Endrick og verðandi liðsfélagi hans hjá Real Madrid, Vinicius Jr., fagna sigurmarkinu á Wembley.
Endrick og verðandi liðsfélagi hans hjá Real Madrid, Vinicius Jr., fagna sigurmarkinu á Wembley. — AFP/Ben Stansall
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Enginn verður Pelé. Hann er konungur knattspyrnunnar.

Sautján ára, smávaxinn, þeldökkur brasilískur piltur kemur eins og stormsveipur inn á hið stóra svið heimsboltans. Nei, árið er ekki 1958, heldur 2024, og pilturinn kallar sig ekki Pelé heldur heitir hann Endrick. Okkur er öllum hollara að leggja það á minnið.

Fyrst kom Endrick inn á gegn Englendingum á Wembley – og gerði sigurmarkið, 1:0. Sitt fyrsta fyrir brasilíska landsliðið í þriðja leiknum. Hann varð um leið yngsti karlinn í sögunni til að skora á þessum sögufræga velli, fyrir félagslið og landslið, 17 ára og 246 daga.

Nokkrum dögum síðar færði okkar maður sig yfir á Santiago Bernabéu-leikvanginn í Madríd og aftur var hann á skotskónum; jafnaði 2:2 gegn Spánverjum í leik sem lauk 3:3.

Wembley-markið var af stuttu færi eftir að knötturinn hrökk til Endricks en Spánarmarkið með föstu vinstrifótarskoti utarlega úr teignum, þar sem skottækni hans fékk notið sín.

Kemur til Real í sumar

Það verður að líkindum ekki seinasta markið sem Endrick skorar á Bernabéu en hann mun í sumar ganga til liðs við Real Madríd, sem festi kaup á honum þegar í desember 2022, þegar kappinn var aðeins 16 ára – til að verða á undan traffíkinni. Áhangendur liðsins hafa með öðrum orðum beðið í meira en ár eftir undrinu sínu en fengu þarna forsmekkinn af því sem koma skal. En reglur eru reglur og Endrick má ekki leika fyrir Real fyrr en hann verður orðinn 18 ára.

Endrick Felipe Moreira de Sousa fæddist í Taguatinga í Brasilíu 21. júlí 2006 sem þýðir að hann deilir afmælisdegi með Erling nokkrum Haaland sem er sex árum eldri. Báðir eru þeir líka örvfættir. Þar lýkur líklega samanburðinum en mikill hæðarmunur er á þeim félögum, Haaland 194 sm en Endrick ekki nema 173 – á sokkaleistunum. Aha, hugsið þið nú. Jafnhár og Pelé. Og það er laukrétt. Annars er Emerick auðvitað enginn greiði gerður með þeim samanburði, alltént ekki strax, en hann er eigi að síður óhjákvæmilegur, þegar horft er til væntinga og almenns viðhorfs, sérstaklega eftir markatvennuna góðu um daginn. Hann ræður þá við þetta á hæsta getustigi? hugsa sparkskýrendur.

Ekki bara Pelé

Það er svo sem ekki bara Pelé, Endrick hefur þegar verið borinn saman við Ronaldo landa sinn, Romário, Ronaldinho og fleiri. Hann er sterkbyggðari en Pelé var í upphafi síns ferils og minnir óneitanlega svolítið á Romário á velli. Joe Cole, gamli enski landsliðsmaðurinn, er í hópi manna sem hafa bent á það. „Það er líkamsbyggingin og hvernig hann klárar færin sín,“ sagði Cole við Channel 4.

Sjálfur brást Emerick vondur við þegar Pelé-líkingin var borin undir hann fyrir ári. „Heyrðu, lagsi,“ sagði hann við fréttamanninn. „Enginn verður Pelé. Hann er konungur knattspyrnunnar.“

Verið þá ekkert að benda honum á þessi skrif mín!

Það eru ekki bara hæfileikarnir. Endrick er yngsti leikmaðurinn til að leika fyrir landsliðið síðan Ronaldo 1994 og sá fjórði yngsti í sögunni. Fyrsta landsleikinn lék hann gegn Kólumbíu í nóvember síðastliðnum.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Endrick mátt hafa fyrir hlutunum í þessu lífi. Hann á einn bróður og tvær systur og þegar Endrick var 11 ára yfirgaf faðir hans fjölskylduna í sex mánuði til að reyna fyrir sér sem knattspyrnumaður í Brasilíu. Móðir hans var atvinnulaus og raunar heimilislaus á meðan og fyrir vikið þurfti piltur að dveljast um stund á heimili fyrir munaðarleysingja í São Paulo.

Máttur YouTube

Faðir hans sneri þó aftur og hann kom fyrstur auga á afburðahæfileika sonar síns á velli og var duglegur að deila YouTube-myndböndum af honum í þeirri von að vekja áhuga alvöru félaga. Palmeiras beit fyrst á agnið og leysti Endrick til sín, 11 ára gamlan. Rúmlega það raunar; svo vel leist félaginu á efniviðinn að það útvegaði allri fjölskyldunni íbúð og réð pabbann í starf húsvarðar. Mikill er máttur YouTube!

Endrick gerði 165 mörk í 169 leikjum fyrir unglingalið Palmeiras, áður en hann lék sinn fyrsta leik fyrir aðalliðið í október 2022, 16 ára, tveggja mánaða og 16 daga gamall. Klukkustundirnar fylgdu ekki sögunni. Fyrsta markið kom fáeinum dögum síðar sem gerði Endrick að öðrum yngsta marakskorara í sögu Série A í Brasilíu. Aðeins tveimur mánuðum síðar tilkynnti Real Madrid um kaupin. Endrick er þegar tvöfaldur brasilískur meistari með Palmeiras, 2022, og 2023.

Eigum við ekki að leyfa Dorival Junior, landsliðsþjálfara Brasilíu, að eiga lokaorðin? „Haldi hann uppteknum hætti á hann eftir að verða mikilvægur leikmaður,“ sagði hann eftir sigurinn á Englendingum, „bæði fyrir brasilíska landsliðið og fótboltann á heimsvísu.“

Ætli ekki það.