— Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mér fannst þetta grindverk Ásmundar áhugavert, það er mjög sjónrænt og gert af natni eins og allt sem hann gerði.

Á sýningunni Hendi næst í Ásmundarsafni sýna tíu samtímalistamenn verk sín í samspili við verk Ásmundar Sveinssonar.

Sindri Leifsson er í hópi þeirra listamanna sem þarna sýna. Verk hans á sýningunni eru fjögur. Eitt þeirra er grindverk sem Sindri smíðaði og er í miðju sýningarrýminu. Verkið nefnist Krúna. „Það er lauslega byggt á girðingu sem Ásmundur smíðaði utan um húsið á þeim tíma þegar ekki var mikið byggt þar í kring. Maður sér fyrir sér að það hafi jafnvel verið gert til að halda dýrum fyrir utan garðinn,“ segir Sindri. „Mér fannst þetta grindverk Ásmundar áhugavert, það er mjög sjónrænt og gert af natni eins og allt sem hann gerði. Ég smíðaði grindverkið úr hlyn og stáli og svo er á því lítið glópagull.“

Hugsun um ferskju

Segja má að glópagullið hafi endað í grindverkinu fyrir slysni. Sindri var að smíða marmaraexi, sem er á sýningunni, þegar handfangið brotnaði af henni. „Ég áttaði mig fyrst ekki á því hvað hafði gerst en svo kom í ljós að lítill glópagullsmoli var inni í marmaranum og hafði brotið marmarann í sundur. Ég hélt fyrst að þetta væri gull en svo var þetta bara glópagull. Öxin er á sýningunni með þessu broti en þetta litla glópagull setti ég á grindverkið,“ segir Sindri.

Sindri sýnir einnig þrjá nagla sem hann smíðaði úr marmara. „Mér finnst gott að smíða verk úr marmara því þar er það efniviðurinn sjálfur sem stýrir því nokkurn veginn í hvaða átt er farið. Þannig er ég yfirleitt ekki búinn að ákveða fyrirfram formin á skúlptúrunum.

Þótt marmari sé harður viðkomu þá er hann mjög stökkur, brotnar auðveldlega og það kvarnast upp úr honum. Þannig að ef þessi verkfæri, öxin og naglarnir, sem ég smíðaði væru notuð í því ástandi sem þau eru þá myndu þau brotna því efniviðurinn er svo viðkvæmur.“

Á sýningu Sindra er einnig marmaraplata með glópagulli. Titill verksins er Hugsað um ferskju. „Ég sá alltaf fyrir mér ferskju á þessum platta en ég nota oft ferskan efnivið í skúlptúrana mína, eins og ávexti. Í janúar og febrúar er harður raunveruleiki Íslands sá að það eru ekki til ferskjur á Íslandi þannig að ég varð að láta mér nægja að hugsa um ferskjuna,“ segir Sindri.

Hann segir verk sín á sýningunni vera nokkuð í anda þess sem hann hefur áður gert. „Ég er að vinna með verkfæri, vinnslu efna og umbreytingu efniviðarins þar sem eru mjög slípaðir fletir á móti hráum efnivið. Ég er ekki að reyna að gjörvinna efniviðinn heldur er ég í samtali við efnið.“

Vinnur með andstæður

Anna Júlía Friðbjörnsdóttir sýnir þrjú verk á þessari sömu sýningu.

„Verkin eru aðallega úr steinleir og gifsi og standa hvert og eitt fyrir hluta í jöfnunni E = mc2. Í stuttu máli felur jafnan í sér að orka og massi geti skipt um stöðu,“ segir Anna Júlía.

„Við undirbúning sýningarinnar skoðaði ég aðferðir, hugmyndir og umfjöllunarefni Ásmundar en í verkum sínum vísar hann til eins ólíkra þátta og náttúruaflanna og trúarbragða. Arkitektúr hússins var líka mikilvægur innblástur varðandi efnisval og útfærslur.

Umbreytingarferli var mér efst í huga og ég kaus að nota leir í verkin, sem ég hef ekki notað áður. Leirinn er svo milliliðalaus efniviður og svo teiknast þessi dökki steinleir fallega inn í rýmið. Ég mótaði kúlur úr leir, eða perlur, og þræddi upp á bönd. Ég hef notað perlur úr öðrum efnum áður. Þær eru grunneining sem ég get leikið mér með og raðað upp, næstum eins og atóm.“

Eitt af verkum Önnu Júlíu á sýningunni er hengi sem ber titilinn Vers á m. Leirkúlum á lóðréttum lengjum er raðað upp þannig að þær mynda morskóða og stafa tvö brot úr Völuspá, annars vegar um sköpunina og hins vegar endalok heimsins: Sól varp sunnan … og Sól tér sortna …

„Hengið er nytjahlutur, skúlptúr og innsetning. Það er gert ráð fyrir að áhorfandinn gangi þar í gegn og virki massann með afli sínu og leysi þannig út orku,“ segir Anna Júlía. „Ég vinn mikið með andstæður og verkið er í senn einfalt, flókið, frumstætt og vísindalegt. Ég hef verið að vinna með allskonar kerfi sem við búum okkur til til að skilja heiminn og túlka hann. Ég held að fólk skynji oft að verkin mín byggist á stífum kerfum þótt það átti sig kannski ekki endilega á þeim.“

Annað verk á sýningunni er standur með handlegg sem á er armband. „Þetta verk heitir c2, eða ljóshraði í öðru veldi, og á armbandinu eru sextíu perlur. Höndin, sem er afsteypa af minni hendi, vísar upp til himna og er kópía af stellingu Jóhannesar skírara í málverki Leonardos da Vinci. Höndin gefur til kynna hreyfingu upp á við og perlurnar fara stækkandi á bandinu. Þær minna á skart en líka á einhvers konar klukku eða jafnvel talnaband. Höndin sem er úr hvítu gifsi er andstæða ryðgaða standsins sem upphaflega var gerður fyrir einhvers konar mælitæki. Ég stilli líka upp ákveðinni andstæðu við hið karllæga í list Ásmundar.

Þriðja verkið e í E hangir uppi í hvelfingu kúlunnar sem var vinnustofa Ásmundar. Það byggist á talnaröð sem er gildi frumhleðslu (e) sem perlurnar stafa í morskóða svo bókstaflega mætti tala um talnaband eða talnafesti. „Það verk er unnið sérstaklega inn í arkitektúrinn og kallast á við stef hans og Ásmundar á ýmsan hátt.“

Listamenn sem sýna á
sýningunni Hendi næst

Ásmundur Sveinsson

Anna Júlía Friðbjörnsdóttir

Anna Óttarsdóttir

Árni Jónsson

Carissa Baktay

Elísabet Brynhildardóttir

Hildur Bjarnadóttir

Klemens Hannigan

Ragnheiður Gestsdóttir

Sigurrós G. Björnsdóttir

Sindri Snær Leifsson.