Þorvaldur Tómas Jónsson
Þorvaldur Tómas Jónsson
Við berum mikla ábyrgð því við erum ekki aðeins að velja fyrir okkur sjálf heldur fyrir samfélagið allt.

Þorvaldur Tómas Jónsson

Við sem njótum þeirra forréttinda að greiða atkvæði í biskupskjöri þurfum að velja á milli þriggja afar frambærilegra kosta. Sem kjörfulltrúar berum við mikla ábyrgð því við erum ekki aðeins að velja fyrir okkur sjálf heldur fyrir samfélagið allt. Þjóðkirkjan er jú kirkjan okkar allra og biskupinn biskup okkar allra.

Við sem störfum í sóknarnefndum vitum að störf kirkjunnar þjóna eru fjölbreytt og krefjandi í meira mæli en við gerum okkur grein fyrir í fljótu bragði. Við vitum af sunnudagsmessunni og bregðum okkur jafnvel í kirkju um hátíðar en veltum minna fyrir okkur þeim stóra hluta starfsins sem fer fram þannig að við verðum þess ekki vör frá degi til dags, en því mikilvægara er það fyrir þá sem þjónustunnar njóta hverju sinni.

Við hin sömu þekkjum einnig hina praktísku hlið mála þegar kemur að rekstri sókna og kirkna. Þar eru lykilorðin aðhald og útsjónarsemi og má jafnvel á köflum líkja verkefninu við það að reyna að leggja saman tvo og tvo til að fá út fimm. Vonandi þarf nýr biskup ekki að vasast mikið í fjármálum en óhjákvæmilega mun það í ljósi þess sem á undan er gengið reyna á leiðtoga kirkjunnar að fylgja eftir framkvæmd laga um sóknargjöld sem hafa verið lögð til hliðar af fjárveitingavaldinu við fjárveitingar síðustu 15 ára og kirkjunni úthlutað umtalsvert lægri fjármunum en henni ber skv. lögunum. Í grein sinni í Morgunblaðinu þann 22. mars sl. reifar Elínborg Sturludóttir m.a. þetta mál og mikilvægi úrlausnar þess fyrir starf sóknanna.

Elínborg hefur annars – fyrir utan það að vera heilsteypt og vel gefin manneskja – afburða góðan bakgrunn og reynslu til að takast á við starf biskups. Hún hefur þjónað sem sóknarprestur í ólíkum samfélögum á Snæfellsnesi, í Borgarfirði og við Dómkirkjuna í Reykjavík. Hún þekkir landið og fólkið. Við sem höfum notið þeirrar gæfu að starfa með henni vitum að hún er allt í senn, góður prédikari, sálusorgari og félagi en líka glögg og lausnamiðuð við hina praktískari hluti og dugnaðarforkur sem hrífur fólk með sér til góðra verka. Ég veit að hennar vilji til að þoka málum kirkjunnar áfram og til betri vegar í þágu okkar allra er einlægur og að hún mun nálgast það verkefni sem leiðtogi og jafningi. Mitt val liggur fyrir.

Höfundur situr í sóknarnefnd Stafholtskirkju í Borgarfirði.