Rósa Haraldsdóttir sjúkraliði fæddist í Reykjavík 17. ágúst 1943. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sléttu 18. mars 2024.

Foreldrar hennar voru Solveig Hjörvar húsfreyja, f. 2. apríl 1921, d. 4. júlí 1995, og Haraldur Samúelsson loftskeytamaður, f. 2. janúar 1910, d. 4. ágúst 1992. Systkini: Helgi, f. 17. nóvember 1940, d. 19. mars 2019, Sigríður, f. 26. apríl 1942, d. 12. júní sama ár, Guðrún, f. 23. september 1944.

Eiginmaður Rósu hét Björn Einar Þorláksson, mjólkurfræðingur og bóndi, f. 29. júní 1939, d. 5. júlí 1994. Þau giftust 19. febrúar 1966. Foreldrar Björns voru Þorlákur Björnsson og Ingibjörg E.E. Indriðadóttir. Rósa eignaðist sex börn: 1) Jóhann Þorsteinsson, f. 20. janúar 1963. Maki: Elfa Elfarsdóttir, f. 20. júlí 1958. Dætur þeirra eru Tanja Guðrún, f. 1988, maki Jakob T. Þórðarson, og Eva María, maki Almar G. Ingvason. Barnabörnin eru fjögur. 2) Agla Sigríður, f. 11. desember 1965. Maki: Jóhann Ö. Ingimundarson og eiga þau dótturina Birnu Kolbrúnu, f. 2006. Fyrir átti Jóhann þrjú börn, Hafþór, Ólaf og Lindu. Barnabörnin eru átta. 3) Þorlákur Sindri, f. 22. desember 1967. Maki: Olga Björnsson, f. 24. febrúar 1981, og eiga þau soninn Björn Inga, f. 2023. Fyrir átti Olga Anastasíu Yaroslav og Mischa og Sindri fóstursynina Sigurbjörn og Sólon. 4) Solveig, f. 30. júlí 1971, d. 9. október 2012. 5) Ingibjörg Rósa, f. 12. júlí 1976. 6) Haraldur, f. 21. september 1982.

Rósa sleit barnsskónum á heimili móðurforeldra sinna, fyrst í Fjalakettinum og svo við Suðurgötu. Foreldrar hennar skildu og fór Rósa þá í fóstur til föðursystur sinnar og hennar manns í Garðabæ, Siggu og Jóa, sem einnig fóstruðu bróðurson Jóa, Gunnar Pál Jakobsson. Þar átti Rósa ástríkt heimili og kallaði hjónin ætíð mömmu og pabba, og Gunna bróður sinn. Rósa flutti tímabundið aftur til móður sinnar og systkina, eftir að Solveig giftist Þorsteini Eiríkssyni yfirkennara, sem þá bjuggu í Brautarholti á Skeiðum. Að loknu gagnfræðaprófi frá Flensborg starfaði Rósa m.a. við umönnun á Kópavogshæli, Skálatúni og sem skrifstofustúlka á Tímanum. Eftir fæðingu elsta sonarins fékk Rósa iðnsamning hjá sjóntækjafræðingi en varð frá að hverfa eftir alvarlegt bílslys og sex mánaða sjúkrahúsdvöl. Þá fór hún í Kvennaskólann á Blönduósi þar sem hún kynntist tilvonandi eiginmanni sínum sem var mjólkurfræðingur við Mjólkurstöðina á Blönduósi og hófu þau búskap þar nyrðra, en móðir hennar og stjúpi ættleiddu elsta soninn sem dvalið hafði hjá þeim frá bílslysinu. Á Blönduósi eignuðust Rósa og Björn þrjú börn og byggðu einbýlishús á Mýrarbraut. Árið 1974 fluttu þau þvert yfir landið er þau keyptu jörðina Eyjarhóla í Mýrdal af foreldrum Björns. Þar fæddust tvö yngstu börnin og Rósa sinnti stóru heimili þar sem var mikill gestagangur og sumardvalarbörn. Rósa var virk í Kvenfélagi Dyrhólahrepps og einnig ferðuðust þau Björn nokkuð innanlands með Búnaðarfélaginu.

Útför Rósu fer fram frá Skeiðflatarkirkju í Mýrdal í dag, 6. apríl 2024, klukkan 13.30. Streymi á:
https://www.mbl.is/andlat/

Elsku ljúfasta mamma mín kvaddi okkur hljóðlega á mánudagsmorgni í mars. Hún smaug úr faðmi okkar yfir í faðm pabba og Solveigar systur í Sumarlandinu. Það er ljúft að kveðja, því hún var löngu tilbúin til þess en um leið svo sárt. Mamma var glaðlynd, glettin og hlý öllum þeim sem kynntust henni og skipti hún sjaldan skapi né hallmælti neinum. Það er í raun ótrúlegt miðað við þau áföll sem hún gekk í gegnum á lífsleið sinni. Á Kvennaskólaárum sínum á Blönduósi kynnist hún pabba – ástinni í lífi sínu og þar bjuggu þau sitt fyrsta heimili en pabbi var mjólkurfræðingur í Mjólkurstöðinni. Árið 1974 fluttu þau með þrjú börn austur í Mýrdal og hófu búskap í Eyjarhólum þar sem pabbi var alinn upp. Þetta voru mikil viðbrigði fyrir mömmu sem var Reykjavíkurdama og engin búkona í sér. Pabbi sinnti bústörfum og mamma heimilinu og í Eyjarhólum bættust þeim við tvö börn til viðbótar. Með stækkandi búi þurfti fleiri vinnuhendur og á sumrin fjölgaði því alltaf á bænum þegar börn ættingja komu til sumardvalar. Mamma hafði því í nógu að snúast við að fæða og klæða mannskapinn auk þess sem það var ætíð gestkvæmt í Eyjarhólum. Heimilið stóð öllum opið og við krakkarnir alvön því að það væri gist í öllum skúmaskotum ef svo bar undir, hvort sem um var að ræða sveitunga eða puttaferðalanga sem höfðu fengið far að bænum og þurftu gistingu. Þegar pabbi lést var mamma með yngsta bróður minn á 12. ári og sýndi hún þá enn á ný kraft sinn og elju og fór að vinna við umönnun á Hjallatúni í Vík, ók 20 km til og frá vinnu í allskonar veðri, þó óvön akstri væri, því pabbi hafði alltaf séð um aksturinn í gegnum árin. Þegar hún síðan flutti til Reykjavíkur fór hún að vinna hjá Íslandsflugi við þrif á flugvélum og seinna við umönnun í Seljahlíð og ræstingar fyrir Háskóla Íslands. Þetta var erfiðisvinna og vann hún næturvinnu við umönnun og ræstingar seinnipartinn. Tókst henni með þessu að kaupa sér íbúð í Blikahólum sem hún bjó í uns hún fór á Hrafnistu við Sléttuveg fyrir tveimur árum. Samhliða umönnunarstarfi og ræstingum var hún í skóla og útskrifaðist sem sjúkraliði þegar hún var 66 ára gömul og vann sem sjúkraliði til sjötugs þegar hún lét af störfum vegna aldurs. Mamma hjúkraði pabba og Solveigu í veikindum þeirra og ef einhvern vantaði aðstoð eða eitthvað bjátaði á – þá var hún tilbúin að hjálpa. Hún setti sjálfa sig alltaf í annað sætið og vildi ekki láta fyrir sér hafa. Hún var samt sprelligosi, hláturmild, sagði alltaf já við ævintýrum og var ætíð tilbúin að ferðast og prófa eitthvað nýtt ef það stóð til boða. Ég hef eflaust reynt á þolinmæði hennar á mínum yngri árum, því ég hef ekki þetta ljúfa skap og jafnaðargeð sem hún bjó yfir. Aldrei sagði hún styggðaryrði við okkur systkinin sama hvað gekk á, hvort sem var á yngri árum eða eftir að við urðum fullorðin. Hún var fyrirmynd mín í lífinu og hún var einstök. Takk fyrir allt elsku mamma mín og takk fyrir allt skutlið með Birnu mína. Bið að heilsa pabba og Solveigu og settu sjálfa þig í fyrsta sætið í Sumarlandinu. Ég elska þig. Þín dóttir,

Agla

Elsku mamma mín er farin og tómarúmið sem hún skilur eftir er stórt. Í minningunni er mömmufaðmurinn alltaf opinn og hlýr, alltaf mjúkur, alltaf öruggur. Mamma mín hafði ótrúlegan aðlögunarhæfileika og sýndi mikla þrautseigju allt sitt líf. Ytri aðstæður breyttu plönum hennar reglulega en við hver straumhvörf endurskapaði hún sig, tók nýja stefnu og gerði gott úr öllu án nokkurs biturleika. Þvert á móti notaði hún léttleika og glettni til að takast á við lífið. Barnæskan var flókin og oft erfið, mömmu langaði að mennta sig meira en það var ekki í boði. Hún var Reykjavíkurskvísa, hlustaði á Kanaútvarpið og hékk niðri á Hallærisplani í hælaháum skóm. Hún varð ung móðir og stefndi þá á að læra eitthvað en þá kom bílslysið sem breytti öllu. Mamma stórslasaðist og lá sex mánuði á Landakotsspítala þar sem hún var látin liggja flöt, horfði upp í loftið og fékk stöku sinnum að hlusta á útvarpið. Ég undra mig oft á því hvernig mamma hélt sönsum þetta tímabil. Til að jafna sig og komast aftur út í lífið fór hún norður á Blönduós í Kvennaskólann og þar breyttust plönin aftur því hún kynntist pabba. Þau voru komin með þrjú börn og nýbúin að klára húsbyggingu þegar bróðir pabba dó skyndilega og pabba langaði að taka við búi foreldra sinna í hans stað. Mamma samþykkti að prófa búskap í tvö ár en þrátt fyrir að verða aldrei nein búkona urðu árin rúm 20 að Eyjarhólum. Við litli bróðir minn bættumst í hópinn og ég trúði auðvitað ekki öðru en að þetta líf væri akkúrat það sem foreldrar mínir hefðu planað. Oft var þröngt í búi en þar kom útsjónarsemi mömmu sér vel. Mamma var sérstaklega næm og vissi alltaf hvort eitthvað væri að brjótast um í kollinum á mér, án þess að ýta á mig. Hún bara beið og var til staðar þegar þögul tárin vættu hálsakot hennar. Hún þurfti ekki alltaf að vita hvað væri að, hún bara bauð faðminn. Eftir fráfall pabba sýndi mamma enn á ný hversu þrautseig hún var, flutti til Reykjavíkur og keypti sér íbúð í blokk, fór aftur út á vinnumarkaðinn og meira að segja í nám, loksins á sjötugsaldri. Og einkunnirnar voru slíkar að mig svíður að hugsa til þess hverju hún hefði áorkað hefði henni verið gert kleift að mennta sig fyrr. Hún hafði ánægju af því að starfa við umönnun og eignaðist góðar vinkonur í vinnufélögum sínum. Ferðaþrá hennar fékk loks útrás og fóru þær stöllur í margar utanlandsferðir, auk þess sem mamma fór í ævintýraferðir með systur sinni og mági og heimsótti bæði mig og bróður minn meðan við bjuggum erlendis. Hún lagði enda oft áherslu á að ég skyldi skoða heiminn og komast að því hvað nákvæmlega ég vildi áður en ég færi að festa mig yfir börnum. Vegna búsetu erlendis gat ég ekki varið miklum tíma með mömmu fyrstu tvö árin eftir að hún greindist með heilabilun. En svo flutti ég til hennar síðasta árið sem hún bjó heima og sá daglega hvernig þessi grimmi sjúkdómur veikti hana smátt og smátt en lærði á sama tíma að njóta augnabliksins því það er allt og sumt sem við höfum. Við mamma áttum mörg góð augnablik síðustu árin og ég trúi því að hún hafi þekkt nærveru mína fram á síðustu stund, þekkt faðminn, hlýjuna, öryggið. Loks get ég kvatt mömmu mína sem ég hóf að syrgja fyrir fimm árum.

Takk mamma mín fyrir að vera svona sterk, fyrir að veita mér bestu barnæsku sem ég gat fengið og takk fyrir að innræta mér lífsgleði og þrautseigju.

Sjáumst aftur, elsku mamma mín.

Lengri grein á:

www.mbl.is/andlat

Þín,

Ingibjörg.

Elsku amma mín.

Mikil sorg hefur verið síðan þú fórst en ég veit að þér líður betur núna og ert hjá afa og Solveigu, en ég sakna þín svo mikið. Sakna þess að liggja hjá þér og finna hlýjuna þína, sakna þess að gista hjá þér og vaka langt fram eftir og sakna þess hvernig við vorum alltaf að fíflast og ulla á hvor aðra. Elsku amma Rósa, góðhjartaða og jákvæða amma mín sem smitaði alla í kringum sig af hlýju og gleði. Takk fyrir allt, takk fyrir að skutla mér á æfingar, passa mig og dekra við mig, fíflast með mér og takk fyrir að vera besta vinkona mín. Góða ferð, elsku amma mín, ég elska þig á heimsenda og til baka aftur.

Þín

Birna Kolbrún.