Trump rétt slapp við eignaupptöku.
Trump rétt slapp við eignaupptöku. — AFP
Donald Trump, fv. forseti Bandaríkjanna, þarf að mæta fyrir dómara í New York þann 21. apríl nk., vegna 175 milljóna dala skuldabréfs sem honum bar að leggja fram eftir að dómstóll þar sektaði hann um 454 milljónir dala, eða 62,5 milljarða króna

AFP

Donald Trump, fv. forseti Bandaríkjanna, þarf að mæta fyrir dómara í New York þann 21. apríl nk., vegna 175 milljóna dala skuldabréfs sem honum bar að leggja fram eftir að dómstóll þar sektaði hann um 454 milljónir dala, eða 62,5 milljarða króna. Reuters-fréttaveitan greinir frá þessu. Í fréttinni er haft eftir dómsmálaráðherra New York-ríkis, Letitiu James, að Trump yrði að leggja fram sönnun fyrir því að tryggingarfélagið, Knight Specialty Insurance Company, sem Trump notaði til að senda skuldabréfið, eigi nægar eignir til að greiða ef áfrýjun hans mistekst.

Trump var eins og kunnugt er sektaður ásamt sonum sínum, Eric og Donald yngri, fyrir að hafa ýkt auð sinn í samskiptum við banka og tryggingarfélög í þeim tilgangi að fá hagstæðari kjör og hærri lán.

Fram kemur í frétt Reuters að Trump hafi sloppið naumlega undan hugsanlegri eignaupptöku vegnar sektarinnar þegar áfrýjunardómstóll þar ytra samþykkti þann 25. mars sl. að veita Trump frest, að því gefnu að hann reiddi fram eins og fyrr segir 175 milljóna dala skuldabréf, sem hann gerði í byrjun vikunnar. arir@mbl.is