftir rullu eða frama. Laganeminn og þingfréttaritari Morgunblaðsins var nú hjá Almenna bókafélaginu. Hann hafði lent í 10. sæti í prófkjörinu og var himinlifandi yfir því. Í kosningunum 1970 hafði D-listinn fengið 8 menn og ef eins færi nú yrði hann 2. varamaður í borgarstjórn og gat mjög vel unað við. Kosið var vorið 1974. Þegar framboðslistinn fyrir þær kosningar var settur saman, þá horfðu vitringar til þess að tveir læknar væru í 8. og 9. sæti, þeir Páll Gíslason og Úlfar Þórðarson, þegar horft væri til prófkjörsins. Valgarð Briem hringdi enn og sagði að kjörnefndin teldi sigurstranglegra að færa unga manninn úr Útvarpi Matthildi yfir í níunda sætið og hefði Úlfar sagt að flokkurinn gæti haft það eins og hentaði. Og nú væri frambjóðandinn spurður, formsins vegna, hvort maðurinn í 10. sæti gæti sætt sig við að bæta stöðu sína og samþykkti að fara upp í 9. sæti. Sá maður sleppti því að spyrja strákinn á plastþríhjólinu um ráð og hélt nú það og sá fyrir sér að miðað við hagfelld úrslit fyrir Sjálfstæðisflokkinn þá yrði hann orðinn 1. varamaður flokksins í borgarstjórn að kosningum loknum. En kosninganóttin kom enn með viðbótarkonfektmola, því að flokkurinn, undir forystu Birgis Ísleifs, bætti við sig einu sæti og fékk 9 borgarfulltrúa á móti 6 hjá andstæðingunum og maðurinn sem stefndi glaðbeittur í að verða 2. varamaður í borgarstjórn, var allt í einu orðinn yngsti borgarfulltrúi sögunnar, og án þess að hafa gert mikið til þess. En hann hélt áfram að vera hjá AB, lausamaður í skrifum á Mogganum í Aðalstræti og látast vera laganemi í Háskólanum. Og þess á milli skrifuðu matthildingarnir þrír leikrit sem Sveinn Einarsson þjóðleikhússtjóri bað Brynju Ben að setja upp í Þjóðleikhúsinu og sýnt var 40 sinnum eða svo.

Tómas enn

Yfirmennirnir í AB fólu þeim sama að sitja fram eftir kvöldi og fram á nótt og vera Tómasi Guðmundssyni til samlætis, þegar aðrir og mikilvægari starfsmenn væru farnir heim, og skáldið hefði náð að árita 1.500 einstök af Stjörnum vorsins. Var áréttað að halda yrði vel á spöðunum og ekki kæmi annað til greina en að hver bók yrði árituð þetta kvöld, enda óvíst hvort það tækist síðar. Síst af öllu mætti hressa sig á áfengum drykk meðan á þessari þrekraun stæði og á því bæri starfsmaður forlagsins, sem á vaktinni væri, fulla ábyrgð. Þegar aðrir voru farnir heim fylgdi forstjórinn skáldinu inn í skrifstofu starfsmannsins, því þarna skyldi verkið byrja, og halda áfram og því yrði að ljúka þetta kvöld. Skrifstofumaðurinn leitaðist við að halda sér til hlés, þótt skrifstofan væri ekkert gímald, svo að Tómas væri því sem næst einn, nema þegar honum hentaði annað, á milli lotna. Á borði hafði verið komið fyrir einu og öðru til að narta í. Te og kaffi var á könnum, appelsín og maltöl eða þess háttar. Tómas stoppaði reglulega, stóð upp, gekk um gólf og þar fram eftir götunum og þó þurfti ekkert að kvarta undan afköstum hans. Og þá var spjallað notalega stundarkorn og svo sest við á nýjan leik. Fulltrúi forlagsins var hinn ánægðasti og þóttist sjá að allt yrði þetta til fyrirmyndar og stefndi til sigurs beggja! Á því augnabliki stoppaði Tómas, benti á borðið sem fyrr var nefnt og sagði efnislega: Er þetta það eina sem þú býður okkur upp á? Eða átt þú eitthvað sem er sæmandi? „Það get ég ekki sagt,“ sagði nýbakaður borgarfulltrúinn. „Nei, það getur þú ekki sagt.“ Svo kom óþægileg þögn. Svo var sagt: „Það er erfitt að ímynda sér að stuðningsmennirnir hefðu verið jafn ánægðir með frambjóðandann sinn, sæju þeir hann núna og þeir voru forðum.“ Starfsmaðurinn stóð hikandi upp og teygði sig innarlega í skápinn, sem bannhelgi hvíldi á. Svo var „farið varlega með það litla sem til er“ og undirritaður hefur haldið því fram, þegar hann hefur rætt þetta mál við sjálfan sig, að bæði skriftin og úthaldið hjá skáldinu góða hafi verið jafngott eða jafnvel betra eftir því sem leið á kvöldið.