[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Öllum skákum fyrstu umferðar áskorendakeppninnar í Toronto í Kanada sem hófst á fimmtudagskvöldið lauk með jafntefli og kom ekki á óvart að menn skyldu leggja mesta áherslu á öryggið þar sem einungis sæti sigurvegarans skiptir raunverulega máli en…

Skák

Helgi Ólafsson

helol@simnet.is

Öllum skákum fyrstu umferðar áskorendakeppninnar í Toronto í Kanada sem hófst á fimmtudagskvöldið lauk með jafntefli og kom ekki á óvart að menn skyldu leggja mesta áherslu á öryggið þar sem einungis sæti sigurvegarans skiptir raunverulega máli en sá öðlast réttinn til að skora á heimsmeistarann, Kínverjann Ding Liren. Keppendur í töfluröð eru þessir: 1. Caruana 2. Abasov 3. Firouzja 4. Gukesh 5. Vidit 6. Praggnanandhaa 7. Nepomniachtchi 8. Nakamura.

Tefld verður tvöföld umferð og tímafyrirkomulagið miðast við 2 klst. á fyrstu 40 leikina en frá og með 41. leik bætast við 30 mínútur á klukkuna og 30 sekúndur eftir hvern leik. Í Toronto fer samhliða fram áskorendamót kvenna.

Fyrsta áskorendamótið var haldið árið 1950 og upp úr því stóð David Bronstein sem sigurvegari. Allt til ársins 1965 var mótafyrirkomulag ráðandi í leitinni að áskoranda heimsmeistarans en árið 1965 var einvígisfyrirkomulagið tekið upp. Boris Spasskí, vel studdur af þjálfara sínum Igor Bondarevskí, vann áskorunarréttinn 1965 og aftur 1968, samtals sex einvígi. Fimm af þessum einvígjum gegn Geller (tvisvar), Tal, Larsen og Kortsnoj vann hann með þriggja vinninga mun en í því fyrsta gegn Paul Keres urðu lokatölur 6:4 og þar með var draumurinn úti hjá Eistlendingnum sem hafði komist svo oft nálægt því að vinna áskorunarréttinn. Botvinnik sem var heimsmeistari í 13 ár á tímabilinu 1948-1963 vann aldrei áskorendakeppni, Smyslov hins vegar tvisvar og einnig Spasskí, Kortsnoj og Nepomniatchi. Anand og Karpov enn oftar.

Boris Spasskí mætti til leiks í þessi einvígi með sérstaklega útsmogna leikáætlun sem byggðist oft á sálfræðilegu innsæi og skilningi á helstu veikleikum mótstöðumannsins samhliða frábærri meðhöndlun á flóknum miðtaflsstöðum. Er hann vann Tal, 7:4, árið 1965 dustaði hann rykið af Marshall-árásinni í spænska leiknum. Tal komst hvorki lönd né strönd. Í áskorendaeinvígjunum ’68 reyndist lokaða afbrigði sikileyjarvarnar farsælt vopn í öllum þremur einvígjunum. Þegar hann varð svo heimsmeistari ári síðar tókst Tigran Petrosjan aldrei að klekkja á Tarrasch-vörn gegn drottningarpeðsbyrjun. Lítum á fræga skák frá þessu tímabili skáksögunnar:

Áskorendakeppnin 1968; 6. einvígisskák:

Boris Spasskí – Efim Geller

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rc3 d6 3. g3 Rc6 4. Bg2 g6 5. d3 Bg7 6. f4 Rf6 7. Rf3 O-O 8. O-O Hb8 9. h3 b5 10. a3 a5 11. Be3 b4 12. axb4 axb4 13. Re2 Bb7 14. b3 Ha8 15. Hc1

Endurbót Spasskís á fyrri viðureign en þá valdi hann hróknum stað á b1.

15. … Ha2 16. g4 Da8 17. De1 Da6 18. Df2

Athyglisverður leikur því að drottningin er alltaf á leiðinni til h4. Hér gat svartur haldið góðu tafli með 18. … Rd7.

18. .. Ra7? 19. f5! Rb5 20. fxg6 hxg6

Engu betra er 20. … fxg6 vegna 21. Rf4! og veikleikann á e6 reynist erfitt að verja.

21. Rg5 Ra3 22. Dh4 Hc8

23. Hxf6!

Þessi fórn blasir við en Spasskí varð einnig að hafa séð fyrir 25. leikinn.

23. … exf6 24. Dh7+ Kf8

25. Rxf7!

Með hugmyndinni 25. … Kxf7 26. Bh6! Hg8 27. Rf4 með myljandi sókn.

25. … Hxc2 26. Bh6! Hxc1+ 27. Rxc1 Kxf7 28. Dxg7+ Ke8 29. g5! f5 30. Dxg6+ Kd7 31. Df7+ Kc6 32. exf5+

– og Geller gafst upp.