Ráðuneyti Margir ríkisstarfsmenn vilja skipta um starf vegna launa.
Ráðuneyti Margir ríkisstarfsmenn vilja skipta um starf vegna launa. — Morgunblaðið/Golli
Einn af hverjum fjórum háskólamenntuðum starfsmönnum í opinberri stjórnsýslu og almannatryggingum hefur hug á að skipta um starf og leita annað samkvæmt lífskjararannsókn BHM. Ef litið er á alla launþega í BHM hefur einn af hverjum fimm mikinn áhuga á því að skipta um starf og/eða vinnustað skv

Einn af hverjum fjórum háskólamenntuðum starfsmönnum í opinberri stjórnsýslu og almannatryggingum hefur hug á að skipta um starf og leita annað samkvæmt lífskjararannsókn BHM. Ef litið er á alla launþega í BHM hefur einn af hverjum fimm mikinn áhuga á því að skipta um starf og/eða vinnustað skv. könnuninni sem rannsóknin er byggð á.

Frá þessu er greint á vefsíðu BHM. Fram kemur að algengustu ástæður þess að félagsfólk vill skipta um starf eða vinnustað eru launin (33%), stjórnunarhættir á vinnustað (27%) og starfstengt álag (18%). Hins vegar er nokkuð mismunandi hvaða ástæður félagsmenn nefndu helst eftir því hvar fólk vinnur og í hvaða geira, að því er fram kemur í greininni.

Fram kom að mest óánægja með launin er meðal starfsmanna hjá ríkinu. Var hlutfall þeirra sem sögðu óánægju sína með þau laun sem þeir fá fyrir aðalstarf sitt vera mjög eða frekar mikla, 43% meðal ríkisstarfsmanna á móti 37% meðal starfsfólks sveitarfélaganna og tæp 28% á almenna markaðnum.

„Hlutfall þeirra sem kváðust frekar eða mjög ánægð með launin var að sama skapi talsvert hærra á almenna markaðnum (39%) en hjá starfsfólki ríkis og sveitarfélaga (25%).“

Svörin sýna ennfremur að mest er óánægjan hjá félagsfólki sem starfar í heilbrigðisþjónustu og fræðslustarfsemi og ánægjan mest í opinberri stjórnsýslu og öðrum geirum.

Könnunin var lögð fyrir félagsfólk í 22 aðildarfélögum BHM í upphafi ársins. Var hún send á 16.563 einstaklinga og bárust 5.730 svör sem gefur 34% svarhlutfall.
omfr@mbl.is