Forsetaframboð Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sat sinn síðasta ríkisstjórnarfund í embætti í gær.
Forsetaframboð Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sat sinn síðasta ríkisstjórnarfund í embætti í gær. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tilkynnti í gær að hún gæfi kost á sér til embættis forseta Íslands. Mun þetta vera í fyrsta sinn á Íslandi sem sitjandi forsætisráðherra býður sig fram í embættið þó fordæmi séu fyrir því erlendis, til að mynda Finnlandi

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tilkynnti í gær að hún gæfi kost á sér til embættis forseta Íslands. Mun þetta vera í fyrsta sinn á Íslandi sem sitjandi forsætisráðherra býður sig fram í embættið þó fordæmi séu fyrir því erlendis, til að mynda Finnlandi.

Á síðustu vikum hefur mikið verið rætt um mögulegt forsetaframboð Katrínar. Var orðið nánast ljóst að hún myndi tilkynna ákvörðun sína að ríkisstjórnarfundi loknum í gær. Landsmenn biðu því margir spenntir eftir því að sjá hvað forsætisráðherra myndi gera.

Fámálir ráðherrar

Ríkisstjórnarfundur hófst klukkan 8.30 að morgni í Skuggasundi 3 og voru ráðherrar ríkisstjórnarinnar fámálir þegar blaðamenn reyndu að ná tali af þeim. Þá sagðist Katrín búast við löngum fundi.

Ríkisstjórnarfundi lauk rétt eftir klukkan 11. Að honum loknum vildi Katrín ekki tjá sig við fréttamenn og kvaðst vera á leið upp í Stjórnarráð á annan fund. Þá svaraði hún ekki spurningum um mögulegt forsetaframboð. Hún kvaddi þó blaðamenn með orðunum: „Ég sé ykkur kannski seinna.“

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar vörðust sömuleiðis spurningum blaðamanna um hugsanlegt framboð Katrínar að mestu og sögðu hana „eiga daginn í dag“.

„Við verðum að sjá hvað gerist í dag,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, spurður hvort hann yrði nýr formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Þá sagði hann það vera mikil tíðindi ef Katrín ákvæði að fara i forsetaframboð. Bæði sem formaður hreyfingar til 11 ára, þingmaður í 17 ár og forsætisráðherra.

Myndskeið á samfélagsmiðlum

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sagði Katrínu hafa upplýst ríkisstjórnina um ákvörðun sína á fundinum. Spurður hvort hann myndi styðja Katrínu sem næsta forseta sagðist hann ætla að halda því fyrir sig en bætti við að hún væri gífurlega öflugur kandídat. Hann vildi þó ekki staðfesta framboð hennar.

Rétt eftir klukkan 13 birti Katrín myndskeið á Instagram-reikningi sínum og á Facebook-síðu sinni þar sem hún tilkynnti um framboð sitt.

Í myndskeiðinu segir hún að hún hafi verið hvött áfram af fólki víðs vegar um land til að bjóða sig fram til forseta.

„Sjálf hafði ég ákveðið fyrir allnokkru að gefa ekki kost á mér í næstu þingkosningum en áfram brenn ég fyrir því að gera samfélaginu okkar gagn. Af þeim sökum hef ég ákveðið að beiðast lausnar sem forsætisráðherra Íslands og gefa kost á mér í komandi forsetakosningum,“ sagði Katrín í ávarpinu. Þá boðaði hún að hún myndi fara um landið á komandi dögum og ræða við landsmenn.

Handviss um ákvörðun sína

Klukkan tvö var Katrín mætt á blaðamannafund í Hörpu þar sem hún svaraði spurningum fjölmiðla.

Í samtali við Morgunblaðið sagðist Katrín vera handviss um það að þetta væri rétt ákvörðun. Spurð hvort hún væri sigurviss sagði hún:

„Það er bara þannig að auðvitað er það fólkið sem velur forsetann. Fólkið tekur bara rétta ákvörðun, en mér fannst það skipta máli að gefa kost á mér í þetta og gefa fólki kost á að eiga val um mig. Það er þannig í stjórnmálum að hver á sinn tíma og ég hugsaði hreinlega: Minn tími er kominn. En að sjálfsögðu er það ekki þannig að maður geti gefið sér neitt í svona baráttu.“

Þá sagði Katrín að hún myndi ekki sakna stjórnmálanna.

Nýr formaður Vinstri grænna í fyrsta sinn í ellefu ár

Að blaðamannafundi loknum tók við stjórnarfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Að honum loknum tilkynnti flokkurinn að Katrín hefði sagt af sér formennsku. Hún hefur sinnt því embætti í ellefu ár.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson varaformaður mun gegna embætti formanns þar til flokkurinn kýs sér nýja forystu.

Framhald ríkisstjórnar óljóst

Nú þegar ákvörðun Katrínar var komin í ljós fóru margir að velta því fyrir sér hvað tæki nú við í ríkisstjórnarsamstarfinu og hvaða áhrif ákvörðunin hefði á stjórnmálin. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra, sagði að ný ríkisstjórn þyrfti að koma sér saman um málefnasamning áður en ákveðið verður hver taki við embætti forsætisráðherra. Þá sagði Sigurður Ingi það eiga eftir að koma í ljós hvort ríkisstjórnarsamstarfinu verði framhaldið og að hann hefði engar forsendur til að meta það fyrr en menn setjist niður og ræði málin formlega.

Þeir þingmenn í stjórnarandstöðu sem Morgunblaðið ræddi við kölluðu eftir því að gengið yrði til alþingiskosninga í haust.