Kjartan Eggertsson
Kjartan Eggertsson
Eyjamenn eiga allan þennan sjó og réttindin þar – ekki ríkið.

Kjartan Eggertsson

Þó svo enginn sé skráður með lögheimili í Breiðafjarðareyjum teljast þeir sem sinna eyjunum bændur, þ.e. hlunnindabændur. Nú ásælist fjármálaráðuneytið í boði Alþingis eignir og lönd þessara bænda.

Á öllum tímum hafa menn nýtt náttúruauðlindir sem best þeir geta með þeirri tækni eða aðferðum sem í boði hafa verið. Þekking á því sem náttúran gefur er misjöfn og oft takmörkuð við landamæri hvers samfélags. Það þótti t.d. skrýtið fyrir daga Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum þegar hingað kom skosk kona og lýsti því að í þanginu í fjörum Breiðafjarðar væru mikil verðmæti. Beitukóngur sem mikið er af á sjávarbotninum á milli eyja var veiddur á tímabili á Breiðafirði, en ríkinu hefur nú tekist að banna veiðar á honum. Hér áður fyrri var beitukóngur helst veiddur til beitu. Kúfskel er víða við strendur en lítið veidd í dag. Sumir bændur höfðu þann háttinn á að sigla með plóg út á sjó og drógu hann svo á spili upp á land.

Á þessar nytjar er hér minnst að réttindi bænda, þar á meðal eyjabænda sem eiga land að sjó, hafa tekið mest mið af gömlum lögum sem mótuðust af nytjum á öldum áður. Það á t.d. við um netalög. Margar nytjar hafa aldrei verið skráðar eða lögfestar sem sjálfsögð réttindi til lífsbjargar. Það er þó alveg ljóst að eyjabændur hafa nýtt allan sjóinn í kringum sínar eyjar og mestallan sjó á innanverðum Breiðafirði. Það er varla sá fermetri til á firðinum sem ekki hefur verið nytjaður til grásleppuveiða, handfæraveiða, selveiða, línuveiða, lúðuveiða eða skelveiða. Þaraskógarnir eru þar og þegar þeir slitna upp eru þeir fæða í fjörum eyja fyrir búfénað, fugla og öll þau skordýr sem eru undirstaða fjölskrúðugs lífs. Þangið er eins og beitiland fyrir búfénað og nú til verðmætrar framleiðslu eftir að hafa verið þurrkað í verksmiðjum og malað. Leirurnar sem eru rotnandi þaragróður voru og eru fullar af örverum og fjörumaðki sem hafður var til beitu. Lífið í þessum leirum gerir sjóinn við innanverðan Breiðafjörð afar næringarríkan.

Allt svæði á milli eyja á Breiðafirði er athafnasvæði eyjamanna. Þeir hafa lagt það undir sig og skipulagt. T.d. eru nú ákveðin svæði athafnasvæði við þangslátt, en þang er geymt í stórum þriggja tonna pokum sem lagðir eru í 20 poka pulsum á því svæði. Önnur svæði eru útvalin til kræklingaræktunar. Ákveðin svæði eru friðuð vegna æðarvarps, en þó skilgreind þannig að sumstaðar innan friðaðs svæðis megi leggja grásleppunet án skaða. Eyjamenn eiga allan þennan sjó og réttindin þar – ekki ríkið. Í raun má líkja eyjunum við bújarðir á meginlandinu. Landamerki eru skýr og klár í eyjunum og þau liggja á sjónum á milli landareigna á meðan þau liggja um holt og hæðir uppi á landi. Sjórinn hefur ekkert verið verr nýttur en haginn eða afréttur hjá kúabóndanum eða fjárbóndanum.

Eyjabændur hafa varðveitt hafarnarstofninn sem telst mikil verðmæti og ferðamenn vilja gjarnan berja augum á ferðum sínum um Breiðafjörð. Haförninn er friðaður samkvæmt lögum og hafa eyjabændur goldið fyrir með ýmsum hætti, en eru stoltir af því.

Nú ætla eyjamenn að virkja þann sjávarfallastraum sem þeim tilheyrir til rafmagnsframleiðslu. Eyjabændur eiga nýtingarréttinn. Bændur uppi á landi hafa selt aðstöðu á landi sínu til nýtingar á vindorku. Þeir segjast eiga þann rétt. Bændur uppi á landi hafa selt stangveiðimönnum aðstöðu á árbökkum og segjast eiga þann rétt að nýta árnar og vatnið í þeim til allra nota og jafnvel orkuöflunar. Engir bændur hafa keypt land sitt til annarra nota en að hafa þar hefðbundinn búrekstur og eru orkuöflun og laxeldi og laxveiðar tiltölulega nýtilkomin búbót. Orkuöflun í sjávarstraumi er af sama meiði og því er réttur eyjabænda alveg augljós. Enda er hann á athafnasvæði þeirra.

Þegar langafi þess sem þetta ritar, Eggert Thorberg Gíslason í Fremri-Langey, fékk boð um að greiða skatt vegna vegalagningar uppi á landi skrifaði hann: „Ég nota ekki vegi, ég sigli minn sjó.“ Hann lifði það ekki að komnir væru vegir í Dalasýslu. Sjórinn okkar eyjamanna er vegur, fæða, orka og ylur. Afurðir hans eru okkar söluvara. Og þó svo enginn eigi lögheimili í Breiðafjarðareyjum í dag eru eyjarnar nytjaðar og enginn veit nema þær verði byggðar aftur og hinar fjölbreyttu nytjar, gamlar sem nýjar, verði verðmæti sem dugi okkur til að halda uppi samfélagi á við það sem við segjumst lifa svo vel við í dag þar sem fjölmennið er sem mest.

Breiðafjarðareyjar og sjórinn á innanverðum firðinum eru ekki óbyggðir og ekki þjóðlenda eða afréttur.

Höfundur er eyjabóndi á Breiðafirði.