Vatnið er gruggugt en stjórnarsáttmálinn er enn í gildi

Katrín Jakobsdóttir tók í gær af skarið og lýsti yfir því að hún hygðist bjóða sig fram til forseta. Framboð hennar hafði legið í loftinu og kom tilkynning hennar ekki á óvart, en hún vakti engu að síður mikla athygli, enda nokkur tíðindi. Um leið tilkynnti Katrín að hún myndi segja af sér embætti forsætisráðherra, þingmennsku og formennsku í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.

Hún sagði að þetta boðaði lokin á ferli sínum í stjórnmálum og undirstrikaði það í raun þegar hún svaraði spurningu um hver tæki við af sér á stóli forsætisráðherra með því að segja að það væri ekki sitt mál, aðrir væru með boltann.

Hins vegar er annað mál hvort framboð til forseta sé handan stjórnmálanna.

Ekki hefur verið hörgull á frambjóðendum til þessa en með framboði Katrínar skýrast línur í baráttunni um Bessastaði. Það sama á hins vegar ekki við um stjórnarsamstarfið og þar eru ýmsir tilbúnir að grugga vatnið.

Fráfarandi forsætisráðherra benti á að það „væri stjórnarsáttmáli“ í gildi þegar hún var innt eftir því hvort stjórnin myndi halda í gær og gaf þar til kynna að maður kæmi í manns stað.

Svo einfalt virðist það ekki vera í gruggi hins pólitíska ats og ýmislegt getur dreift athygli og afvegaleitt.

Forustumenn þeirra flokka, sem ekki eru í stjórn, reyna vitaskuld að halda því fram að nú hafi stjórnina endanlega þrotið örendið. Það er tilbrigði við stef, sem flutt hefur verið ítrekað og iðulega án tilefnis.

Tölur í skoðanakönnunum geta valdið uppnámi þótt langt sé í kosningar og þá getur spurningin hvað best sé fyrir flokkinn yfirskyggt annað. Þar er þó vert að hafa í huga að það er ekki ávísun á aukið fylgi að sprengja ríkisstjórn. Slíkur gjörningur vekur kannski athygli meðan á honum stendur, en hvað svo? Það er ekki víst að það skili miklu til lengri tíma, sérstaklega ef sá sem sprengir brýst frá áhrifum til áhrifaleysis.

Stjórnarandstaðan segir að stutt gæti verið í kosningar og má greina nokkra óskhyggju í þeirri greiningu, en þótt nú taki við flókinn ráðherrakapall ætti stjórnarflokkunum að vera í lófa lagið að halda samstarfinu áfram ef áhugi er á því og samstaða um þau verkefni sem bíða það sem lifir kjörtímabils.

Reynist það torsótt hjá stjórnarflokkunum reynir á þingið, sem nú sem alla aðra daga hefur það hlutverk að finna meirihluta fyrir starfhæfri og lífvænlegri ríkisstjórn.

Ný ríkisstjórnin – hvort sem um ræðir sama stjórnarmynstur eða annað – þarf að takast á við nokkur brýn og augljós verkefni, en sleppur við að móta mikla framtíðarsýn eða að prútta um gæluverkefni.

Þingheimur ræður vel við það verkefni og til þess ætlast kjósendur. Að þingið sitji út kjörtímabilið. Það er meira en nóg að ganga að kjörborðinu einu sinni á árinu.