Barátta Garðbæingurinn Guðmundur Baldvin Nökkvason í baráttunni við Víkinginn Viktor Örlyg Andrason í leik liðanna á síðasta keppnistímabili.
Barátta Garðbæingurinn Guðmundur Baldvin Nökkvason í baráttunni við Víkinginn Viktor Örlyg Andrason í leik liðanna á síðasta keppnistímabili. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Besta deild karla í knattspyrnu hefst í kvöld þegar Íslands- og bikarmeistarar Víkings úr Reykjavík taka á móti Stjörnunni í upphafsleiknum á Víkingsvelli í Fossvogi klukkan 19:15. Víkingar fögnuðu sigri á Íslandsmótinu á síðustu leiktíð á meðan Stjarnan hafnaði í 3

Besta deildin

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Besta deild karla í knattspyrnu hefst í kvöld þegar Íslands- og bikarmeistarar Víkings úr Reykjavík taka á móti Stjörnunni í upphafsleiknum á Víkingsvelli í Fossvogi klukkan 19:15. Víkingar fögnuðu sigri á Íslandsmótinu á síðustu leiktíð á meðan Stjarnan hafnaði í 3. sæti deildarinnar og var það lið sem kom mest á óvart. Það má gera fastlega ráð fyrir því að bæði lið verði að berjast í efri hluta deildarinnar í allt sumar, sér í lagi Víkingar sem ætla sér að verja titilinn frá síðustu leiktíð.

Á morgun fara fram fjórir leikir en Fram og Vestri mætast í Úlfarsárdal klukkan 13. Framarar höfnuðu í 10. sæti deildarinnar á síðustu leiktíð og rétt sluppu við fall í lokaumferðinni. Rúnar Kristinsson er tekinn við stjórnartaumunum í Úlfarsárdalnum og er markmiðið að koma Frömurum aftur í fremstu röð á næstu árum. Vestri, sem er nýliði í deildinni, tryggði sér sæti í efstu deild með sigri gegn Aftureldingu í umspili á Laugardalsvelli en liðið hafnaði í fjórða sæti 1. deildarinnar.

Klukkan 17 mætast svo KA og HK á Akureyri en bæði lið enduðu í neðri hluta deildarinnar á síðustu leiktíð. Akureyringar höfnuðu í 7. sætinu á meðan HK hafnaði í 9. sætinu en leikmannahópar beggja liða eru talsvert breyttir frá síðustu leiktíð. Ef eitthvað er að marka spána fyrir komandi tímabil gætu bæði lið lent í vandræðum í sumar og sogast niður í fallbaráttuna.

Valur tekur á móti ÍA á Hlíðarenda klukkan 19:15 en Valsmenn enduðu í öðru sætinu á síðustu leiktíð og ætla sér að gera betur í ár. Valsmenn eru líklega með best mannaða lið deildarinnar, farandi inn í mótið, en Skagamenn eru nýliðar í deildinni eftir að hafa fagnað sigri í 1. deildinni. Hlutskipti liðanna í sumar gæti orðið heldur ólíkt, þar sem Valsmenn verða að öllum líkindum að berjast á toppnum á meðan Skagamenn gætu þurft að berjast fyrir lífi sínu.

Klukkan 19:15 mætast einnig Fylkir og KR í Árbænum en Fylkismenn eru á sínu öðru tímabili í deildinni eftir að hafa hafnað í 8. sætinu á síðustu leiktíð. Sumarið gæti orðið erfitt í Árbænum en koma Orra Hrafns Kjartanssonar frá Val í vikunni ætti að gefa liðinu aukakraft. KR hafnaði í 6. sæti á síðustu leiktíð og er Gregg Ryder tekinn við stjórnartaumunum hjá félaginu. Þá hefur liðið sótt öfluga íslenska leikmenn úr atvinnumennsku til þess að blanda sér í baráttuna um efstu sætin.

Fyrstu umferðinni lýkur svo á mánudaginn þegar Breiðablik tekur á móti FH á Kópavogsvelli. Blikar fögnuðu sigri á Íslandsmótinu 2022 með miklum yfirburðum en liðið olli ákveðum vonbrigðum á síðustu leiktíð þegar það hafnaði í 4. sæti deildarinnar. Margir vonast til þess að Breiðablik berjist við Víkinga og Val um toppsæti deildarinnar og þeir hafa alla burði til þess. FH endaði í 5. sætinu á síðustu leiktíð eftir að hafa verið nálægt því að falla tímabilið 2022 en Hafnfirðingar ætla sér að gera betur en 5. sætið í ár.