Sauðárkrókur Ráðherra og sveitarstjórnarmenn leiddu mál til lykta við athöfn norður í Skagafirði í gær.
Sauðárkrókur Ráðherra og sveitarstjórnarmenn leiddu mál til lykta við athöfn norður í Skagafirði í gær. — Morgunblaðið/Björn Björnsson
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Þetta er mikilvægt verkefni. Er hluti af þeirri uppstokkun á framhaldsskólakerfinu sem þurfti og nú er unnið að,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. Fulltrúar ráðuneytis og sveitarfélaga undirrituðu í gær samninga um stækkun húsakynna Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki, FNV.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Þetta er mikilvægt verkefni. Er hluti af þeirri uppstokkun á framhaldsskólakerfinu sem þurfti og nú er unnið að,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. Fulltrúar ráðuneytis og sveitarfélaga undirrituðu í gær samninga um stækkun húsakynna Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki, FNV.

Aðstaða til verknáms við skólann verður bætt með stækkun um allt að 1.400 fermetra og samkvæmt þeim samningum sem nú liggja fyrir verður Framkvæmdasýslu ríksins falið að raungera fyrirætlanir. Stofnkostnaður nýbyggingarinnar skiptist á þann veg að ríkissjóður greiðir 60% en sveitarfélögin í landshlutanum 40%.

Fleiri ungmenni fari í verk- og iðnnám

Stækkun verk- og starfsnámsskóla um land allt hefur verið í forgangi hjá mennta- og barnamálaráðherra. Sl. fimmtudag voru undirritaðir samningar um bætta verknámsaðstöðu við Menntaskólann á Ísafirði, Sauðárkrókur var tekinn í gær og í dag, laugardag, verður farið í Reykjanesbæ í sömu erindagjörðum. Í undirbúningi er einnig að bæta verknámsaðstöðu við Borgarholtsskóla í Grafarvogi í Reykjavík. Stóra málið er svo bygging nýrra höfuðstöðva Tækniskólans sem verða í Hafnarfirði. Samanlagður kostnaður ríkisins vegna þessara framkvæmda er 2,5 til 3 milljarðar króna.

Ásmundur Einar segir veruleikann þann að fjöldi ungmenna hafi eftir grunnskóla ekki komist í iðnnám eins og hugur þeirra standi þó til. Þessu hafi verið nauðsynlegt að bregðast við og til þess hafi þá þurft að skapa fjárhagslegt svigrúm. Bæði þurfi að bæta aðstöðu í skólunum og taka því samhliða á ýmsu í innra starfi, svo sem kennaramálum.

„Á Norðurlöndunum fara á milli 40-50% ungmenna í starfs- og iðnnám og í Finnlandi er þetta á bilinu 65-70%. Á Íslandi hefur þetta hlutfall hins vegar ekki verið nema um 30% og því viljum við breyta,“ segir Ásmundur Einar í samtali við Morgunblaðið.

Samninga um verknámshúsið á Sauðárkróki undirrituðu, auk menntamálaráðherra, þau Erla Jónsdóttir, oddviti Skagabyggðar, Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri á Skagaströnd, Pétur Arason, sveitarstjóri Húnabyggðar, Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar, Þorleifur Karl Eggertsson, oddviti sveitarstjórnar Húnaþings vestra, og Ingileif Oddsdóttir, skólameistari FNV. Ánægja er með að þetta hagsmunamál á svæðinu sé nú í höfn, en fyrir þessu hefur verið lengi barist.

Skólinn í nánu samstarfi við atvinnulíf og sveitarfélög

„Fyrirhuguð stækkun verknámshússins er mikilvæg í ljósi mikillar fjölgunar nemenda í iðn- og starfsnámi hér við skólann. Þetta er langþráður samningur og biðlistar hjá okkur eftir að komast í verknám eru langir,“ segir Ingileif Oddsdóttir. Við FNV eru í dag um 700 nemendur og hefur þeim fjölgað mikið á síðustu árum, þá einkum í iðn- og starfsnámi.
Verknámsdeildir skólans eru húsa- og húsgagnasmíði, málmiðnir og vélstjórn og svo rafvirkjun. Nú er svo komið að á annað hundrað manns stunda helgarnám við skólann í fyrrnefndum verkgreinum, svo og kvikmyndagerð. Allt er þetta í samræmi við þarfir og væntingar samfélags, en skólinn er í nánu samstarfi við atvinnulífið og sveitarfélögin á Norðurlandi vestra.