Karl J. Steingrímsson fæddist 19. mars 1947. Hann lést 22. febrúar 2024.

Útför hans fór fram 19. mars 2024.

Minningin um Kalla er á margan hátt tengd lífshlaupi mínu og Unnar minnar frá því að við kynntumst á unga aldri. Kalli, sem var giftur Ester „stóru“ systur Unnar, tók mér sem bróður frá byrjun okkar kynna. Það þýddi að allur bræðrapakkinn fylgdi með. „Heyrðu! Þetta er Kallinn sem þú ert að tala við“ var ekki óalgeng setning sem kom frá honum. Bróðurleg umhyggja og langlundargeð af hans hendi einkenndi okkar samskipti í gegnum árin.

Kalli var þekktur fyrir að vera fastur fyrir í viðskiptum og umsýslu fasteigna sem voru margar og stórar á lífsleiðinni. Hann hafði sterka réttlætiskennd og aldrei man ég eftir að hann hafi hreykt sér upp og slegið sér á brjóst fyrir hjálp og aðstoð fjárhagslega eða greiðasemi sem hann veitti mörgum sem þurftu á hjálp að halda.

Kalli var maður framkvæmda, en færri orða. Allt sem hann gerði og starfaði við var tekið alla leið. Hann fæddist ekki með silfurskeið í munni. Hann þoldi ekki bruðl með peninga (nema þegar ég reddaði honum humri). Hann var lífsnautnamaður og ekki óalgengt að fólk hitti hann og Ester „úti á lífinu“ um helgar.

Nú þegar við Unnur kveðjum elsku Kalla okkar vitum við að seinna, þegar okkar tími kemur, þá hittumst við aftur. Kalli átti sterka trú á Drottin Jesú og fór óhræddur á hans fund.

Ég kveð þennan fallega bróður minn með söknuði og þakklæti og þeirri fullvissu að hann er á himnum.

Við Unnur sendum elsku Ester og börnum, tengdabörnum, barnabörnum og barnabarnabarni innilegar samúðarkveðjur.

Sigurmundur
G. Einarsson.