Einleikari „Mér líður eins og ég sé komin heim,“ segir Grimaud um samstarfið við Bamberg-sinfóníuna og Hruša.
Einleikari „Mér líður eins og ég sé komin heim,“ segir Grimaud um samstarfið við Bamberg-sinfóníuna og Hruša. — Ljósmynd/Mat Hennek, DG
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á tónleikum Bamberg-sinfóníunnar, einnar fremstu ­sinfóníuhljómsveitar Þýskalands, sem haldnir verða í Eldborg 20. apríl kl. 19.30 leikur hinn margverðlaunaði franski píanó­leikari Hélène Grimaud einleik

Viðtal

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Á tónleikum Bamberg-sinfóníunnar, einnar fremstu ­sinfóníuhljómsveitar Þýskalands, sem haldnir verða í Eldborg 20. apríl kl. 19.30 leikur hinn margverðlaunaði franski píanó­leikari Hélène Grimaud einleik. Stjórnandi er hinn tékkneski Jakub Hruša sem hefur gegnt hlutverki aðalhljómsveitarstjóra sveitarinnar undanfarin ár en hann var nýlega ráðinn næsti tónlistarstjóri Konunglega óperuhússins í Covent Garden í London.

Grimaud leikur einleik í píanókonsert Roberts Schumanns en hún segir, í samtali við Morgunblaðið, að sér hafi lengi þótt vænt um verkið. „Þetta er með frægustu píanókonsertum. Ég spila það alltaf með glöðu geði og það passar líka vel inn í efnisskrána,“ segir hún en efnisskráin hefur að geyma fleiri verk frá rómantíska tímabilinu; prelúdíu úr fyrsta þætti Lohengrin og Tannhäuser-forleikinn eftir ­Richard Wagner og Sinfóníu nr. 3 eftir Johannes Brahms.

Eins og ein lifandi vera

„Schumann skrifaði fleiri verk fyrir píanó og hljómsveit en þetta er eini alvöru píanókonsertinn hans. Það er margt dásamlegt við þetta verk. Eins og flest þýsk píanóverk frá rómantíska tímabilinu er það tilfinningaríkt og ljóðrænt. Þetta er eina verkið hans sem hefur þessa merkingu í upphafi, Allegro affettuoso eða „hratt en af tilfinningu“. Maður finnur það mjög sterkt í tónlistinni og það snertir við fólki. Þessar laglínur og ákefðin sem einkennir Schumann tala jafnt til flytjenda sem áheyrenda,“ segir hún.

„Þetta er með erfiðari verkum fyrir píanista, á marga vegu. Þetta er ekki venjubundið konsertfyrirkomulag þar sem píanóleikarinn er í andstæðu hlutverki við hljómsveitina, í hlutverki þar sem hann á að skína. Í þessu tilfelli er þetta mjög djúp og margbrotin leið til að skapa tónlist í sameiningu. Einleikarinn og sveitin verða að anda í takt, hreyfa sig eins og ein lifandi vera, annars hindrar það tjáninguna og verkið nær ekki að blómstra að fullu. Verkið lifir eða deyr með þessum metnaðarfullu tónlistarlegu skilyrðum, að tengingin við samstarfsfólkið sé góð. Það er alltaf áskorun. Í flestum öðrum konsertum er einleikarinn ekki jafn háður mótleikurunum í hljómsveitinni og hægt að leika verkið án þess að vera endilega á sömu bylgjulengd. En ef sú tenging er ekki til staðar í píanókonsert Schumanns þá bitnar það á kjarna verksins og það kemst ekki á flug.“

Grimaud hefur unnið reglulega með Bamberg-sinfóníunni. „Ég var enn á þrítugsaldri þegar ég vann með þeim í fyrsta sinn og nú er ég 54 ára svo þetta er samstarfsfólk mitt til margra ára. Ég ber mikla virðingu fyrir hljómsveitinni. Hana einkennir mikil eljusemi, tónlistar­hæfileikar og ákveðin alvara í nálguninni á tónlistina. Svo er ekki alltaf hægt að útskýra hvað skapar neistann,“ segir hún.

„Það leiðir mig að Jakob Hruša. Ég vann með honum fyrst þegar ég lék annan píanókonsert Brahms með sænsku útvarpshljómsveitinni í Stokkhólmi. Ég var algjörlega slegin yfir þeirri tónlistarlegu vídd sem hann býr yfir. Hann passar líka mjög vel við hljómsveitina. Það eru alltaf mikil forréttindi að fá að vinna með honum, það er eitthvað einstakt við það, og í þessu samhengi líður mér eins og ég sé komin heim.“

Ferðast með flygilinn

Tónleikarnir í Eldborg eru hluti af ferðalagi Bamberg-sinfóníunnar um Þýskaland og Bandaríkin. „Það er menningarlega mikilvægt fyrir Bamberg-sinfóníuna að flytja þessa efnisskrá. Hljómsveitin getur spilað ótalmargt annað og gert það virkilega vel en á svona ferðalagi hefur hún vissu hlutverki að gegna sem sendiherra menningar sinnar. Þessi tónlist er mjög krefjandi og það er gott að hljómsveit sem hefur lifað og hrærst í þessari þýsku tónlistarhefð nýti tækifærið og deili henni með heiminum,“ segir Grimaud.

„Þegar maður fer á tónleikaferðalag með hljómsveit þá styrkir það tengslin. Það er eitt að spila í heimaborg sveitarinnar og annað að vera saman undir álagi í nýju umhverfi. Hljómsveitir, ólíkt einleikurum, eru vanar að spila í sínum eigin tónleikasölum en allt hljómar öðruvísi á nýjum stað svo að þetta er mikið ævintýri, bæði fyrir okkur sem tónlistarmenn og sem manneskjur.“

Grimaud er fræg fyrir að ferðast með flygilinn sinn milli tónleikastaða. „Píanóið mitt býr í Evrópu svo að þegar ég kem fram þar er ég yfirleitt svo lánsöm að ég get spilað á það. En það er auðvitað ekki alltaf hægt og það kemur af augljósum ástæðum ekki með mér til Reykjavíkur. Fjarlægðin er of mikil.“

Spurð hvers vegna hún geri þetta spyr hún einfaldlega á móti: „Hvers vegna ekki? Ímyndaðu þér að stórkostlegur fiðluleikari kæmi á nýjan tónleikastað og væri þá boðin fiðla sem einhver kollegi hans hefði spilað á í síðustu viku. Hann myndi sjá rautt.

Fyrir píanóleikarann er hljóðfærið þinn nánasti samstarfsmaður. Það hefst allt með hljóðfærinu, það er alltaf útgangspunkturinn. En sem píanóleikari verður maður að vera sveigjanlegur, það fylgir starfinu. Stundum er hægt að læra af því að spila á hljóðfæri sem bregst við með öðrum hætti en maður er vanur og hefur öðruvísi karakter. En sannleikurinn er því miður sá að þótt maður komi í virt tónleikahús er flygillinn ekki alltaf í góðu ásigkomulagi. Píanó eru viðkvæm og krefjast viðhalds,“ segir píanóleikarinn.

„Ef maður hugsar um kappakstur þá er hver einasti bíll, þótt hann sé frá sama framleiðanda, lagaður algjörlega að bílstjóranum. Og í fullkomnum heimi væri það þannig með píanóin. Ég er alls ekki sú eina sem gerir þetta, það eru fleiri píanóleikarar sem ferðast með hljóðfærin sín milli staða eða með píanó sem þeir hafa í það minnsta valið fyrir fram. Þetta er algjörlega rökrétt. Og af hverju ætti maður að sætta sig við minna?“ spyr Grimaud.

„Síðast þegar ég kom fram á Íslandi átti ég í miklum erfiðleikum með að velja milli tveggja flygla svo ég er spennt að sjá hvernig það verður í þetta sinn. Það var árið 2018 með Gautaborgarsinfóníunni. Þá voru móttökur áheyrenda sérstaklega hlýjar. Það var einstök upplifun. Ég hlakka því mikið til að koma aftur. En hvað flyglana varðar, þá get ég ekki sagt að neinn hafi verið sérstaklega minnisstæður. Svo við sjáum til.“

Fólkið og náttúran nærir

Dagskráin er þétt á tónleikaferðalaginu og spurð út í hvernig það sé að taka þátt í slíku verkefni segir Grimaud: „Lífið á tónleikaferðlagi er svo allt öðruvísi en lífið heima þar sem maður getur æft sig í friði, styrkt tengslin við ástvini sína og farið út í náttúruna. Á svona ferðalögum þarf maður stöðugt að vera einbeittur, ferðast einn dag, spilar þann næsta og svo framvegis. Allt sem maður gerir snýr að því að spara orku og einbeita sér að verkefninu fram undan. Maður þarf að vera andlega, tilfinningalega og ekki síst líkamlega rétt stilltur til að geta gefið allt sem maður á í tónleikana svo að þeir heppnist eins vel og hugsast getur. Það minnkar möguleikana á því að skoða sig um á nýjum stöðum og kanna hvað þeir hafa fram að færa. Ég gat gert meira af því þegar ég var yngri og dagskráin ekki jafn þétt.

Á móti kemur að maður fær mikla orku frá fólkinu sem maður hittir á ferðalaginu. Eins og ég nefndi með áheyrendur í síðustu Íslandsheimsókninni minni, þá finnur maður fyrir því ef fólk er forvitið og opið fyrir einhverju nýju og það nærir sálina. Það er sterk og mikilvæg uppspretta. En maður þarf líka að hafa vit á því að hlaða batteríin inni á milli.“

Daginn eftir tónleikana er förinni heitið til New York þar sem Bandaríkjatúrinn hefst með tónleikum í Carnegie Hall og því gefst henni ekki tími til að leika túrista hér á landi. Hún segist þó vonast til að koma aftur einn daginn til að leika einleikstónleika í „hinum dásamlega sal“ Eldborg, eins og hún orðar það. „Það er allt annars konar upplifun. Þá skapast meira andrými því að maður hefur meira frelsi til að búa til dagskrána sína sjálfur.“

Grimaud er þekkt fyrir ást sína á náttúrunni og hefur meðal annars verið talsmaður fyrir réttindi dýra og setti á fót athvarf fyrir úlfa í Bandaríkjunum. „Ég hef haft yndi af náttúrunni frá því ég var barn og hún varð fljótt ómissandi hluti af lífi mínu. Þessi kraftur sem ég fæ með því að vera í tengingu við náttúruna er fyrir mér sú leið sem er best til þess að fylla á orkubirgðirnar. Þar getur maður fundið frið en einnig ótrúlegan fjölbreytileika og þannig fundið kjarna sinn á ný. Ég hef unnið mikið með þýsku rómantísku hefðina og á þeim tíma trúðu menn því að náttúran væri hin eina sanna uppspretta innblásturs. Á okkar dögum þar sem áherslan á afkastagetu er mikil held ég að það sé meiri hætta á að við missum sjónar á heildarmyndinni og þessum tengslum. Svo að mér finnst mikilvægt að einblína á það.“