Rjúpa Ákvörðun um stjórnun veiða verður byggð á veiði og talningum.
Rjúpa Ákvörðun um stjórnun veiða verður byggð á veiði og talningum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ný stjórnunar- og verndaráætlun fyrir rjúpnastofninn var kynnt á fundi ríkisstjórnarinnar í gær, en þar eru gerðar umtalsverðar breytingar á núverandi fyrirkomulagi. „Það er breið sátt um þetta,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson,…

Ný stjórnunar- og verndaráætlun fyrir rjúpnastofninn var kynnt á fundi ríkisstjórnarinnar í gær, en þar eru gerðar umtalsverðar breytingar á núverandi fyrirkomulagi. „Það er breið sátt um þetta,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í samtali við Morgunblaðið.

Gert er ráð fyrir svæðisbundinni veiðistjórn rjúpu í stað þess að allt landið verði eitt veiðistjórnunarsvæði, enda viðkoma rjúpunnar mismikil eftir landsvæðum. Með svæðisbundinni veiðistýringu er auðveldara að ná því markmiði áætlunarinnar að viðhalda ákjósanlegri verndarstöðu stofnsins en standa jafnframt vörð um sjálfbærar veiðar. Þetta kemur fram í minnisblaði sem Guðlaugur Þór lagði fram á fundinum.

Landsvæðin eru Vesturland, Vestfirðir, Norðvesturland, Norðausturland, Austurland og Suðurland.

Í áætluninni er gert ráð fyrir að frá og með næsta hausti hefjist veiðin fyrsta föstudag eftir 20. október og veitt verði samfellt í fimm heila daga í hverri viku í senn, föstudag til þriðjudags.

Það stofnlíkan sem áætlunin er byggð á vinnur með tvo gagnastrauma. Annars vegar er þar um að ræða upplýsingar úr rjúpnatalningum og hins vegar upplýsingar frá veiðimönnum um veiði hvers árs. Gert er ráð fyrir að í kjölfar rjúpnatalninga að vori sem fram fara í apríl og maí, eigi tillögur um veiðistjórnun næsta veiðitímabils að liggja fyrir í júní ár hvert. Ákvörðun um tilhögun veiða, þ.m.t. fjölda veiðidaga árið 2024, mun því liggja fyrir í júní á þessu ári. Veiðitímabilin munu hlaupa á fimm daga bilum. Veiðitímabil getur þannig verið 0, 5, 10, 15, 20 dagar o.s.frv.

Nýja stjórnunar- og verndaráætlunin er afurð vinnu Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands sem unnið hafa að gerð hennar síðastliðin ár í samráði við Skotvís og Fuglavernd. Þá var dr. Fred Johnson, bandarískur sérfræðingur með áratuga reynslu í líkanagerð og veiðistjórnun við háskóla í Danmörku og Bandaríkjunum, fenginn til að leiða vinnuna í samvinnu við hagsmunaaðila og ráðuneytið.

„Ég er mjög ánægður með þessa vinnu sem unnin var af okkar bestu sérfræðingum innanlands og mjög hæfum erlendum einstaklingi sem þekkir þessi mál vel. Þetta nýja fyrirkomulag er faglegt, vísindalegt og skapar fyrirsjáanleika. Búið er að bíða lengi eftir þessari stjórnunar- og verndaráætlun,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson.