Lánshæfi Forsvarsmenn bankanna segja að hækkunin endurspegli trú S&P á íslensku bankakerfi.
Lánshæfi Forsvarsmenn bankanna segja að hækkunin endurspegli trú S&P á íslensku bankakerfi.
„Það er ánægjulegt að sjá hækkun á lánshæfismati bankans, sem endurspeglar trú S&P á bæði Íslandsbanka sem og íslensku efnahagslífi og íslensku bankakerfi, en hærra lánshæfi leiðir alla jafna til bættra fjármögnunarkjara, sér í lagi á…

Magdalena Anna Torfadóttir

magdalena@mbl.is

„Það er ánægjulegt að sjá hækkun á lánshæfismati bankans, sem endurspeglar trú S&P á bæði Íslandsbanka sem og íslensku efnahagslífi og íslensku bankakerfi, en hærra lánshæfi leiðir alla jafna til bættra fjármögnunarkjara, sér í lagi á erlendum fjármagnsmörkuðum,“ segir Ellert Hlöðversson fjármálastjóri Íslandsbanka.

Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings (S&P) hækkaði á dögunum lánshæfismat Íslandsbanka, Arion banka og Landsbankans í BBB+ með stöðugum horfum.

Í tilkynningu segir að matsfyrirtækið telji að sú efnahagslega áhætta sem íslenskir bankar standa frammi fyrir fari dvínandi með auknum stöðugleika á húsnæðismarkaði og umtalsvert minni skuldsetningu heimila og fyrirtækja.

Þannig horfir S&P með jákvæðari hætti en áður til þeirrar efnahagslegu áhættu sem íslenskir bankar standa frammi fyrir og hefur lánshæfismatsfyrirtækið endurmetið grunnviðmið íslenskra banka og hækkað það í BBB+ úr BBB-.

Hefur jákvæð áhrif á fjárfesta

Ólafur Höskuldsson, fjármálastjóri Arion banka, segir í samtali við Morgunblaðið að tíðindin séu virkilega jákvæð í ljósi þess að um eitt og hálft ár sé síðan S&P hækkaði áhættumat sitt á efnahagslegum horfum á Íslandi sem gerði það þar með að verkum að eiginfjárstaða bankanna út frá aðferðafræði matsfyrirtækisins lækkaði.

„Það hafði áhrif á getu okkar til að ná fram skilvirkri eiginfjárstöðu og hafði einnig mögulega neikvæð áhrif á viðhorf markaðsaðila til Íslands því fjárfestar horfa að miklu leyti til þessa mælikvarða. Afstaða matsfyrirtækisins var fremur neikvæð til stöðunnar á Íslandi, þá einkum fasteignamarkaðarins,“ segir Ólafur og bætir við að uppfærslan geti því einnig haft víðtækari jákvæð áhrif á afstöðu fjárfesta og annarra hagaðila til Íslands og íslensku bankanna sem erfitt er að mæla.

„Þetta hefur góð áhrif á umræðuna og gerir það líka að verkum að eiginfjárstaða okkar hækkar töluvert út frá aðferðafræði S&P sem gerði okkur kleift að fara í endurkaup sem við tilkynntum í lok dags í fyrradag. Það þýðir að við höfum svigrúm til að vera með skilvirka eiginfjárstöðu en það er mikilvægt því það er dýrt fyrir bæði okkur og viðskiptavini okkar þegar við erum með eins mikið eiginfé og við höfum verið með undanfarið.“

Ólafur bætir við að eiginfjárstaða bankans hafi verið langt umfram það sem bankinn telji vera kjörstöðu til lengri tíma.

„Þetta eru fyrst og fremst virkilega jákvæð tíðindi því það hefur verið þungt fyrir bankana að búa við þessa afstöðu S&P undanfarin ár.“

Mikilvægt fyrir viðskiptavini

Haft er eftir Lilju Björk Einarsdóttur bankastjóra Landsbankans í tilkynningu frá bankanum að hún fagni þessari breytingu hjá S&P og telji það mikilvægt fyrir viðskiptavini að vita að bankinn standi á styrkum stoðum.

„Ég er mjög ánægð og þetta eru frábærar fréttir fyrir okkur öll. Betra lánshæfismat endurspeglar mikla og góða vinnu innan bankans til margra ára og sterka stöðu íslensks efnahagslífs. Við höfum kappkostað að standa okkur vel í samkeppninni og erum leiðandi banki á Íslandi, líkt og S&P bendir á. Góður rekstur bankans skilar sér í samkeppnishæfum kjörum,“ segir Lilja.