Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson
Ekki er þó víst að sú athugun hefði skilað nokkru, sé litið til snúðugra svara stjórnenda bankans síðan meint kaup voru gerð.

Kristinn Karl Brynjarsson

Það er ekki ofsögum sagt að kaup Landsbankans á TM af Kviku banka, án samþykkis eiganda síns ríkisins, hafi varpað sprengju inn í pólitíska umræðu, hvort sem sú umræða á sér stað á hinum pólitíska vettvangi, á kaffistofum víða um land eða bara hvar sem fólk kemur saman til að ræða málin.

Í fyrstu vakti auðvitað athygli meint samráðsleysi bankans við eiganda sinn og sú staðreynd að tilboð það sem var tekið var bindandi. Að ekki myndi þurfa samþykki hluthafafundar fyrir kaupunum, sem mætti nú ætla að væri nauðsynlegt þar sem kaupin eru algerlega á skjön við eigendastefnu ríkisins vegna bankans. Skiptir engu þótt kaupverðið sé undir tilteknu hlutfalli eigin fjár bankans. Enda stefnubreytingin sem kaupin leiða af sér afgerandi.

Það má auðvitað alveg deila um það hvort ráðherra eða Bankasýslan hefðu átt að gera frumkvæðisathugun á því hvort „orðrómurinn“ um viðræður bankans við Kviku banka um kaup bankans á TM ætti við rök að styðjast og á hvaða stað viðræðurnar væru. Ekki er þó víst að sú athugun hefði skilað nokkru, sé litið til snúðugra svara stjórnenda bankans síðan kaupin voru gerð. Enda er engu líkara en stjórnendur bankans hafi tekið sér far með tímavél til ársins 2007. Þeir eigi 'etta og þeir megi 'etta.

Það breytir því auðvitað ekki að frumkvæðið um samskipti bankans við Bankasýsluna var hjá bankanum sjálfum og þá með öðrum og formlegri hætti en að nefna viðræðurnar í framhjáhlaupi í símtali um allt annað og óskylt mál.

Það vekur svo auðvitað furðu margra að örfáum dögum fyrir aðalfund Landsbankans skuli þetta bindandi tilboð lagt fram og það svo loks samþykkt. Af hverju gat tilboðið ekki bara verið óbindandi fram að aðalfundi bankans og samþykki eða synjun eigenda Landsbankans á því legið fyrir eftir aðalfundinn? Það er ekki eins og það hafi margir aðrir áhugasamir um kaup á TM á sama verði og Landsbankinn bauð beðið spenntir á kantinum, því önnur tilboð sem borist hafa í TM eru töluvert lægri en tilboð Landsbankans. Má kannski líka gefa sér það að svarið við þessum spurningum sé á svipuðum nótum og fyrri svör bankans, sem efnislega eru í raun einatt þau sömu: Ykkur kemur þetta ekkert við! Við erum ekki ríkisbanki.

Undrun manna á svörum eða svaraleysi bankans ætti svo enn að aukast þegar í ljós kemur að bankinn stendur fast á því að afhenda eða birta ekki hagsmunaskrá bankaráðsmanna. Til vara að staðfesta að enginn þeirra eigi hlutabréf í Kviku banka eða eigi annarra hagsmuna að gæta vegna Kviku banka. Reyndar má alveg spyrja af hverju í ósköpunum liggi ekki fyrir með aðgengilegum hætti á hinu alræmda alneti hagsmunaskrá stjórnenda ríkisbanka sem í eru bundnir hvorki meira né minna en rúmir 300 milljarðar af almannafé. Er eitthvað að fela? Eða kemur þetta okkur bara akkúrat ekkert við?

Æskilegt væri að stjórnendur Landsbankans tækju sér aftur far með tímavélinni og nú aftur hingað til ársins 2024 og stæðu skætingslaust fyrir máli sínu. Annars hljóta atvinnutækifæri fyrir svona snillinga að vera óþrjótandi.

Höfundur er formaður verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins.