Reykjavík Umrætt uppbyggingarsvæði er á reitnum ofan við breiður hinna hvítu húsa í Úlfarsárdalnum.
Reykjavík Umrætt uppbyggingarsvæði er á reitnum ofan við breiður hinna hvítu húsa í Úlfarsárdalnum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég fagna allri uppbyggingu í hverfinu. Með fjölgun íbúa má vænta að nærþjónusta geti eflst sem aftur mun styrkja svæðið,“ segir Björn Ingi Björnsson, formaður Íbúasamtaka Úlfarsársdals. Sem kunnugt er samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Ég fagna allri uppbyggingu í hverfinu. Með fjölgun íbúa má vænta að nærþjónusta geti eflst sem aftur mun styrkja svæðið,“ segir Björn Ingi Björnsson, formaður Íbúasamtaka Úlfarsársdals. Sem kunnugt er samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur á dögunum að hafist yrði handa við að skipulegga íbúðasvæði við Halla og í Hamrahlíðarlöndum í Úlfarsárdal. Þetta var tillaga Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Verði 3-4 þúsund manna íbúðabyggð

Sagt er að með góðu móti sé hægt að koma fyrir 3-4 þúsund manna íbúðabyggð á fyrrnefndu skipulagssvæði, sem er vestan og norðan við núverandi byggð í Úlfarsárdal. Þetta er nærri því svæði sem heitir Grund, þar sem lengi var aðstaða fisflugmanna. Í grenndinni er einnig byggingavöruverslunin Bauhaus. Nú búa um 5.500 íbúar í Grafarholti og 3.000 í Úlfarsárdal. Verði byggt í Halla og Hamrahlíð myndi verulega bætast við, en þó má halda því til haga að upphaflega var gert ráð fyrir að hverfið í Úlfarsárdal yrði miklu fjölmennara, eða að þar byggju 20-30 þúsund manns.

„Fyrir nokkrum árum stóð til að breyta aðalskipulagi og taka væntanlegt íbúðasvæði undir iðnaðarstarfsemi. Þau áform náðum við íbúar að koma í veg fyrir. Nú verður þarna blönduð byggð með þrifalegum vinnustöðum og ég tel fara vel á slíku. Þessi hluti Úlfarsárdalsins er svæði mikilla tækifæra, en þá þarf líka að hugsa fyrir því að samgöngur á svæðinu verði greiðar og skoða fyrirkomulag skólamála. Ég vona líka að þetta flýti fyrir því að Fram, sem er með sína aðstöðu í Úlfarsárdal, fái líka sem fyrst knatthúsið sem þeim var lofað. Einnig myndu margir vilja fá matvöruverslun í dalinn, umræðan meðal íbúa hefur verið sú,“ segir Björn Ingi Björnsson.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður skipulagsráðs Reykjavíkur, segir að nú sé yfirstandandi vinna átakshóps við að hraða húsnæðisuppbyggingu í borginni. Bregðast þurfi við, m.a. vegna ástandsins í Grindavík.

„Tillögu Sjálfstæðisflokks var vísað inn þennan hóp en svo mun koma í ljós hvort þessar hugmyndir séu meðal þeirra verkefna sem eru þar í forgangi. Það fer væntanlega eftir því hvort þær séu metnar vera til þess fallnar að styðja við markmið um hröðun uppbyggingar á hagkvæman hátt,“ segir Dóra Björt og heldur áfram:

Önnur svæði bera fjölgun betur

„Ein stór áskorun á þessu svæði er að grunnskólinn ber ekki mikla fjölgun. Svo telja líklega flestir nægt álag á Ártúnsbrekku nú þegar svo ekki sé jákvætt skref að auka þar á. Því skiptir tilkoma skilvirkra almenningssamgangna miklu máli þarna. Aukin uppbygging þyrfti að vera í takt við tilkomu borgarlínu og aukinn árangur í því að breyta ferðavenjum. Jafnvel þótt það gæti verið talið góð þróun að byggja meira í Úlfarsárdal til lengri tíma er líka spurning hvaða tímapunktur hentar. Enn er svigrúm til uppbyggingar á svæðum þar sem innviðir bera fjölgunina betur enda kostar uppbygging hvers grunnskóla fleiri milljarða. Aðrar lausnir eru enn sem komið er líklega skynsamlegri þegar kemur að samgöngutengingum.“