Steinunn B. Ragnarsdóttir
Steinunn B. Ragnarsdóttir
Rannsóknir hafa sýnt að góð félagsleg tengsl auka ekki aðeins hamingju og vellíðan heldur efla þau einnig líkamlega og andlega heilsu.

Steinunn B. Ragnarsdóttir

Það hefur aldrei verið mikilvægara að standa vörð um velferð fólks, líðan þess og hamingju. Við fáum daglega ótal tækifæri til þess að detta í hörmungarhyggju og fyllast kvíða og áhyggjum í veruleika þar sem heimsfriðurinn virðist vera í raunverulegri hættu, loftslagsbreytingar gera nánast daglega vart við sig og mennskan virðist vera á hröðu undanhaldi.

Við lifum á tímum mikilla tækniframfara, en um leið erum við að fjarlægjast það sem við þurfum kannski mest á að halda, sem eru félagsleg tengsl sem fara fram augliti til auglitis í sama rými á sama tíma með fullri athygli. Við þurfum því meðvitað að skapa þessar kringumstæður sem voru svo sjálfsagðar áður fyrr þegar tíminn leið hægar og áreitið var svo miklu minna.

Rannsóknir hafa sýnt að góð félagsleg tengsl auka ekki aðeins hamingju og vellíðan heldur efla þau einnig líkamlega og andlega heilsu. Með því að temja okkur jákvæðar tilfinningar með aðferðum eins og núvitund, þakklæti og góðvild getum við aukið hamingju okkar og hæfni til þess að takast á við mótlæti og erfiðleika og fáum einfaldlega meira út úr lífinu.

Það er því engin tilviljun hvað jákvæða sálfræðin hefur átt miklu fylgi að fagna síðan hún kom fyrst fram á sjónarsviðið um síðustu aldamót þegar Seligman og Csikszentmihalyi kynntu hana til leiks. Í jákvæðri sálfræði er fjallað um hagnýtar leiðir til þess að einstaklingar og samfélög geti hámarkað möguleika sína til velsældar. Hún er byggð á niðurstöðum vísindalegra rannsókna sem sýna fram á hvaða þættir það eru sem gera líf fólks innihaldsríkara m.a. með ýmsum inngripum og aðferðum sem er ætlað að auka möguleika fólks til þess að upplifa lífsfyllingu og blómstra.

Einnig er unnið með styrkleika og greiningar þeirra í jákvæðri sálfræði sem auka sjálfsþekkingu og skilning á því hvernig við getum nýtt styrkleika okkar til þess að takast á við áskoranir lífsins þannig að þær hafi ekki varanleg áhrif á lífshamingju og velferð. Þessi þekking auðveldar okkur einnig að efla persónulegan þroska og leggja grunn að því gróskuhugarfari sem er okkur svo nauðsynlegt.

Ég var svo lánsöm að eiga stutt stefnumót við jákvæða sálfræði á kynningarnámskeiði áður en ég hóf minn starfsferil sem stjórnandi og þar eignaðist ég mín bestu bjargráð sem hafa fylgt mér síðan og reynst ómetanlegur stuðningur. Síðan hef ég átt þess kost að stunda nám í jákvæðri sálfræði á meistarastigi og get af heilum hug mælt með því fyrir alla sem vilja kynna sér þessi fræði og tileinka sér í lífi og starfi.

Ég er sannfærð um að við höfum villst af leið þegar kemur að aðskilnaði kynslóðanna sem myndu án efa eflast töluvert ef þeim væri skapaður vettvangur fyrir aukna samveru og félagsleg tengsl. Sums staðar eru öldrunarheimili og skólar nánast staðsett hlið við hlið svo það ætti að vera hægur vandi að koma á skipulögðum samgangi þar á milli að japanskri fyrirmynd í þeim tilgangi að efla velsæld og hamingju beggja kynslóða.

Einmanaleiki er orðinn að heimsfaraldri og ein helsta áskorun samtímans við velsæld okkar og velferð. Hann hefur færst mest í aukana meðal ungs fólks sem kallar á alhliða viðbrögð til úrbóta, enda sýna rannsóknir að einmanaleiki minnkar viðnám okkar fyrir sýkingum og er meiri ógn við heilsu okkar en reykingar og ofþyngd.

Það væri því verðugt markmið að innleiða hér á landi sams konar sambýli kynslóða eins og færist í vöxt í mörgum löndum í kringum okkur m.a. í Hollandi, Danmörku og Þýskalandi þar sem þetta hefur verið gert um árabil með frábærum árangri. Þar eru skipulögð sambýli kynslóða sem stuðla að samveru og tengslum öllum til hagsbóta, sem auk þess lækkar kostnað við umönnun barna og eldra fólks þar sem kynslóðirnar hjálpast að með ýmsum hætti.

Fólki sem er eldra en 65 ára fjölgar ört í heiminum. Samkvæmt Eurostat er hlutfallið komið í 21,8% í Þýskalandi, en Ítalía hefur hæsta hlutfall allra Evrópulanda þ.e. 23,3%. Japan á vinninginn þar sem hlutfall 65 ára og eldri er orðið 29,1%, en sambærilegt hlutfall á Íslandi er samkvæmt tölum Hagstofunnar 15,4% og fer hækkandi.

Samkvæmt rannsóknum eru gæði félagslegra tengsla sá þáttur sem hefur mestu áhrifin á velsæld fólks og hamingju, svo það er vel þess virði að hlúa að þeim og skapa aðstæður fyrir samveru fólks hvar sem tækifæri gefst. Það er mjög mikilvægt að við gerum það sem í okkar valdi stendur til þess að forgangsraða góðum félagslegum tengslum og samveru í vegferð okkar til velsældar. Hamingja okkar er í húfi.

Höfundur er framkvæmdastjóri.