Við veiðar Greidd verða atkvæði um kjarasamninginn til 29. apríl.
Við veiðar Greidd verða atkvæði um kjarasamninginn til 29. apríl. — Morgunblaðið/Eggert
Samninganefndir Sjómannafélags Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi undirrituðu nýjan kjarasamning vegna fiskimanna í húsnæði ríkissáttasemjara eftir hádegi í gær. Verði samningurinn samþykktur í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna verða allir …

Samninganefndir Sjómannafélags Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi undirrituðu nýjan kjarasamning vegna fiskimanna í húsnæði ríkissáttasemjara eftir hádegi í gær.

Verði samningurinn samþykktur í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna verða allir sjómenn á landinu komnir með nýja kjarasamninga, sem gilda í tíu ár verði þeim ekki sagt upp á samningstímanum.

„Þetta er sambærilegur samningur og aðrir hafa gert. Þetta er sami samningur og Sjómannasamband Íslands, Vélstjórafélagið, Félag skipstjórnarmanna og Sjómannafélag Grindavíkur hafa gert við SFS en við erum aðeins seinna á ferðinni,“ sagði Bergur Þorkelsson, formaður Sjómannafélags Íslands, að aflokinni undirritun kjarasamningsins í gær.

Samningurinn nær til rúmlega 300 félagsmanna sem eru í Sjómannafélagi Íslands. Samningurinn verður kynntur á næstunni og hefst atkvæðagreiðsla um hann meðal félagsmanna mánudaginn 8. apríl og mun hún standa yfir til 29. apríl.

Seinasti samningur sjómanna rann út í lok árs 2019

Síðasti samningur félagsmanna í Sjómannafélagi Íslands rann út í lok árs 2019. Gildir sá samningur þar til nýr samningur er gerður og hefur verið samþykktur en laun sjómanna ákvarðast af hlutaskiptakerfi. omfr@mbl.is