Við Perluna Svona sjá hugmyndasmiðirnir fyrir sér útlit sýningarinnar.
Við Perluna Svona sjá hugmyndasmiðirnir fyrir sér útlit sýningarinnar.
Áformað er að setja upp eldfjallasýningu við Perluna í Reykjavík. Hún ber vinnuheitið „Into the Volcano“ en þar munu gestir upplifa ferð að virku eldfjalli á Reykjanesi og þaðan 2.000 metra niður í Reykjanesið og upplifa hvað er að gerast þar

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Áformað er að setja upp eldfjallasýningu við Perluna í Reykjavík. Hún ber vinnuheitið „Into the Volcano“ en þar munu gestir upplifa ferð að virku eldfjalli á Reykjanesi og þaðan 2.000 metra niður í Reykjanesið og upplifa hvað er að gerast þar.

Á fundi borgarráðs sl. fimmtudag var samþykktur afnotasamningur við leigutaka Perlunnar, Perlu norðursins ehf., um 100 fermetra svæði vestan núverandi húss undir færanlegt sýningarrými. Þetta er stálgrindareining sem er ótengd við jörðu, sambærileg við færanlegar stofur, einangruð með yleiningum og klædd að utan. Afnotasamningur er tímabundinn í þrjú ár, frá 1. mars 2024.

Í frumdrögum um verkefnið kemur fram að þetta verði ferð frá yfirborði jarðar með eins konar lyftu sem fer niður í gegnum jarðlagastaflann og niður á t.d. 1.000‐2.000 metra dýpi. Lyftan fer mishratt og hægir á sér þar sem eitthvað athyglisvert er að sjá. Upphafsstaðurinn er í grennd við Grindavík (Fagradalsfjall eða Sundhnúkagígar). Líkt verði eftir jarðfræðilegum aðstæðum sem þar eru fyrir hendi. Í upphafi ferðar sér fólk gjósandi eldfjall í öllu sínu veldi með kvikustrókum, gosmekki og rennandi hrauni.

„Harðir jarðskjálftakippir finnast og sjást á mælum, sem eru merki um kvikuhreyfingar og vaxandi þrýsting í kvikuhólfi. Dýpið er 1.000 metrar og hitinn er kominn yfir 500 stig sem er mun hærra en í heitustu jarðhitakerfum. Aldur jarðlaga er um milljón ár. Jarðsjórinn í berginu er orðinn að gufu,“ segir í lýsingunni.

Næst er lyftan komin niður fyrir 1.000 metra, hitinn hækkar ört, jarðskjálftakippir eru tíðir. Svo kemur að því að sprungur opnist með brauki og bramli og glóðheit kvikan flæðir um þær fram hjá lyftunni með iðuköstum, 1.200°C heit. Hér er lyftan stöðvuð og snúið til baka.

„Lyftan fer hratt og viðstöðulaust upp á yfirborðið. Þar blasir gosið við á nýjan leik en hefur færst í aukana af völdum þeirra umbrota sem vart varð við í ferðinni niður.“ Ferðin tekur sjö mínútur.