Þór Breiðfjörð Kristinsson
Þór Breiðfjörð Kristinsson
Ekki átti ég von á að tjá mig um kjör biskups. En þar er frábær maður til kallaður sem ég mátti til að tjá mig um.

Þór Breiðfjörð Kristinsson

Sem söngvari við athafnir hef ég þau forréttindi og ljúfa skyldu að leggja mitt á vogarskálarnar á mikilvægum stundum í lífi fjölskyldna. Fyrir þau okkar sem förum alla jafna ekki í kirkju nema við skírnir, fermingar, brúðkaup og útfarir eru þetta samt sem áður eftirminnileg og mikilvæg augnablik. Kirkjur landsins hafa aðstöðu og sérhæfingu í að sinna þessu hlutverki. Í gegnum aldir og árþúsundir hafa þessar athafnir þróast til þess að gefa okkur blöndu af hátíðleik, mennsku og – já – trú, hvernig sem við skilgreinum slíka óáþreifanlega hluti í hjarta okkar. Í mínum huga er trú ekki það sama og trúarbrögð. Trú er eitthvað – hugsanlega órætt og óáþreifanlegt – í hjartanu. Trúarbrögðin eru skipulagning fólks í sameiginlegan hóp til að stunda trúna. Guð (eða Óðinn) veit að þar sem mennirnir eru eins misjafnir og þeir eru margir þá hefur sú „skipulagning“ farið í alls konar mannlegar og misheppnaðar áttir í gegnum söguna. En það er ekki ástæða til að kasta barninu út með baðvatninu. Lýðræði er til dæmis ekki lagt niður þótt það sé stundum óttaleg súpa; það heldur áfram að þróast og er stöðug barátta af því að kjarninn í því er kærleikur og löngun eftir samfélagi þar sem okkur öllum líður vel.

Þjóðkirkjan er hópur af ólíkum sauðum, svo maður noti sígilda biblíulíkingu, fólki með alls kyns skoðanir, vilja og valkosti. Samt eru þessar sundurleitu manneskjur að koma saman í kirkju til að fagna fæðingu, bláupphafi fullorðinsára, hjónabandi og, ef allt fer á besta veg, lífi vel lifuðu. Í einstaka tilfellum er því miður verið að kveðja ástvin sem yfirgaf okkur allt of snemma og skilur eftir sig sáran harm og missi. Þá er athöfnin með sínu formi, sem felur í sér orð, tónlist og samveru, byrjun á sorgarferli og oft ótrúlega dýrmæt. Það sem fólk gleymir oft er að við þessar athafnir kemur saman fjölskylda sem kannski hittist sjaldan í dagsins önn, jafnvel ekki árum saman, og það gefur ótrúlegan styrk.

Það eru vissulega aðrar stofnanir og trúarbrögð í boði til að annast þessa þjónustu en okkar saga og menning er sterklega bundin þjóðkirkjunni og þar með minningum af tímabilum í lífi fjölskyldumeðlima í gegnum árin sem hafa farið fram þar.

Og svo er eitt sem fólk oft gleymir: Ég hef orðið var við í gegnum árin að starfsemi kirkna ristir mikið dýpra en þessar grunnathafnir, ekki síst þegar eitthvað bjátar á. Kirkja er samfélag. Það er sægur af fólki tengdu kirkjum um allt land sem gefur endalaust af sér til þeirra sem eiga í persónulegum vanda, eiga um sárt að binda eða til málefna sem okkar skattpeningur hefur ekki náð utan um. Kirkjur gegna fjölskrúðugu samfélagshlutverki fyrir marga. Stuðningur við fólk og fjölskyldur er svo miklu umfangsmeiri en virðist við fyrstu sýn.

Þarf þessi starfsemi endilega að fara fram í gegnum kirkjuna eða tengjast trú? Nei, en staðreyndin er að í mörgum tilfellum gerir hún það og fólkið sem leggur fram krafta sína hefur mismunandi trú í hjarta, allt frá því að lesa biblíuna daglega yfir í að trúa að kærleikurinn sé eina boðorðið, eina markmiðið að stefna að og hvort sem Jesús var eins og segir í bókinni eða ekki þá var hann svalur gaur með hugmynd svo einfalda að hún var snilld.

Kirkjan er til staðar og hefur verið það í þúsund ár hér á landi, hún er í stöðugri þróun og verður að vera í stöðugri þróun.

Húsin eru til staðar, fólkið, reynslan og viljinn til að gera gott. Svo mörg okkar eru þeirrar skoðunar að það sé óþarfi að byrja frá grunni annars staðar.

Vandinn sem þjóðkirkjan hefur staðið frammi fyrir er að vaxandi fjölda fólks finnst hún ekki vera að þróast í takt við tímann. Samt vill fólk ákveðna hefð og framhald á okkar menningu. Sumir vilja hátíðleika og hefð, aðrir óformlegheit og minni „helgislepju“. Það er því ekki hlaupið að því að sameina fólk undir einu þaki.

Það sem mér þykir einkenna Guðmund Karl Brynjarsson í þeim samskiptum og athöfnum sem ég hef orðið vitni að er fallegt jafnvægi sem einkennist af mennsku og viðleitni til að mæta fólki á jafnræðisgrundvelli. Í athöfnum talar hann á mannamáli og frá hjartanu, blandar jafnt saman tilvitnunum og ljóðum Bobs Dylans við línur Biblíunnar og íslenskra þjóðskálda; finnur sína leið hjartans að hjarta þeirra sem sitja og hlýða á. Hann virðist ná jafn vel til yngra fólks og hinna eldri.

Við spjall við hann kemur fram velvilji, kærleikur og já trú; sem er auðvitað ekki slæmur hlutur í fari prests. Samt finnst mér alltaf að orð Jesú, frekar en Gamla testamentisins, séu hans leiðarljós. Kærleikurinn skal vera mælistikan við allar ákvarðanir.

Ég hef þá trú að Guðmundur Karl ljái jafnt hefðbundnari röddum kirkjunnar sem og þeim framsæknari sín eyru og þannig þarf biskup Íslands einmitt að vera.

Fyrir mitt leyti myndi hann efla mína trú á samfélagshlutverki kirkjunnar til framtíðar.

Höfundur er söngvari og leikari.

Höf.: Þór Breiðfjörð Kristinsson