Börn í Rafah Börn horfa gegnum hlið á lokuðu svæði í Rafah syðst á Gasa þar sem fjöldi fólks hefur leitað skjóls.
Börn í Rafah Börn horfa gegnum hlið á lokuðu svæði í Rafah syðst á Gasa þar sem fjöldi fólks hefur leitað skjóls. — AFP/Mohammed Abed
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði í gær að „dreifðar aðgerðir“ til að koma hjálpargögnum inn á Gasasvæðið nægðu ekki. Stjórnvöld í Ísrael tilkynntu SÞ í gær að þau myndu heimila þýðingarmikla aukningu á hjálpargögnum inn á svæðið

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði í gær að „dreifðar aðgerðir“ til að koma hjálpargögnum inn á Gasasvæðið nægðu ekki. Stjórnvöld í Ísrael tilkynntu SÞ í gær að þau myndu heimila þýðingarmikla aukningu á hjálpargögnum inn á svæðið.

„Það er ekki nóg að grípa til dreifðra aðgerða – við þurfum hugarfarsbreytingu,“ sagði Guterres við blaðamenn í höfuðstöðvum SÞ í New York.

Charles Michel, forseti ráðherraráðs Evrópusambandsins, sagði einnig í gær að yfirlýsing Ísraelsmanna um að þeir ætluðu að opna tímabundið fleiri leiðir inn á Gasa til að flytja þangað hjálpargögn nægði ekki í ljósi mannúðarkrísunnar sem þar ríkti og opna þyrfti fleiri leiðir þangað.

„Börn á Gasa eru að deyja úr vannæringu. Það þarf umtalsverðar og skjótar aðgerðir strax til að stöðva að hungur sé notað sem hernaðartæki í stríðinu á Gasa,“ skrifaði Michel á X.

Annalena Baerbock utanríkisráðherra Þýskalands sagði að Ísraelsstjórn gæti ekki borið fram neinar frekari afsakanir fyrir því að tefja flutning hjálpargagna til Gasasvæðisins. „Fólkið á Gasa þarf á aðstoð að halda strax. Við reiknum með því að Ísraelsstjórn standi við yfirlýsingar sínar án tafar,“ sagði Baerbock á X. „Engar frekari afsakanir.“

Ísraelsstjórn sagðist í gær ætla að leyfa tímabundinn flutning hjálpargagna til norðurhluta Gasasvæðisins þar sem hungursneyð er yfirvofandi. Sagði skrifstofa Benjamíns Netanjahús forsætisráðherra Ísraels að leyfður yrði ímabundinn flutningur hjálpargagna í gegnum höfnina Ashdod og Erez-svæðið ásamt því sem aukinn flutningur verður leyfður frá Jórdaníu og um landamærastöðina Kerem Shalom.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði á miðvikudag við Netanjahú að Ísraelsmenn þyrftu að gera meira til þess að verja óbreytta borgara á Gasasvæðinu ef þeir vildu halda áfram að njóta stuðnings Bandaríkjamanna. Þá hvatti Biden Netanjahú til þess að semja um tafarlaust vopnahlé við Hamas-samtökin og stórauka þá neyðaraðstoð sem nú er send til Gasa.

Ísraelsher viðurkennir mistök

Ísraelsher birti í gær fyrstu niðurstöður úr rannsókn á því hvers vegna Ísraelsher gerði drónaárásir á þrjá bíla hjálparsamtakanna World Central Kitchen á mánudag. Sjö alþjóðlegir starfsmenn samtakanna létu lífið og hefur árásin verið fordæmd víða um heim.

Hjálparstarfsmennirnir voru drepnir í drónaárásum á þrjá bíla hjálparsamtakanna á fjögurra mínútna tímabili. Einhverjir lifðu af árásirnar á fyrstu bílana tvo og flúðu yfir í þriðja bílinn en þá var árás einnig gerð á hann. Sagði Ísraelsher að hermenn hefðu talið sig vera að ráðast á vopnaða Hamas-liða. Þótt bílarnir væru greinilega merktir hjálparsamtökunum hefðu myndavélar ekki greint þær merkingar í myrkrinu. Viðurkenndi herinn að um væri að ræða röð alvarlegra mistaka og að reglur hersins um árásir hefðu ekki verið virtar. Tveir liðsforingjar, sem fyrirskipuðu árásina, hafa verið reknir og yfirmaður stjórnstöðvar áminntur.

„Þetta er harmleikur. Þetta eru alvarleg mistök sem við berum ábyrgð á,“ sagði Daniel Hagari talsmaður Ísraelshers við blaðamenn og bætti við að tryggt yrði að slíkt endurtæki sig ekki.

Utanríkisráðuneyti Póllands sagði í gær að skýringar sem Ísraelsmenn hefðu gefið væru ófullnægjandi og krafðist þess að óháð sakamálarannsókn færi fram en einn hjálparstarfsmaðurinn sem lét lífið í árásinni var pólskur. World Central Kitchen kröfðust þess einnig að fram færi óháð rannsókn á málinu og sögðu ekki trúverðugt að Ísraelsher rannsakaði eigin verk.

Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði afar mikilvægt að Ísraelsmenn hefðu axlað fulla ábyrgð á málinu.

Skýrt var frá því í gær að Bill Burns, forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar CIA, myndi halda til Kaíró, höfuðborgar Egyptalands, um helgina til viðræðna við David Barnea, yfirmann ísraelsku leyniþjónustunnar Mossad, og embættismenn frá Egyptalandi og Katar um lausn gísla sem eru í haldi á Gasa.

Mannréttindaráð SÞ samþykkti í gær ályktun þar sem þess er krafist að allri vopnasölu til Ísraels verði hætt til að koma í veg fyrir frekari brot á alþjóðalögum og mannréttindum. Vísað er til þess að Alþjóðadómstóllinn í Haag hafi í janúar komist að þeirri niðurstöðu að raunveruleg hætta sé yfirvofandi á að framið verði þjóðarmorð á Gasa. 28 ríki greiddu tillögunni atkvæði, sex voru á móti og 13 sátu hjá.