Aðalheiður Guðmundsdóttir, Heiða, fæddist 18. desember 1922. Hún lést 24. mars 2024.

Útför Heiðu fór fram 3. apríl 2024.

Sunnudaginn 24. mars hringdi Svanheiður systir mín í mig og sagði að hún Aðalheiður frænka mín frá Neðri-Dal væri látin.

Ég sest niður og hugsanir streyma fram, því margs er að minnast eftir langa ævi en hún Heiða mín náði að verða 101 árs.

Ég var lítið barn þegar ég kom fyrst að Neðri-Dal til Jóns og Heiðu en ég kallaði þau „hinna mömmu og hinna pabbi“. Þau eignuðust átta syni og var ég litla stelpan þeirra. Heiða frænka hafði einstaklega gott lag á börnum og hún kunni held ég barnasálfræði. Gleymi ég seint þegar ég kom til þeirra 4 til 5 ára og átti að vera í einhverja daga. Hafði ég miklar áhyggjur vegna þess að það kom stundum næturslys. Það gerðist að sjálfsögðu þessa nótt og þegar ég vakna um morguninn var rúmið mitt rennblautt, ég var í mestu vandræðum að komast fram úr svo lítið bæri á þessum vandræðum. Kemur þá Heiða inn með tveimur sonum sínum, mig minnir að það hafi verið Guðmundur og Grímur, hún rífur af mér sængina og segir: „Strákar, það er ekki til siðs hér á þessum bæ að hella kaffi í rúmið hjá næturgestum.“ Mér létti að sjálfsögðu óskaplega mikið og lofuðu þeir betrun og að gera þetta aldrei aftur. Um kvöldið var rúmið mitt skínandi hreint. Þessi saga lýsir Heiðu frænku mjög vel, hún kunni ráð við öllu.

Neðri-Dalur var á tíma mitt annað heimili, þangað var ég alltaf velkomin og dvaldi þar í nokkra vetur. Heiða var hamhleypa til verka og hreif fólk með sér í dugnaðinum. „Nú hvílum við okkur í kort, svo setjum við á hundrað.“ Þau voru alltaf mjög samhent í öllum verkum og bar heimilið þess merki með miklum myndarskap og snyrtimennsku.

Í Sumarlandinu hafa orðið fagnaðarfundir, þar sem þau hjón sameinast á ný ásamt öllum þeirra fjölmörgu vinum sem nú eru gengnir.

Öllum bræðrunum frá Neðri-Dal (átta bræðrum mínum) og þeirra fjölskyldum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Elsku Heiða mín, hafðu þökk fyrir allt og hvíl þú í friði.

Þín

Fjóla Ingimundardóttir.