Eftir 40 mínútur á Kópavogsvelli í gær benti ekkert til þess að Ísland myndi vinna mjög öruggan sigur. Jafnræði var með liðunum og Pólverjar höfðu skapað sér fleiri og hættulegri færi fram að því. En tvö mörk með mínútu millibili hreinlega rotuðu…

Eftir 40 mínútur á Kópavogsvelli í gær benti ekkert til þess að Ísland myndi vinna mjög öruggan sigur. Jafnræði var með liðunum og Pólverjar höfðu skapað sér fleiri og hættulegri færi fram að því.

En tvö mörk með mínútu millibili hreinlega rotuðu pólska liðið og íslenska liðið fylgdi því eftir með mjög yfirvegaðri og sannfærandi frammistöðu í síðari hálfleiknum. Þetta var besti leikur Íslands í langan tíma hvað varðar spil og yfirvegun með boltann. Stórt skref í rétta átt.

Ewa Pajor var mjög ógnandi framan af leiknum og fékk eitt sannkallað dauðafæri en þær Glódís Perla Viggósdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir tóku hana föstum tökum og höfðu hana og aðra framliggjandi leikmenn Pólverja nánast í vasanum eftir það. Allt að því fullkomin frammistaða hjá miðvörðunum tveimur.

Sveindís Jane Jónsdóttir sýndi enn og aftur hversu mikilvæg hún er íslenska landsliðinu. Stoðsending og mark frá henni í öðrum leiknum í röð undirstrikuðu gæði hennar og stöðu í heimsfótboltanum í dag.

Hildur Antonsdóttir var síðan fremst í flokki af miðjumönnum Íslands. Gríðarlega dugleg og sívinnandi frá fyrstu til síðustu mínútu.

Fanney Inga Birkisdóttir kom aftur í markið og þakkaði traustið en hún var afar örugg í öllum sínum aðgerðum og varði glæsilega frá Pajor strax á 7. mínútu. Sú markvarsla hafði afgerandi áhrif á leikinn.