[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skagstrendingar eru ýmsu vanir í samskiptum við veðurguðina gegnum tíðina. Nú í vetur hefur verið blíðuveður lengst af með frosti og stillum. Hafi komið snjóföl hefur hún verið horfin aftur eftir þrjá, fjóra daga

Úr bæjarlífinu

Ólafur Bernódusson

Skagaströnd

Skagstrendingar eru ýmsu vanir í samskiptum við veðurguðina gegnum tíðina. Nú í vetur hefur verið blíðuveður lengst af með frosti og stillum. Hafi komið snjóföl hefur hún verið horfin aftur eftir þrjá, fjóra daga. Í vikunni fyrir pálmasunnudag kom svo veturinn af fullum þunga. Þá hlóð niður töluverðum snjó á rúmlega einum sólarhring, mun meiri en samanlagt í vetur fram að því.

Í páskavikunni og um páskana sjálfa var svo leiðindaveður með roki og skafhríð með tilheyrandi umferðartöfum og basli. Þess vegna var ekki hægt að loka sveitarfélagsbuddunni alveg strax, a.m.k. ekki hólfinu þar sem snjómoksturspeningarnir eru.

Eftir nokkrar tafir vegna erfiðleika við efniskaup á stáli, undirritaði Ólafur Þór Ólafsson, starfandi sveitarstjóri, verksamning við Borgarverk ehf. í Borgarnesi 15. janúar síðastliðinn um endurbyggingu á Ásgarði (gömlu löndunarbryggjunni) í höfninni. Bryggjan, sem er gömul staurabryggja byggð upp úr 1940, er mjög illa farin þannig að ekki hefur verið óhætt að fara um hana á bílum í nokkur ár.

Helstu verkþættir sem samningurinn felur í sér eru að fjarlægja steypta þekju og polla af núverandi bryggju, endurnýja fyllinguna, reka niður um það bil 230 metra stálþil utan um núverandi bryggju og ganga frá því. Steypa síðan kantbita með pollum, kanttré, stigum og þybbum.

Framkvæmdir munu hefjast nú á næstunni en áætluð verklok eru í desember á þessu ári. Verksamningurinn við Borgarverk hljóðar upp á tæplega 167 milljónir en heildarkostnaður við verkið er í samgönguáætlun talinn verða 265 milljónir. Kostnaður við verkið skiptist þannig að sveitarfélagið greiðir 25% en siglingasvið Vegagerðarinnar 75%.

Nú er unnið að gagngerum breytingum og endurbótum á neðstu hæð stjórnsýsluhússins. Þegar þeim lýkur mun Landsbankinn flytja afgreiðslu sína þangað úr því stóra húsnæði sem útibúið er í í dag. Þá verða póstboxin flutt inn í anddyrið, en þau eru nú áveðurs utan á húsinu. Í anddyrinu verða líka safn-póstkassi og hraðbanki frá Landsbankanum. Skrifstofur sveitarfélagsins eru á hæðinni og verða þar áfram. Auk þessa verður laust skrifstofurými þarna sem minni fyrirtæki á staðnum líta hýru auga.

Talandi um breytingar og endurbætur. Nú á dögunum fékkst styrkur frá innviðaráðuneytinu til SSNV upp á 15 milljónir króna og þaðan áfram til sveitarfélagsins til að breyta gamla móttökuhúsi Rækjuvinnslunnar í svokallað samvinnurými. Slíkt rými á að búa til með því að standsetja og markaðssetja húsið og skapa þannig forsendur fyrir léttan iðnað í hluta hússins ásamt aðstöðu fyrir frumkvöðla og minni fyrirtæki. Húsið er í eigu sveitarfélagsins og hefur að hluta verið nýtt sem geymsluhús undanfarin ár fyrir hjólhýsi, húsbíla og tjaldvagna. Nú þegar eru ýmsar hugmyndir í gangi um nýtingu því í húsinu er hátt til lofts og vítt til veggja þannig að eftir breytingarnar býður það upp á mjög marga möguleika.

Upp úr áramótunum óskaði sveitarfélagið eftir tilnefningum um Eldhuga ársins á Skagaströnd. Alls bárust 40 tilnefningar en titilinn hlaut Björgunarsveitin Strönd fyrir framlag sitt til samfélagsins í gegnum árin. Sveitin er ágætlega tækjum búin og sér m.a. um rekstur á björgunarskipinu Húnabjörgu. Liðsmenn sveitarinnar eru ávallt reiðubúnir að koma til hjálpar hvort sem er að nóttu eða degi á landi eða sjó.

Ekki hefur verið keppt um titilinn skákmeistari Skagastrandar í meira en áratug. Nú í mars var því efnt til skákmóts þar sem átta skákmenn áttust við. Mótinu lauk þannig að Martin Krempa sigraði með sex vinninga en hann keppti sem gestur á mótinu þannig að Lárus Ægir Guðmundsson var krýndur skákmeistari Skagastrandar með fimm vinninga. Mótið var styrkt af fyrirtækinu H 59 ehf.

Íþróttahúsið býður öllum 60 ára og eldri að koma saman þar og stunda pokakast. Það felst í að reyna að kasta litlum grjónapokum ofan í gat á bretti í sjö metra fjarlægð. Það hljómar ekkert sérlega spennandi en er samt hin besta skemmtun og töluverð hreyfing því eftir hverja lotu þarf auðvitað að sækja pokana sína aftur. Leikurinn er vinsæll meðal þessa hóps og mæta milli tíu og tuttugu manns á þriðjudagsmorgnum til að taka þátt.

Listamiðstöðin Nes býður í hverjum mánuði fólk velkomið á opið hús í vinnuaðstöðu listamannanna. Listamennirnir, sem fást við hinar ýmsu listgreinar, eru yfirleitt ekki á Skagaströnd nema einn til tvo mánuði í senn. Á þessum opnu húsum kynna þeir afrakstur vinnu sinnar þann tíma sem þeir hafa dvalið á Skagaströnd. Alltaf er spennandi og skemmtilegt að sjá hvað fólkið hefur skapað og spjalla við það um verk sín. Tíu til fimmtán listamenn víðs vegar úr heiminum eru hjá Nes-listamiðstöðinni hverju sinni.

Samkvæmt nefndarmanni í viðræðunefnd Skagabyggðar, um sameiningu Skagabyggðar og Húnabyggðar, verður ekki hægt að kjósa um sameininguna 1. júní eins og fyrirhugað var. Samningar sveitarfélaganna eru flóknari en fólk hafði gert sér grein fyrir en viðræður milli nefndanna halda áfram þó ekki sé búið að ákveða kosningadaginn.

Höf.: Ólafur Bernódusson