Slátrun Landinn hefur kindakjöt í hávegum, en samkeppnin við aðrar tegundir og innflutning er afar hörð.
Slátrun Landinn hefur kindakjöt í hávegum, en samkeppnin við aðrar tegundir og innflutning er afar hörð. — Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Miklir möguleikar eru til að ná fram margvíslegri hagræðingu í starfsemi afurðastöðva og kjötiðnaði. Þetta segir Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands. Sem kunnugt er samþykkti Alþingi á dögunum lög sem leyfa samstarf og samruna afurðastöðva með undanþágu frá samkeppnislögum. Lögin sem taka gildi bráðlega hafa verið gagnrýnd víða, svo sem af samtökum launafólks og verslunar sem og af stjórnarandstöðunni á Alþingi. Teflt er fram að aukin samvinna, eins og leyfileg verði, geti leitt til hærra vöruverðs og jafnvel einokunar á markaði.

„Ég tel að skipta megi þeirri gagnrýni sem ég hef séð í tvennt. Annars vegar hafa stigið fram þeir sem hafa hagsmuni af innflutningi á kjöti og eru að gæta þeirra hagsmuna eins og vel er skiljanlegt. Hins vegar eru þeir sem hafa áhyggjur af hag neytenda og jafnvel bænda. Ég tel að þær áhyggjur séu ástæðulausar,“ segir Steinþór.

Afkoman er slök

Innlend framleiðsla á kjöti hefur, skv. því sem fram kemur á svonefndu mælaborði landbúnaðarins, staðið nánast í stað síðustu árin á sama tíma og innanlandsmarkaðurinn hefur stækkað með fleira fólki í landinu; það er fjölgun íbúa og ferðamanna.

„Aukinn innflutningur hefur mætt allri aukningu á markaði,“ segir Steinþór. „Svo er komið að af heildarsölu á svína- og nautakjöti er innflutningur um 30%. Ástæða þess að innlend framleiðsla hefur ekki aukist í takt við markaðinn er sú að afkoman af framleiðslu á nauta- og svínakjöti hefur verið slök og bændur ekki séð sér hag í aukinni framleiðslu. Framleiðsla á lambakjöti hefur einnig dregist verulega saman af sömu ástæðu. Kostnaður við slátrun og meðhöndlun á kjöti er alltof mikill sem bæði lækkar verð til bænda og hækkar verð til neytenda. Það eru of margar illa nýttar afurðastöðvar sem nú verður hægt að fækka. Með slíku ætti kostnaður að lækka, bændum og neytendum til hagsbóta.“

Möguleikar og mikið áunnist

Þegar nýsamþykkt lög hafa fengið staðfest gildi er að mati Steinþórs fyrst mögulegt að skoða hvaða hagræðingaraðgerðir skila mestu og fyrirtæki sammælast um. Ekkert gerist nema fyrirtækin nái samkomulagi um hvernig skuli fækka afurðastöðvum og skipta sparnaði sem næst. Fyrir liggi þó, út frá slakri nýtingu, að hægt sé að fækka bæði sauðfjár- og stórgripasláturhúsum. Þó hafi mikið áunnist þar, samanber að SS var á sínum tíma með haustslátrun sauðfjár í sjö húsum á Suður- og Vesturlandi. Nú sé slátrað á Selfossi. Svo megi benda á að í dag stefnir í að slátrað verði sauðfé í fimm sauðfjársláturhúsum á Norðurlandi næsta haust. Í landinu sé einnig slátrað stórgripum í sjö sláturhúsum sem augljóslega megi fækka. Ætla megi að þarna séu möguleikar til hagræðingar, sem efalítið verði skoðaðir þegar nýsamþykkt lög hafa verið birt og gildistekin.

„Ef fækkun afurðastöðva yrði notuð í krafti meintrar fákeppni til að lækka verð til bænda myndi slíkt augljóslega draga enn frekar úr innlendri framleiðslu, sem ekki má gerast. Afurðastöðvarnar eru flestar beint og óbeint undir stjórn bænda svo ég tel þessa hættu ekki til staðar,“ segir Steinþór, og að síðustu: „Svo minni ég líka á að formaður Bændasamtaka Íslands segir breytingar á lögunum bændum til hagsbóta. Ef fækkun afurðastöðva yrði notuð til að hækka verð til neytenda þá leiðir slíkt til aukins innflutnings sem er ekki hagfellt fyrir afurðastöðvarnar eða bændur. Ég tel því að neytendur muni hafa í gegnum lægra vöruverð ávinning af lækkun kostnaðar frekar en að verð hækki umfram eðlilegar verðbreytingar. Stóra málið er að hagræða í slátrun og kjötvinnslu til að lækka kostnað og standa þannig betur gagnvart innflutningi.“

SS áformar að byggja nýtt sláturhús á Selfossi

Þriggja milljarða kr. fjárfesting og framkvæmd

Sláturfélag Suðurlands undirbýr nú að byggja nýja afurðastöð á lóð sinni á Fossnesi á Selfossi. Þetta er vestan Ölfusár, á hægri hönd þegar ekið er inn í bæinn. Afurðastöð félagsins, sem þar stendur nú, var reist árið 1946 og hefur þjónað allt til dagsins í dag. Margvíslegar breytingar hafa verið gerðar á stöðinni og tækjabúnaði hennar í áranna rás, en nú þykir ljóst að ekki verði haldið áfram með því lagi. Betra sé að byggja nýtt, það er aðstöðu til slátrunar á stórgripum og sauðfé auk úrvinnslu aukaafurða, úrbeiningar og fleira. Á sláturtíð sl. haust var alls 93 þúsund fjár lógað á Selfossi og í engu sláturhúsi landsins meira en þar.
Lóðin á Fossnesi við Selfoss er rétt tæpir 10 ha. þannig að talsvert svigrúm er til uppbyggingar. Steinþór Skúlason væntir þess að byggingin verði komin í gagnið eftir fimm ár eða svo og að heildarkostnaður við verkefnið verði um þrír milljarðar króna. Hönnun og undirbúningur er hafinn og þar með rúllar boltinn.