Valkvíði Hrökklisti, þorstalisti, þráskrá, dauðalisti, hinsti-listi, lífslisti, Verðlistinn?
Valkvíði Hrökklisti, þorstalisti, þráskrá, dauðalisti, hinsti-listi, lífslisti, Verðlistinn?
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í veislu um daginn bað afmælisbarn gesti um viðbætur við „bökketlistann“ sinn og fékk strax orðskýringarbeiðni úr sal. Bucket list er huglæg skrá yfir það sem fólk fýsir að sjá/upplifa áður en það deyr, dregið af enska orðtakinu kick the bucket, að andast

Tungutak

Sigurbjörg Þrastardóttir

sitronur@hotmail.com

Í veislu um daginn bað afmælisbarn gesti um viðbætur við „bökketlistann“ sinn og fékk strax orðskýringarbeiðni úr sal. Bucket list er huglæg skrá yfir það sem fólk fýsir að sjá/upplifa áður en það deyr, dregið af enska orðtakinu kick the bucket, að andast. Snöggt gúggl leiddi fram staðfærslurnar hrökklisti og golulisti (sbr. hrökkva upp af, geispa golunni), síðan varð bara svo gaman í afmælinu að málið gleymdist.

Seinna flaug mér í hug að kalla þetta þorstalista, skrá yfir það sem fólk þyrstir í að gera. Eða þráskrá, skrá yfir það sem við þráum. Óskalisti og draumalisti eru jákvæðir, líka blómalisti (getur alltaf á þig blómum bætt), ég var komin út í orð eins og perlufesti, að raða glitrandi atvikum á þráð … Dauðalistinn var settur á varamannabekkinn en stóri tékklistinn fékk að fljóta með, gátlistinn líka, svo reif ég mig frá lista-endingunni með atvikaskrá og óskakorti. Gluggalistinn er pínu smart, hægt að haka í glugga eftir afgreidda drauma, leiklistinn er líka hress. Rím kom við sögu í orðum eins og krossalisti (sbr. tossalisti) og ég mátaði forskeyti eins og pant-, lokk-, klukk- og marklistinn.

Skrýtnast fannst mér að hafa aldrei rekist á „opinbert“ orð yfir þetta, fyrst allir eru sífellt að segja frá því sem þeir ætla/eru að gera. Ég spurði því fésbókarvini hvort gott svona hugtak væri í umferð og svarið var augljóslega nei, því á fyrsta klukkutímanum fékk ég á þriðja tug ólíkra orða, sem sýnir að ekkert eitt hefur vinninginn.

Vinirnir skutluðu fram tillögum sem voru ólíkar, fínar, jafnvel frábærar. Þarna voru gálgalisti og dánarlisti, dæmi úr nýlegri barnabók var lokalisti, nokkrir höfðu séð beinu þýðinguna fötulisti í dægurmenningu, aðrir vildu heldur beinþýða á ská. Körfulisti var þannig ein hugmyndin, og bauklisti, sem er skemmtilega tvöfalt því baukur er ílát (hægt að safna í minningum) og sögnin að bauka viðeigandi. Óskalistinn og draumalistinn sneru aftur, einnig voru lengri tilraunir, áður-en-ég-dey-listi, skvett úr skjólunni, ég-verð-listi og stálheiðarlegt og stutt: listinn.

Kappsmálaskrá og stefnuskrá fóru vel í marga, líka biðlisti, og: „Að heimsækja Orkneyjar er eitt af móðumarkmiðunum mínum.“ Einn vildi að orðið lýsti lífsgleði fremur en endalokum og lagði (eins og fleiri) til lífslistann. Hinum megin voru þeir sem sameinuðust um hinstalistann, eða hið ámóta hljómfagra kistulistinn, þarna eru tvítekin st-hljóð eins og í þorstalistanum góða.

Allt þetta sýnir að á stóra tossalistanum hjá okkur sem þjóð er að smíða gott orð yfir það persónulega flæðirit sem varðveitir drauma okkar, en pistillinn er ekki síður um þessa spurningu: Hvað verður um öll orðin sem búin eru til en komast aldrei í notkun? Enda þau í kirkjugarði orðanna? Eins konar hlégarði? Öskuorðahaug? Eða er kannski írónískt að eiga hundrað tillögur yfir það líka?!