[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þarna eru engin skil, myndir okkar eru saman og við eigum í samtali.

Listamennirnir Kees Visser og John Zurier sýna verk í Berg Contemporary á sýningu sem heitir Þar sem við erum og stendur til 11. maí. Verkin voru gerð sérstaklega fyrir sýninguna.

Listamennirnir hafa báðir dvalið hér langdvölum undanfarin ár og eiga vini í íslensku listalífi.

Kees Visser hefur verið viðloðandi íslenskt listalíf frá árinu 1976, allt frá því hann sýndi fyrst í SÚM-salnum. Hann býr og starfar í Hollandi, föðurlandi sínu, og á Íslandi til skiptis. Verk hans er að finna í mörgum merkum söfnum, má þar nefna Viktoríu- og Albertssafnið í London, Bibliothèque Kandinsky í Centre Pompidou í París og Stedelijk-safnið í Amsterdam.

John Zurier hefur vakið athygli víða um heim vegna næmni listamannsins fyrir málverkinu. Zurier býr og starfar í Berkeley í Kaliforníu til jafns við Ísland. Verk hans hafa meðal annars verið sýnd Í SFMOMA í Kaliforníu, Moderna-safninu í Svíþjóð og á Whitney-tvíæringnum í New York.

Visser málar pappírsmálverk og Zurier málar abstraktverk þar sem hann vinnur með ljós, liti og pensilstrokur af mikilli nákvæmni.

Ísland valdi mig

Þeir eru vinir, hittust árið 2016 á Íslandi. Blaðamaður spyr þá af hverju þeir hafi valið Ísland sem sitt annað land. „Ég átti ekkert val, Ísland valdi mig,“ segir Zurier.

„Þetta er gott svar,“ segir Visser og bætir við: „Ég hef aldrei orðið jafn hrifinn af landi eins og þegar ég kom hingað, ég er enn hrifinn.“

Zurier heldur áfram: „Þegar ég kom hingað var ég alveg óviðbúinn því sem mætti mér. Náttúrufegurðin gerði mig agndofa. Ég kem frá Kaliforníu þar sem mælikvarðarnir eru stærri, fjarlægðirnar meiri og fjöllin stærri. Á Íslandi er sérkennileg þversögn í landslaginu því það sem er langt í burtu virðist stundum vera nálægt. Sem myndlistarmanni fannst mér þetta heillandi.

Ég var að mála myndir sem minntu á Ísland áður en ég kom hingað. Það var ekki eins og ég kæmi hingað og yrði fyrir áhrifum af litunum sem ég sá heldur þekkti ég þá.“

Spurðir hvort þeir séu á einhvern hátt líkir sem listamenn segir Zurier: „Ég held að það sé mikill skyldleiki milli okkar þegar kemur að viðhorfi til hlutanna. Þegar við hittumst fyrst töluðum við um tónlist, sameiginlega ást á Íslandi og ferðalög um landið. Þegar við fórum síðan að tala um myndlist gerðum við okkur grein fyrir að við ættum afar margt sameiginlegt.

Mér finnst eins og þessi sýning hafi verið í vinnslu alveg frá því við hittumst fyrst. Hún er leið fyrir okkur til að sameinast, eiga í samtali og koma auga á ólíka nálgun. Við höfum báðir orðið fyrir áhrifum af náttúrunni og hugsum mikið um hlutföll. Ég hugsa mikið um það hvað er nóg og vil hafa þunn lög í myndum mínum, þveröfugt við Kees sem vill hafa mörg lög.“

„Verk mín eru oft fletir með mörgum málningarstrokum og þannig leitast ég eftir að skapa djúp og fíngerð litaáhrif,“ segir Visser.

Spurðir hvort þeir viti fyrir fram hvernig mynd sem þeir byrja á verði segir Visser: „Ég geri það ekki, ég veit ekki útkomuna.“

Zurier svarar sömu spurningu með lítilli sögu: „Ég var einu sinni í Finnlandi með öðrum að ferðast með manni sem átti að fara með okkur frá stað A til staðar B. Hann dró upp kort og við stoppuðum og kíktum á það og sögðum: Já, við erum hérna! Það er nokkurn veginn mín afstaða. Oftast veit ég ekki hvernig myndin mun verða og hún kemur mér þess vegna á óvart.“

Engin skil

Myndir þeirra hanga saman á veggjum gallerísins. „Stundum eru samsýningar tveggja listamanna aðskildar, myndir annars listamannsins eru í einum sal og hins í öðrum sal. Þar er verið að draga skil milli listamanna. Þarna eru engin skil, myndir okkar eru saman og við eigum í samtali. Sýningin er sjónrænt samtal milli tveggja listamanna sem dást að verkum hvor annars,“ segir Zurier, snýr sér að Visser og segir: Ég dáist að verkum þínum. Ég var að hugsa um þín verk þegar ég gerði mín.“

„Sömuleiðis,“ segir Visser með áherslu og bætir við: „Eins og John sagði þá höfum við áhuga á verkum hvor annars og viljum að þau séu í samtali.“

Til íslenskra myndlistarunnenda senda vinirnir þessi skilaboð: „Komið endilega og skoðið!“